Í síðustu viku birti MMR sína reglulegu könnun á trausti almennings til hinna ýmsu stofnana samfélagsins og í raun kom þar fátt á óvart. Lögreglan, Háskóli Íslands, Ríkisútvarpið og Háskólinn í Reykjavík bera höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir og bankakerfið, Fjármálaeftirlitið og fjölmiðlar skipa neðstu sætin. MMR birtir líka niðurstöður sambærilegra kannana sem gerðar hafa verið allt frá því í desember 2008. Á þeim tæpu fimm árum sem liðin eru frá fyrstu traustskönnuninni hafa töluverðar breytingar orðið á viðhorfi fólks til hinna ýmsu stofnana.

Af toppunum fjórum er lögreglan ein í þeirri stöðu að hafa bætt sig á þessu tímabili. Árið 2008 sögðust 75,7% aðspurðra bera frekar eða mjög mikið traust til hennar. Háskóli Íslands fer hins vegar úr 76,7% í 61,3% og HR fer úr 63,3% í 48,6%. Svipaða sögu er að segja af RÚV, sem fer úr 64,2% í 52,3%, en taka ber fram að Ríkisútvarpið hækkar þó frá síðustu könnun, þegar traust til stofnunarinnar mældist 48,5%.

Ríkisútvarpið hefur sætt gagnrýnni vegna meintrar hlutdrægni í fréttaflutningi og þá verður ekki sagt að fjölmiðillinn hafi hitt í mark þegar klippt var á útsendingu frá landsleiknum í Noregi nokkrum mínútum of snemma, en það er samt töluvert fall frá 64,2% í 48,5%. Ef til vill skýrist þetta minnkaða traust af almennt auknu vantrausti í garð fjölmiðla. Í ágúst 2008 sögðust 22,9% aðspurðra treysta fjölmiðlum, en í nýjustu könnuninni er þetta hlutfall komið í 12,7%. Líkt og í tilviki RÚV hækka fjölmiðlarnir þó frá síðustu könnun, þegar 11,0% sögðust treysta fjölmiðlum.

Fjölmiðlamenn og eigendur fjölmiðla þurfa að taka alvarlega þau skilaboð sem lesa má úr þessari þróun. Það er eitt að fréttaflutningur sé skoðaður gagnrýnum augum, en það er annað þegar ríflega 41% þátttakenda í könnuninni segist bera frekar eða mjög lítið traust til fjölmiðla. Hvað hægt er að gera til að byggja upp traust á fjölmiðlum er hins vegar annað mál og erfiðara.