*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Týr
21. júní 2018 10:31

Varadekkið

Hvað með Viðreisn, sem sagðist ætla að selja sig dýrt. Það verður ekki annað séð en að hún hafi verið keypt á tombóluprís.

Haraldur Guðjónsson

Það er snar listrænn þráður í Líf Magneudóttur oddvita vinstrigrænna, svo þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefndi að það vantaði tónlist við kynningu nýja borgarstjórnarmeirihlutans, þá hummaði hún upphafið að keisaramarsinum úr Star Wars. Það var mjög viðeigandi, en upphafsnóturnar úr honum eru sem kunnugt er fengnar að láni úr jarðarfararmarsi Chopin. 

***

Það var líka vel til fundið að efna til þessarar kynningar í Breiðholti, en borgarstjóri hefur þann sið að fara í úthverfin á fjögurra ára fresti. Þrátt fyrir að oddvitar flokkanna í meirihlutanum reyndu að slá á létta strengi, þá virtist jarðarfararstemningin ríkjandi hjá meirihluta meirihlutans, sem stökk ekki bros og hafði ekki undan að banda flugunum frá sér. 

***

Dagur B. Eggertsson var að vonum borubrattur – nýbúinn að fá hirtingu kjósenda, sem fóru að áskorunum hans í kosningabaráttunnu um að taka afstöðu til hans og yfirgáfu hann í hrönnum – enda ennþá borgarstjóri eins og ekkert hafi í skorist, með sömu gömlu og sviknu loforðin. Píratar eru auðvitað ánægðir með að hafa haldið sínum hlut með nýja frambjóðendur, eftir að hafa verið ósýnilegir allt síðasta kjörtímabil. Og Líf vitaskuld fegin að halda pólitísku lífi; stjórnmálamenn hafa sagt af sér af minna tilefni en því afhroði sem Vinstri græn guldu í kosningunum. 

***

En hvað með Viðreisn, sem sagðist ætla að selja sig dýrt. Það verður ekki annað séð en að hún hafi verið keypt á tombóluprís. Þegar litið er á Breiðholtssáttmálann, hina skrýtnu málefnaskrá nýja meirihlutans, verður ekki séð að Viðreisn hafi náð nokkru í gegn, sem Samfylkingin hafði ekki sjálf áform um. Nema jú, að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir úr 1,65% í 1,60% fyrir lok kjörtímabilsins. Því fagna allir góðir menn, gangi það eftir, en þetta var nú allt og sumt. 

***

Aftur á móti var ekki minnst einu orði á lausn umferðarvandans í borginni. Og húsnæðiskreppan? Bara sömu, gömlu Samfylkingartuggurnar, sem menn vita að virka ekki. Útsvarið auðvitað áfram hið hæsta á Íslandi. En nóg af alls kyns froðu um að borgin ætli að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika í borginni, stofna hverfiskóla og gefa lykilhjólastígum nöfn. Má stinga upp á Varadekksvegur til heiðurs Viðreisn?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is