Varaþingflokksformaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, stendur fyrir sérstakri umræðu á Alþingi í dag um verðbólgu, vexti og stöðu heimilanna. Til svara verður Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Verðbólga hefur að undanförnu mælst hærri en nokkru sinni á undanförnum 13 árum og meginvextir Seðlabanka Íslands hafa hækkað um 633% frá því í maí á síðasta ári,” segir í tilkynningu sem Flokkur fólksins sendi fjölmiðlum. Þá eru útlistaðar þær spurningar sem þingmaðurinn hyggst beina til ráðherra.

Fyrsta spurningin á lista Ásthildar snýr að því hvort ríkisstjórnin styðji aðgerðir Seðlabankans gegn verðbólgunni, sem virðist aðallega felast í vaxtahækkunum, og til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hafi sjálf gripið til að sporna gegn verðbólgunni. Það er kannski rétt að benda þingmanninum á að Seðlabanki Íslands er sjálfstæður og því málinu óviðkomandi hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru sammála mati bankans á nauðsynlegum vaxtabreytingum hverju sinni. Ríkisstjórnin fær þeim ekki breytt. Aftur á móti er ákjósanlegt að Seðlabankinn og ríkisfjármálin rói í sömu átt og því réttlætanlegt að velta fyrir sér hvort nægjanlegt aðhald sé í ríkisrekstri til að sporna gegn frekari þenslu.

Að auki spyr þingmaðurinn hvort til greina komi að takmarka þann fjölda íbúða sem efnað fólk og fjárfestar geti sankað að sér með það að leiðarljósi að draga úr eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og kæla þannig markaðinn. Það myndi þá leiða til aukins framboðs íbúða fyrir fólk sem þarfnist húsnæðis til eigin nota. Biður þingmaðurinn ráðherra síðan um að rökstyðja hvers vegna ekki, sé svarið neikvætt.

Í fyrsta lagi má spyrja sig að því hvort hér sé um raunverulegt vandamál að ræða en samkvæmt gögnum Þjóðskrár hefur hlutfall íbúða í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina slíka haldist stöðugt í kringum 20%, a.m.k. síðastliðinn áratug en alls er um að ræða 31 þúsund íbúðir árið 2022. Til samanburðar eru 22 þúsund íbúðir í eigu lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð. Er þá ekki allt eins jafn aðkallandi að banna leigufélög? Að öllum líkindum er stór hluti þessara fasteigna, sem einstaklingar eiga umfram eina, fasteignir sem foreldrar eiga á móti börnunum sínum, eða annað heimili fólks af landsbyggðinni í borginni.

Þá má velta fyrir sér hvernig koma mætti þessum íbúðum aftur út á markaðinn. Líklega myndi það kalla á stórfellt eignarnám ríkisstjórnarinnar hjá þeim sem hafa fest fé sitt í fleiri en einni fasteign. Svo ekki sé talað um takmarkanir á atvinnufrelsi þeirra sem kjósa að eiga íbúðir til útleigu. Um ansi stórtækar aðgerðir væri því að ræða sem vandséð er að standist áskilnað um meðalhóf og nauðsyn við takmörkun mannréttinda.

Standi raunverulegur vilji til þess að leysa framboðsvanda á húsnæðismarkaði væri nær að biðja stjórnvöld að líta í eigin barm í stað þess að takmarka frelsi einstaklingsins til athafna enda má færa sannfærandi rök fyrir því að hið opinbera beri umtalsvert meiri ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaði en þeir sem eiga fleiri en eina fasteign.

Næst leitast Ásthildur við svörum við því hvernig það geti dregið úr verðbólgu af völdum hækkandi húsnæðiskostnaðar að auka hann enn meira með því að hækka vexti. Skemmst er frá því að segja að á slíkum vangaveltum er tekið í hugleiðingum Arnórs Sighvatssonar um hagkerfið, hagstjórnina og vinnumarkaðinn sem birtar voru á heimasíðu stjórnarráðsins í júní síðastliðnum. Samband vaxta og verðbólgu er margbrotnara en svo að vextir auki kostnað og stuðli þannig að aukinni verðbólgu. Sagan sannar það, sem og nýlegar tilraunir Tyrklandsforseta.

Vaxtahækkanir leiða óhjákvæmilega til aukinnar greiðslubyrði þeirra sem tekið hafa lán á breytilegum og óverðtryggðum vöxtum. Einstaklingum stendur þó til boða að festa vexti eða endurfjármagna í aðrar tegundir lána sem hafa minni greiðslubyrði stefni allt í óefni. Ef rýnt er í tölur um samsetningu lána má raunar sjá að almenningi er vel treystandi fyrir því að taka upplýstar ákvarðanir hverju sinni og kunna ekki síst að meta sveigjanleika í þessum efnum. Ávallt er þó svigrúm til aukinnar fræðslu og vitundarvakningar enda er það farsælli lausn en hvers kyns boð og bönn.

Heimilin standa vel að vígi eftir heimsfaraldurinn, eigið fé þeirra í húsnæði hefur aukist töluvert, aldrei hafa færri sagst eiga í fjárhagserfiðleikum og aldrei hafa færri átt erfitt með að ná endum saman. Það er auðvitað ekki þar með sagt að enginn sé í vanda staddur og sjálfsagt að fundnar séu leiðir til að aðstoða þá hópa. Það leysir hins vegar engan vanda að ríkisstjórnin setji sig upp á móti vaxtahækkunum Seðlabankans, né heldur getur hún tekið til baka þær hækkanir þótt vilji væri til þess. Þá er vandséð að takmarkanir á verðtryggingu eða leiguverði, jafnvel aðeins til skamms tíma, geti leyst nokkuð. Í vopnabúri ríkisstjórnarinnar er í raun aðeins eitt vopn sem eitthvað bítur á verðbólguvandan og það er aðhaldssemi í ríkisrekstri.