*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Týr
6. júlí 2019 17:35

Vanhæfnin valin í Seðlabankann

Þar mun reyna gríðarlega á Seðlabanka Evrópu og hagkerfi heimsins kann að velta á viðbrögðum hans.

epa

Þýskalandskanslari og Frakklandsforseti hafa loks makkað um nýja forystu hinnar ókjörnu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þar verður kona í fyrsta sinn forseti, Ursula Von Der Leyen, hinn sauðtryggi varnarmálaráðherra Angelu Merkel, sem situr undir ásökunum um frændhygli, spillingu og óstjórn. Belginn Charles Michel verður forseti Ráðherraráðsins, en hann fékk á sig vantraust sem forsætisráðherra Belgíu í desember eftir að hafa sent flóttamenn heim í klærnar á einræðisherra Súdan. Spænski utanríkisráðherrann Josep Borrell fer svo með utanríkismál ESB, en ferill hans er markaður af alls kyns fjármálaspillingu.

 * * *

Það skiptir ekki öllu hvaða 2. flokks lið velst til Brussel, hlutverk þess er að hlýða fyrirmælum frá Berlín og París. Öðru máli gegnir um Seðlabanka Evrópu, sem stjórnar peningamálum nær alls meginlands Evrópu og hefur örlög efnahagslífsins þar í hendi sér. Pólitísk tilnefning Frakklandsforseta á Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) til þess að verða seðlabankastjóri Evrópu, er á sinn hátt dæmigerð fyrir hreppapólitíkina við Rínarfljót, en fyrst og fremst eru það skelfileg mistök.

 * * *

Á yfirborðinu er starfsferilsskrá Lagarde glæsileg, en árangur hennar er afleitur. Sem fjármálaráðherra Frakka bar hún ábyrgð á að fjórfalda fjárlagahallann og láta allar umbætur í efnahagslífinu vera meðan fjármálakreppan geisaði. Eins lék hún lykilhlutverk í tortímingu ESB á gríska hagkerfinu, bæði sem ráðherra og síðar hjá AGS. Ekki er það svo til bóta að hún var á sínum tíma dæmd fyrir stjórnsýsluvammir í Tapie-málinu og þótti þó sleppa einkennilega vel.

 * * *

Af þeim ástæðum einum er ástæða til þess að draga hæfni. og hæfi Lagarde í efa. Hitt er þó verra að hún er ófrumlegur og lögfræðimenntaður embættismaður, þegar Evrópubankinn þarf einmitt hagfræðisnilling með sköpunargáfu til þess að bjarga evrusvæðinu. Þýska bankakerfið er komið fram á hengiflug, ávöxtunarkrafa skuldabréfa neikvæð, vextir sömuleiðis, gjaldmiðlastríð við Bandaríkin yfirvofandi, efnahagssamdráttur rétt handan við hornið, að ógleymdu Brexit og stríði ESB við Sviss. Þar mun reyna gríðarlega á Seðlabanka Evrópu og hagkerfi heimsins kann að velta á viðbrögðum hans. Valið á Lagarde veikir mjög vonir um að það endi með öðru en… má segja „hruni“? 

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.