Silicon Valley Bank hefur verið fyrirferðarmikill í fréttum í vikunni. Þrátt fyrir að fall bankans megi alfarið rekja til barnalegrar áhættustýringar í rekstri bankans hafa margir áhyggjur af því að það kunni að vera til marks um upphaf fjármálakreppu.

Flest virðist benda til þess að um einangraðan atburð sé að ræða. Það sem gerðist í rekstri bankans var að innlán hans margfölduðust þegar vextir voru hverfandi og fjárfestar kepptust við að fjármagna nýsköpunarfyrirtæki sem voru stærstur hluti viðskiptavina bankans.

Bankinn keypti langtímaskuldabréf bandaríska ríkisins og sambærilegar eignir fyrir innlánin og skeytti engu um tímamisvægi eigna og skulda (e. maturity mismatch). Allt fór í hund og kött þegar bandaríski seðlabankinn tók að hækka stýrivexti og verðmæti eigna bankans – áðurnefnd skuldabréf – tók að lækka á sama tíma og eigendur innlána fóru að huga sér til hreyfings.

Íslensku ljósvakamiðlarnir slógu á áhyggjur um að fall bankans kunni að vera boðberi nýrrar fjármálakreppu í kvöldfréttatímum sínum á mánudagskvöld. Þannig var rætt við Gylfa Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar nefndi hann að ekkert benti til þess að fall bankans væri til marks um kerfislægan vanda í fjármálakerfinu. Enn fremur sagði Gylfi:

„Það kannski sýnir okkur að traust á kerfinu er ekki komið aftur þó að það séu komin fimmtán ár frá því að síðasta hrun dundi yfir. Þannig að það er ekkert skrýtið að almenningur og fjárfestar hafi varann á, brenndir af reynslu fyrri ára. Auðvitað eiga menn að hafa varann á því það er nú oft það sem bjargar mönnum frá því að koma sér í vandræði.“

Það er áhugavert að Gylfi brýni fyrir mönnum að hafa varann á. Gylfi er nefnilega ekki bara prófessor við Háskóla Íslands heldur einnig formaður bankaráðs Seðlabankans og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Það vakti ekki mikla athygli fjölmiðla þegar tveir stjórnarmenn – Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Þórður Gunnarsson sem er óháður fulltrúi – Orkuveitunnar bókuðu á stjórnarfundi efasemdir við að fyrirtækið greiddi út 5,5 milljarða króna arð til eigenda á sama tíma og fjármagnskostnaður fer hækkandi og mikil óvissa ríkir í alþjóðahagkerfinu.

Verðbólgan leikur skuldsett fyrirtæki á borð við Orkuveituna grátt um þessar mundir. Þannig voru fjármagnsliðir OR neikvæðir um tæpa fimm milljarða á þriðja fjórðungi í fyrra en neikvæðir um einn milljarð á sama fjórðungi árið 2021.

Eins og fram kemur í bókun Ragnhildar og Þórðar þá gefur fjárfestingaáætlun Orkuveitunnar og endurgreiðsluferill skulda varla tilefni til mikilla arðgreiðslna. Ekki bæta svo efnahagshorfurnar úr skák.

Dýrtíðin sem nú er uppi hefur verið algengt yrkisefni fjölmiðla að undanförnu. Sérstaklega hefur verið áberandi hversu fréttnæmt það þykir þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda gera athugasemdir við arðgreiðslur fyrirtækja á verðbólgutímum. Ekki er langt síðan Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra biðlaði til atvinnulífsins að gæta hófs í arðgreiðslum. Bónin var lögð fram á sama tíma og ljóst var að ríkissjóður ætli að taka til sín 34 milljarða vegna eignarhlutar síns í Landsbankanum, Landsvirkjun og Íslandsbanka og rekstrarafkomunnar í fyrra.

Sem fyrr segir virðast fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á arðgreiðslum einkafyrirtækja en opinberra fyrirtækja um þessar mundir. En eins og bókun Ragnhildar og Þórðar sýnir er full ástæða til þess að þeir gefi arðgreiðslu Orkuveitunnar gaum.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 16. mars 2023