Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði við þingumræðu um fjárhagsstöðu fjölmiðla í fyrri viku, að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til þess að styrkja rekstrarumhverfi þeirra. Fram kom að hann hefði kynnt þingsályktunartillögu í ríkisstjórn um að skipaður yrði þverpólitískur starfshópur um til hvaða ráða mætti grípa til þess að rétta bága fjárhagsstöðu fjölmiðla. Guð blessi þá fyrir meðaumkunina!

Meðal þess, sem rætt var í þinginu, var hvort ekki mætti lækka virðisaukaskatt á fjölmiðla, en Illugi taldi það vel koma til greina. Sjáum til hvað verður úr því, fjölmiðlarýni hefur raunar heyrst að það sé fremur stemmning fyrir því að fækka þrepum og undanþágum í virðisaukaskattkerfinu en hitt.

Það er hins vegar vel umhugsunar virði, að þegar vaskur á fjölmiðla var hækkaður um árið hafði það veruleg áhrif á rekstur þeirra. Það munar um minna, en einu gildir hvort miðlarnir velja þá leið að herða sultarólina eða velta kostnaðinum áfram til neytenda, þá hefur það auðvitað sín áhrif á eftirspurnina.

Kannski það sé þó ekki síst tilefni til þess að hugleiða áhrif virðisaukaskattshækkunarinnar um árið á samkeppnisstöðu miðlanna. Sú hækkun lagðist nefnilega ekki jafnt á alla miðla. Hún hafði margfalt minni áhrif á fríblöð eins og Fréttablaðið og Fréttatímann en sölublöð líkt og Viðskiptablaðið, DV, Stundina og Morgunblaðið, og varð þannig til þess að skekkja samkeppnisstöðuna enn frekar.

Það er eitthvað sem stjórnvöld hefðu mátt hugleiða þá.

* * *

DV sagði þá stórfrétt í liðinni viku að Willum Þór Þórssyni, alþingismanni Framsóknarflokksins, hefði láðst að geta um það í hagsmunaskrá Alþingis, að hann hafi fyrirvaralaust tekið að sér tímabundna þjálfun meistaraflokks KR í sumar eftir að fyrri þjálfari var látinn taka pokann sinn.

Nú er það ekki eins og Lummi hafi farið leynt með að hafa snúið aftur á fornar slóðir að þjálfa stórveldið. Og ekki þögðu fjölmiðlarnir um það. Það er ekki heldur mikil uppljóstrun að eitthvað sé eða sé ekki í hagsmunaskrá þingsins, en hún liggur fyrir á vefnum. Hvað þá að það hafi verið rakið hvernig þetta aukastarf Willums eigi að geta valdið hagsmunaárekstrum.

Að því leyti var þetta helmössuð ekkifrétt hjá Sigurði Mikael Jónssyni, blaðamanni DV. En það má líka amast við hinu, að DV sé að eltast við svona tittlingaskít og augljósa óaðgæslu og láti í þokkabót eins og það skipti einhverju máli.

Með því er blaðið ekki aðeins að sýna Willum ósanngirni og villa um fyrir lesendum, heldur er það einnig að gera lítið úr hagsmunaskráningu þingmanna með smásmygli og kjánalegum tilraunum til þess að hanka menn á forminu.

* * *

Meira um fótbolta og fjármál. Fréttablaðið sagði fimmdálka forsíðufrétt af því á mánudag að stjórn KSÍ hefði ákveðið að veita starfsmönnum sínum bónusgreiðslu, sem næmi 13. mánuðinum, fyrir ötult og óeigingjarnt starf við Evrópukeppnina í sumar. Því var velt upp eins og einhverju stórfenglegu hneyksli.

Megum við eiga von á hverri breiðsíðunni á fætur annarri í Fréttablaðinu í desember um að hitt og þetta fyrirtæki hafi rausnast til þess að borga staffinu jólabónus?

* * *

Nú er aðeins mánuður til alþingiskosninga og viðbúið að fjölmiðlar taki nokkurt mið af því. Þar gegna þeir ýmsu hlutverki, bæði við að greina frá umræðunni, greina aðalatriði frá aukaatriðum, sannreyna fullyrðingar flokka og frambjóðenda og þar fram eftir götum.

Þeir þurfa líka að varast eitt og annað í aðdraganda kosninga, gæta jafnvægis og meðalhófs í umfjöllun, bæði um menn og málefni, leita andstæðra sjónarmiða um álitaefni frétta o.s.frv.

Eins þurfa fjölmiðlar að gæta sín á freistingum um dramatíseringu frétta. Það á ekki aðeins við um einhverjar kosningabombur, sem einstök framboð eða frambjóðendur kunna að vilja að kasta inn í umræðuna, heldur einnig um hina hversdagslegri þætti kosningabaráttunnar.

Gott dæmi um þetta mátti sjá á þriðjudag þegar MMR greindi frá nýjustu niðurstöðum þeirra um fylgi flokka. Þar voru breytingar raunar sáralitlar, en samt hentu ýmsir miðlar niðurstöðurnar á lofti sem stórfréttir og teikn um fylgissveiflur. Sem var engin innistæða fyrir. Allra síst ef menn lásu fréttatilkynningu MMR, sem var mjög hófstillt og benti á að þessar litlu breytingar væru innan vikmarka og tölfræðilega ómarktækar.

Fjölmiðlar eiga að segja fréttir, ekki reyna að búa til fréttir úr engu.