*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
14. mars 2021 11:12

Vanhæfi Jóns Þórs

Týr þykja vinnubrögð formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki vera til þess fallin að auka traust í garð Alþingis.

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Haraldur Guðjónsson

Píratar hafa öllu jafna lítið til málanna að leggja þegar kemur að alvöru stjórnmálum, s.s. efnahags- og skattamálum, atvinnumálum, utanríkismálum og þannig mætti lengi telja. Mjög lengi. Aftur á móti eru þeir þess fullvissir að allir aðrir en þeir sjálfir, já og embættismenn, séu spilltir.

                                                             ***

Píratarnir Andrés Ingi Jónsson og Jón Þór Ólafsson boðuðu í síðustu viku dómsmálaráðherra og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem Jón Þór gegnir formennsku. Tilgangurinn var að komast að því hvort ráðherrann hefði, í símtali á aðfangadag, haft einhver áhrif á rannsókn á meintu broti á sóttvarnalögum í listverkasal í borginni. Fundirnir leiddu í ljós að svo var ekki og lögreglustjórinn hefur sent frá sér yfirlýsingu sem staðfestir það.

                                                             ***

Jón Þór hefur nú óskað eftir því að bæði ráðherrann og lögreglustjórinn aflétti trúnaði um það sem fram fór á fundum nefndarinnar. Sú beiðni hefur ekkert með afgreiðslu þingnefndarinnar á málinu að gera, heldur er hún lögð fram í þeim tilgangi að geta fjallað um málið í fjölmiðlum. Honum var í lófa lagið að boða opinn fund en gerði það ekki. Hann vill nú fá að túlka með eigin orðum það sem fram fór og það er engin leið að vita hvort sú túlkun gefi rétta mynd af því sem sagt var eða ekki.

                                                             ***

Svona vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust í garð Alþingis. Þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar veit ekki hvernig ber að afgreiða mál nefndarinnar mætti telja hann vanhæfan til að gegna því embætti. Fyrst nefndin ákvað að taka málið fyrir ber henni að ljúka því með einhverjum hætti. Það gerist ekki með gaspri og eftir-á-skýringum í fjölmiðlum.

                                                             ***

Týr hefur áður furðað sig á því að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki taka yfir þær þrjár nefndir sem stýrt er af minnihlutanum. Þetta var ekki í fyrsta sinn - og örugglega ekki í síðasta sinn - sem nefndirnar eru misnotaðar í pólitískum tilgangi.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.