Það er eftirtektarvert þegar blaðamenn og fjölmiðlafólk halda til streitu fullyrðingum sem eru á skjön við raunveruleikann og viðteknar staðreyndir. Ágætt dæmi um þetta mátti sjá í leiðara Sigmundar Ernis Rúnarsson, ritstjóra Fréttablaðsins, sem birtist í blaðinu fyrir viku.

Tilefni skrifanna er vaxtaákvörðun Seðlabankans og er ritstjóranum mikið niður fyrir. Hann dregur upp mynd sem virðist eiga að sýna að stjórnendur Seðlabankans stundi sérstæða tilraunamennsku sem felst í að hækka stýrivexti til að slá á verðbólgu. Tilraunamennsku sem er einstæð í hinum vestræna heimi. Í leiðaranum segir:

Klæðlítill er hann að minnsta kosti ef horft er til annarra seðlabanka álfunnar sem líta á það sem hagfræðilegu fávisku að hækka vexti í samfélögum sem fá engu ráðið um orsakir og ástæður þeirrar þenslu sem gætir í hagkerfum þeirra. Miklu fremur þurfi að styðja við almenning og atvinnulíf á tímum stríðs og faraldurs ."

Eins og flestir þeir sem fylgjast efnahagsmálum vita þá er þetta ekki rétt hjá ritstjóranum. Þannig hafa flestir seðlabankar vestrænna ríkja hækkað stýrivexti að undanförnu. Sé horft til OECD-ríkjanna og þeirra sem skipa sér á bekk tuttugu helstu iðnríkja heims kemur í ljós að vextir hafa hækkað í 21 ríki af þrjátíu á síðustu mánuðum. Vissulega hefur Evrópski seðlabankinn dregið lappirnar í þessum efnum en að sama skapi hefur hann dregið úr magnbundnum inngripum á markaði sem er ígildi þess að auka aðhald við stjórn peningamála. Ljóst er að helstu stjórnendur Evrópska seðlabankans lesa ekki leiðara Fréttablaðsins því sama dag og hann birtist var haft eftir aðalhagfræðingi bankans í Financial Times að vaxtahækkanir á næstunni væru óumflýjanlegar og yrði hrint í framkvæmd fyrr frekar en síðar.

***

Ritstjóri Fréttablaðsins var ekki eini þungavigtarmaðurinn í umræðu um íslensk efnahagsmál sem fór með staðlausa stafi í kjölfar vaxtarákvörðunar Seðlabankans. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lét eftirfarandi orð falla í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir viku:

Þetta er augljóslega bara stríðsyfirlýsing, ekkert annað, og ég held það fari að styttast í það að verkalýðshreyfingin fari að boða til mótmæla fyrir utan Seðlabankann. Þetta er bara skelfileg ákvörðun og óskiljanleg með öllu. Nú þarf Seðlabankinn að svara okkur því af hverju þetta er eini seðlabankinn í Evrópu og þótt víðar væri leitað sem er að hækka vexti í þeim aðstæðum sem nú eru, út af stríðsástandi í Úkraínu, heimsfaraldrinum og svo framvegis. Hvað er Seðlabankinn að hugsa?"

Það er umhugsunarefni að formaður eins stærsta verkalýðsfélags landsins fari með slíkar fleipur í ríkismiðlinum án þess að þurfa að svara fyrir þær í frekara máli. Í sjálfu sér geta verkalýðsleiðtogar, ritstjórar og aðrir haft skiptar skoðanir á framkvæmd peningamálastefnunnar hér á landi en að sama skapi er það ekki boðlegt að þeir geri það á grundvelli fullyrðinga sem eru beinlínis rangar.

Það er jafnframt vafasamt þegar aðrir fjölmiðlar taka svo upp á að endurvarpa þessum röngu staðhæfingum. Þannig var Sigmundur Ernir í spjalli um fréttir vikunnar í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudag. Þar endurtók hann fullyrðingar sínar um að íslenski seðlabankinn væri sá eini í Evrópu sem beitti stýrivaxtartækinu um þessar mundir.

Að lokum er ágætt að hafa í huga að vissulega má finna einn seðlabanka sem hefur barist gegn verðbólgu undanfarin ár með vaxtalækkunum. Hann er í Tyrklandi. Tayip Erdogan, forseti landsins, aðhyllist ekki viðteknar kenningar um stjórn peningamála. Hann telur að stýrivaxtahækkanir gagnist ekki í baráttunni fyrir verðstöðugleika. Þvert á móti er hann sannfærður um að lágir vextir leiði til verðstöðugleika. Hann hefur beitt sér fyrir þessari peningastefnu á undanförnum árum. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar: Gengi tyrkneska gjaldmiðilsins hefur hríðfallið samhliða kröftugum vaxtalækkunum á undanförnum misserum og verðbólga er í hæstu hæðum.

***

Verðbólga hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni að undanförnu enda ástæður þess ærnar. Með undarlegri birtingarformum þessarar umræðu er tal sem virðist snúa að því að tortryggja fyrirtæki sem hafa neyðst til þess að bregðast við hækkunum á heimsmarkaði með verðhækkunum en hafi greitt út arð vegna reksturs liðinna ára.

Alþýðusamband Íslands hefur verið áberandi í þessari umræðu. Þannig hefur Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits Alþýðusambandsins, verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Fréttaefnið hefur þá verið undrun hennar á því að stærstu verslunarkeðjur landsins greiði arð vegna rekstursins og á sama tíma bregðist við hækkun innkaupaverðs með verðhækkunum.

Þetta er mikil einföldun og í sjálfu sér villandi framsetning sem fjölmiðlar eiga að gera sér grein fyrir. Í fyrsta lagi er arður að jafnaði greiddur vegna afkomu rekstursins í fortíð og hefur því lítið með stöðuna í nútíð að gera. Í öðru lagi verður að líta til framlegðar rekstursins þegar rýnt er í afkomu verslunarinnar. Þó svo að upphæð arðgreiðslna stóru verslunarrisanna sem eru skráðir í Kauphöllina kunni að virðast há þá er það ekki svo þegar litið er til heildarveltunnar.

Samt sem áður virðast fjölmiðlar leggja megináherslu á að segja frá arðgreiðslum þegar kemur að umfjöllun um afkomu stóru verslunarkeðjanna. Þannig birti RÚV á sunnudag frétt þar sem að höfuðáherslan var lögð á að stjórn Festi hefði tekið ákvörðun um að greiða út arð vegna síðasta rekstrarárs áður en rússnesk stjórnvöld réðust inn í Úkraínu. Í fréttinni var rætt við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra félagsins, og þar benti hann á að framlegðin í rekstrinum væri minnka. En Eggert nefndi einnig eitt sem verður að teljast fréttnæmt þó að ekki hafi verið gert mikið úr því: Að hann teldi verðhækkanir vegna ástandsins í alþjóðamálum að mestu komnar fram og að hann eigi von á verðlækkunum þegar endi verður bundinn á stríðið í Úkraínu.

Sumir fjölmiðlar hafa þó skoðað þessi mál ofan í kjölinn. Í því samhengi má nefna ágætt viðtal við Finn Oddsson, forstjóra Haga, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í síðustu viku. Þar gerði hann ágæta og glögga grein fyrir ástandinu á verslunarmarkaðnum og benti á að ekkert gæfi til kynna að álagning á vörur gæti með einhverjum hætti talist óeðlileg um þessar mundir.