Sumir telja að ekki sé til neitt sem kalla megi lögmál í hagfræði. Við getum þá talað um viðtekin sannindi, svo sem þau að velmegun verður ekki til með fjölda eininga af gjaldmiðli sem flýtur um í hagkerfinu heldur því hversu mikið er framleitt af vöru og þjónustu sem fólk vill neyta og njóta.

Efnahagsáföll undanfarinna ára hafa kallað fram afgerandi viðbrögð frá stjórnvöldum og seðlabönkum víðsvegar um heiminn. Enda virðist síaukinn kaupmáttur vera sjálfsögð krafa nútímamannsins sama hvað á dynur, sama þótt framleiðsla í hagkerfinu nær stöðvist.Þrátt fyrir verulegar framleiðsluraskanir var ráðist í örvunaraðgerðir; ríki tóku aðgerðirnar að láni og seðlabankar dældu peningum út í hagkerfin. Eftir á að hyggja mátti vera augljóst að þessar aðgerðir gætu leitt til aukinnar verðbólgu.

Eftir á að hyggja mátti vera augljóst að þessar aðgerðir gætu leitt til aukinnar verðbólgu.

Mikil aukning kaupmáttar í heimsfaraldri, þegar framleiðsla og þjónusta liggja að talsverðu leyti niðri, er tímabundin tálsýn. Raunkostnaðurinn við slíkt ófremdarástand lendir á endanum á okkar framtíðar-sjálfum í formi skatta og/eða verðbólgu. Nú er handrukkarinn mættur, verðbólguvofan, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Kjarasamningar eru fram undan. Samkvæmt nýjustu könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 78% atvinnurekenda að laun séu nú að setja mestan eða næstmestan þrýsting til hækkunar verðlags. Seðlabankastjórar víða um heim óttast víxlverkun launa og verðlags, kunnuglegt stef í íslenskri hagsögu. Þó ekki sé hægt að semja um aukinn kaupmátt sem slíkan er hægt að haga samningum þannig að kaupmáttur sé hámarkaður miðað við aðstæður; að framleiðslu á vöru og þjónustu sé við haldið, að íslenskir atvinnuvegir standist erlenda samkeppni og að gjaldmiðillinn haldi verðgildi sínu. Efnahagshorfur dala víða um heim. Varnarsigur væri verðugt markmið.

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, sem kom út 19. október.