Það er ekkert launungarmál að sælla er að eyða en afla og eiga þessi aldagömlu sannindi ekki síst við um stjórnmálamenn og almannafé.

Enda er það vel þekkt vandamál að sjóðir hins opinbera hafa tilhneigingu til að enda röngu megin við núllið. Sú þróun hófst vel fyrir heimsfaraldur, en lengi getur vont versnað og stefnir nú í óefni víðast hvar í þessum efnum.

Af almennri umræðu má ráða að algjört offramboð er af vandamálum, núna þarf því að hugsa í lausnum. Fremur en að forðast ófjármögnuð útgjaldaloforð eða ráðast í löngu tímabæra tiltekt á útgjaldahlið vilja margir beita skapandi nálgun í leit að svokölluðum vannýttum tekjustofnum. Aðrir telja engum vandkvæðum bundið að notast við fjármuni framtíðarinnar (lántöku) til að fjármagna viðvarandi hallarekstur. Þetta eru hins vegar engar lausnir.

Tekjuhliðin hefur nefnilega ekki verið vandamálið að undanförnu enda hafa tekjur ítrekað verið umfram væntingar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Í stað þess að ráðstafa óvæntum tekjuauka til niður - greiðslu skulda er honum ávallt fundinn farvegur í nýjum útgjöldum. Engu að síður heyrist nú ákall um að tími sé kominn til að atvinnulífið leggi sitt af mörkum þegar kemur að fjármögnun hins opinbera. Eins og fjármögnun hins opinbera hafi einhvern tímann byggt á einhverju öðru.

Þá hafa heyrst sjónarmið um að hærri skattar gætu verið árangursríkt tól í baráttunni við verðbólgu. Það væri sannleikskorn í því ef hver króna sem skilaði sér í kassa hins opinbera færi ekki beint í aukin útgjöld og gott betur.

Vandi opinberra fjármála felst ekki í ónægri tekjuöflun. Hann felst fyrst og fremst í aðhaldsleysi á útgjaldahlið. SA hafa lengi talað fyrir endurmati útgjalda og útgjaldareglu þegar kemur að opinberum fjármálum. Þörfin hefur sjaldan verið skýrari.