*

miðvikudagur, 20. október 2021
Andrés Magnússon
14. júlí 2019 13:43

Vandræði vestra

Erfitt er að halda því fram að sífelldur skætingur Trumps hafi ógnað meiru en sálarró blaðamanna þar. Lífshættan er annars staðar.

Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
epa

Hér var í liðinni viku fjallað talsvert um Bandaríkin í tilefni þjóðhátíðardags þeirra hinn 4. júlí. Bæði um tjáningarfrelsið, sem var bæði snar þáttur í upphafi byltingarinnar gegn nýlenduvaldi Breta og í fyrsta sinn í heimsögunni varið sérstaklega í stjórnarskrá, en einnig um þróun fjölmiðla þar vestra, sem undanfarna öld og rúmlega það hafa jafnan verið brautryðjendur ámóta þróunar í öðrum löndum. Aðeins af þeirri ástæðu er vert að gefa þeim sérstakan gaum, en svo ræðir þar auðvitað um voldugasta ríki heims vorra daga, svo sviptingar vestanhafs hafa áhrif um heim allan.

Undanfarin ár hafa menn þannig verið mjög uppteknir af uppgangi félagsmiðla, sem undantekningalaust eiga rætur að rekja til Bandaríkjanna. Þar hafa menn staldrað sérstaklega við hlutverk þeirra sem hina nýju hliðverði fjölmiðlunar, hvernig þeir hafa þrifist á fréttum sem raunverulegir fjölmiðlar leggja þeim til án endurgjalds og oft án þess að geta endurheimt kostnaðinn, hvernig algrímin hafa áhrif á það hvað menn frétta og hverju menn trúa. Sömuleiðis auðvitað falsfréttirnar frægu, hvernig óprúttnir aðilar geti komið falsi í fréttalíki á framfæri um félagsmiðla og þannig haft áhrif á almenningsálit, jafnvel kosningahegðan og sambúð ríkja.

Óróleiki vegna þessa alls er vitaskuld meiri en ella vegna þeirra breytinga, sem yfir standa í fjölmiðlaheiminum: hinir hefðbundnu fjölmiðlar eiga stöðugt erfiðar með að standa undir sér með sama hætti og áður, en þeir hafa hver af öðrum týnt tölunni. Uppgangur pópúlisma um allar trissur er ennfremur gjarnan tengdur þessari þróun, þó menn séu raunar engan veginn með orsakasamhengið á hreinu, en það er jafnframt auðveldara að greina aukna áherslu nánast allra greina fjölmiðla á litríkari frásagnir, jafnvel litaðar.

Sumpart er þar vafalaust um eðlilega samkeppnisviðleitni að ræða. Í harðri og hatrammri samkeppni eru menn fljótir að elta hver annan um það sem athygli, æsingu og auglýsingatekjur vekur. En svo má líka vel vera að þar ræði ekki síður um tíðaranda, sem örðugra er að rekja með nokkurri nákvæmni.

Þá er rétt að drepa á þátt Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem þrífst á árekstrum og umdeilu, og hefur brotið blað í stjórnmálum, stjórnsýslu og milliríkjasamskiptum með hvassyrtu yfirlýsingaflóði á Twitter alla daga. Ekki er þó síður ástæða til að minnast á óvægna gagnrýni hans á blaðamenn og fjölmiðla, aðallega þá sem honum finnast sér mótdrægir, en engan veginn þá eina.

Sú gagnrýni, þar sem forsetinn hefur ekki veigrað sér við að útnefna menn þjóðníðinga eða fávita, hefur skiljanlega vakið ugg með mörgum um hversu mikils Trump meti í raun frelsi og hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Eða stöðu og öryggi blaðamanna, sem hafa það sérstaka og dómhelgaða hlutverk að halda valdaöflum við efnið og veita þeim viðnám. — Minnug orða Actons lávarðar um valdið.

                                                                                           * * *

Að því öllu sögðu má kannski orða það sem svo, að rétt eins og flestar framfarir í fjölmiðlum má rekja til Bandaríkjanna, þá kunni helstu áhyggjuefnin um fjölmiðlun og tjáningarfrelsi einnig að vera þaðan sprottin. En það er rangt. Vandamálin kunna að hafa birst þar fyrst og valda mestum áhyggjum í hinu opna samfélagi vestra, en það þarf líka að varast að gera of mikið úr vandanum.

                                                                                           * * *

Það er varla hægt að gera of mikið úr útbreiðslu hinna alltumlykjandi samfélagsmiðla, en það er ekki þar með sagt að áhrif þeirra séu jafnmikil. Nýleg rannsókn Reuters-stofnunarinnar, þar sem skoðuð er afstaða og aðstaða liðlega 75.000 manns í 38 ríkjum víða um heim, aðallega í hinum þróuðu og lýðfrjálsu hagkerfum, sýnir þannig afdráttarlaust að fólk treystir „sínum miðlum“ yfirleitt ákaflega vel, það er að segja þeim miðlum sem það notar reglulega, og fjölmiðlum yfirleitt alveg bærilega. Þar ræðir fyrst og fremst um hefðbundna miðla, en oft netútgáfur þeirra, sem jafnan skila minni tekjum en móðurskipin þó þau standi fæst mjög vel. Hins vegar treysta menn miklu, miklu síður fréttum, sem þeir finna eftir leit á netinu, og enn síður fréttum á félagsmiðlum.

Að því leyti er þegar minni ástæða til þess að hafa áhyggjur af falsfréttum en ætla mætti af umræðunni liðin misseri. Enn frekar þó þegar horft er til ýmissa rannsókna, sem gerðar hafa verið á falsfréttum sérstaklega. Þær hafa vissulega staðfest nokkrar bylgjur falsfrétta, iðulega til útbreiðslu á pópúlískum viðhorfum, órökstuddum ef ekki beinlínis á röngum eða vísvitandi röngum forsendum.

Sömuleiðis að þær megi einatt rekja til fjarlægra dreifingarmiðstöðva, ekki síst í Rússlandi og Kína. Hins vegar hafa þær rannsóknir einnig leitt í ljós að áhrif þeirra hafi verið hverfandi. Sá fjöldi fólks, sem leit þessar fréttir augum (erfiðara er að meta hversu margir lögðu trúnað á þær), hafi verið aðeins agnarbrot af heildarfjölda fólks á félagsmiðlum og einstaklega hæpið að falsfréttirnar hafi nokkru breytt svo heitið geti um afstöðu almennings, hvað þá að rekja megi einstök kosningaúrslit til þeirra.

Það kann að vera freistandi að draga slíkar ályktanir þegar óvænt úrslit koma upp úr kjörkössunum, líkt og gerðist í síðustu forsetakosningum vestanhafs eða í Brexit-atkvæðagreiðslunni í Bretlandi, en af rannsóknunum að dæma er enginn fótur fyrir því. Og aðrar skýringar nærtækari.

Hið sama er upp á teningnum þegar litið er til uppgangs pópúlisma víða um heim. Það er örugglega rétt athugað að pópúlistar hafi víða nýtt sér nýja möguleika félagsmiðla –  hvort heldur horft er til arabíska vorsins, evrópskra rasista eða íslenskra pírata –  en það má ekki síður rekja til þess að þeir áttu engar aðrar greiðar leiðir til almennings.

Eins er afar erfitt að halda því fram að sífelldur skætingur Trumps hafi ógnað meiru en sálarró blaðamanna þar í landi. Það er í öðrum löndum þar sem blaðamenn hverfa, eru drepnir af glæpahringjum eða sæta fordæmingu almennings.

                                                                                           * * *

Ekki svo að skilja að fréttamiðlar eigi ekki víða undir högg að sækja, en það hefur áður, nei oftast átt við. Einmitt af því að þeir segja fréttir, eitthvað sem einhver vill síður að fréttist. En sú hætta sem þeim er helst búin á Vesturlöndum er af markaðsástæðum fremur en öðru. Lífshættan er annars staðar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.