Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 75 punkta í síðustu viku. Grunnvextir bankans eru nú 2,75% en það er sama vaxtastig og í febrúar 2020 áður en gripið var til mikilla vaxtalækkana til að vega á móti efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins.

Vaxtaákvörðunin var fyrirsjáanleg og hefði ekki átt að koma neinum á óvart enda hefur verðbólga verið að mælast langt yfir markmiðum bankans að undanförnu. Þrátt fyrir það var á viðbrögðum fjölmiðla að dæma eins og að peningastefnunefnd bankans hefði öllum að óvörum tekið sig til og kastað handsprengju inn í íslenskt efnahagslíf. Fréttaflutningurinn var svo eftir því.

* * *

Í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins á miðvikudaginn í síðustu viku var fjallað um áhrif vaxtahækkunarinnar. Kjarni fréttarinnar fjallaði um að hærri vextir leiði til hærri afborgana á lánum. Gera má ráð fyrir að flestir áhorfendur geri sér grein fyrir þessu orsakasamhengi – að minnsta kosti verður það seint sagt fréttnæmt. Fréttamaður RÚV ræddi síðan við ungan námsmann sem hafði nýlega fjármagnað kaup á sinni fyrstu íbúð með óverðtryggðu láni á fljótandi vöxtum. Hann sagði eðli málsins samkvæmt að hækkun Seðlabankans myndi auka mánaðarlegar afborganir og ef vextir héldu áfram að hækka þyrfti hann að skoða önnur lánaform en óverðtryggt.

Erfitt er að átta sig á hverju þessi almæltu tíðindi áttu að bæta við umræðuna. Í raun var fátt fréttnæmt við þessa umfjöllun annað en að fjármálalæsi ungs fólks virðist vera með ágætum.

Fréttamaður RÚV ræddi einnig við Sigurð Jóhannesson, forstöðumann Hagfræðistofnunar. Athygli vakti að fréttamaðurinn fullyrti áður en viðtalið við Sigurð var leikið að „Ísland væri eitt fárra landa í Evrópu þar sem stýrivöxtum er beitt sem hagstjórnartæki“. Þessi fullyrðing væri vissulega fréttnæm ef rétt væri. En svo er auðvitað ekki. Þessi fullyrðing fékk ekki að fylgja með þegar sjónvarpsfréttin var skrifuð upp fyrir fréttavef RÚV.

* * *

Í kjölfarið fylgdi svo fjölmiðlaumfjöllun þar sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka fóru mikinn. Ekki er þörf á að rekja þær fréttir hér í löngu máli. En stefið sem var kveðið hljóðaði þannig að hér ríkti neyðarástand á fasteignamarkaði og vaxtahækkun Seðlabankans væri sem olía á þann eld.

Það sem var einkennandi fyrir þessa umfjöllun var að hvorki fréttamenn né blaðamenn gerðu tilraunir til þess að varpa ljósi á hvort eitthvað sé hæft í þeirri neyð. Vissulega hefur fasteignaverð hækkað mikið á undanförnum árum og verðbólgumælingar undanfarinna missera flestum áhyggjuefni. En þetta eru einmitt ástæðurnar fyrir því að Seðlabankinn hækkaði vexti. En það breytir ekki þeirri staðreynd að vextir voru ekki hækkaðir meira en svo að raunvextir eru enn neikvæðir og vaxtastigið lágt í sögulegu samhengi.

Að sama skapi gerðu fjölmiðlar ekki neinar tilraunir til þess að varpa ljósi á sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar að vaxtahækkanir nú gætu leitt til neyðarástands hjá heimilum landsins. Í því ljósi hefði verið hægt að benda á þá staðreynd að vanskil heimila eru hverfandi og þrátt fyrir efnahagsleg áföll vegna faraldursins hefur kaupmáttur þeirra farið vaxandi. Eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti á þá hefur staða heimilanna sjaldnast verið jafn góð og fátt sem bendir til þess að þau geti ekki staðið af sér hærra vaxtastig meðan reynt er að koma böndum á verðbólgu.

* * *

Vaxtahækkunin kom á sama tíma og viðskiptabankarnir þrír luku við að birta afkomu sína fyrir síðasta rekstrarár. Samanlagt skiluðu viðskiptabankarnir þrír um 80 milljarða hagnaði í fyrra. Á fimmtudaginn birtist viðtal í Morgunblaðinu við Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra þar sem hún talar fyrir þeirri hugmynd að nota eigi hagnað bankanna til þess að niðurgreiða vexti á lánum til almennings þar sem Seðlabankinn hafi verið að hækka vexti. Með öðrum orðum að nota hagnað bankanna til mótvægisaðgerða við mótvægisaðgerðir Seðlabankans vegna verðbólguþróunar. Fjölmiðlarýnir hefur fulla samúð með þeim sem eiga erfitt með að halda þræði vegna klifunar mótvægis í þessu samhengi.

Í þessu viðtali talar Lilja um „ofurhagnað“ og spyr blaðamaður hvers vegna hún noti það hugtak í viðtalinu og hvort eitthvað sé óeðlilegt við að bankar skili hagnaði. Svarið við því var einfalt: „Jú, en þetta er gríðarlega mikill hagnaður.“

Í framhaldinu viðraði svo Lilja hugmyndir um að leggja bankaskatt vegna þessa „ofurhagnaðar“. Fleiri fylgdu í kjölfarið enda enginn skortur á fólki með hugmyndir um göfugar aðgerðir til þess að verja hagnaði bankanna í þágu góðra málefna.

Sú umræða var eins og flestir vita fyrirferðarmikil í fjölmiðlun. Og hún var því marki brennd að enginn fjölmiðill velti fyrir sér í hversu þessi meinti „ofurhagnaður“ væri falinn og hvað þá hvort réttlætanlegt gæti verið að ræða um ofurhagnað í þessu samhengi. Enginn velkist í vafa um að 80 milljarðar króna er há upphæð út frá flestum mælikvörðum. En sem slík segir hún lítið um afkomu bankanna án þess að hún sé sett í samhengi við eigið fé og arðsemi af rekstrinum. Fjölmiðlar veltu því ekki fyrir sér og virðast hafa látið það duga að einhver væri reiðubúinn að fullyrða um að um ofurhagnað væri að ræða sem kallaði á sérstakar stjórnvaldsaðgerðir til að uppræta.

En staðreynd málsins er auðvitað sú að þrátt fyrir allar fullyrðingar um annað þá gekk rekstur bankanna þriggja sæmilega í fyrra. Arðsemi eigin fjár var að meðaltali um 12% hjá þeim sem er í takt við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Arðsemin var vissulega hærri en hún hefur verið undanfarin ár en virðisbreytingar á útlánum sem höfðu verið færð niður í byrjun faraldursins skýra þá þróun að miklu leyti. Að teknu tilliti til verðbólgu og virðisbreytinga á útlánum var raunávöxtun eiginfjár bankanna ríflega 5% í fyrra.

Þannig að það var engin innistæða fyrir þessu tali um „ofurhagnað“ þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Það er vissulega umhugsunarvert að fjölmiðlar sem sýndu þessari umræðu mikinn áhuga skuli ekki hafa kannað málið ofan í kjölinn. Það sama á við um hugmyndir um að leggja á bankaskatt vegna afkomunnar í fyrra. Enginn fjölmiðill benti á að slíkur skattur væri nú þegar lagður á bankana og það sama gildir um þá staðreynd að stóru viðskiptabankarnir greiða sérstakan tekjuskattsauka vegna hagnaðar umfram milljarð króna.

* * *

Umræðan um afkomu bankanna einskorðaðist ekki eingöngu við fréttatíma og umræðuþætti. Á laugardagsmorgnum er þátturinn Fram og til baka á dagskrá Rásar 2. Í þættinum rabbar Felix Bergsson „við hlustendur í morgunsárið og spilar notalega tónlist. Hann býður upp á hlustendagetraun og fær til sín góða gesti“ eins og það er orðað á heimasíðu Ríkisútvarpsins.

Fjölmiðlarýni lék forvitni á hvernig þetta vinalega rabb væri í morgunsárið á laugardegi og lagði því við hlustir í fyrsta sinn. Fyrsta spurningin í fréttagetrauninni var hvaða þrjú fyrirtæki hefðu skilað um 80 milljarða hagnaði samanlagt í fyrra. Hlustandinn sem hringdi inn átti ekki í erfiðleikum með að svara því og þá stóð ekki á viðbrögðum frá þáttastjórnandanum: „Bankarnir okkar, ha? Hverjir ætli borgi þessa 80 milljarða til bankanna okkar. Þeim finnst ekki verra að fá þetta frá okkur blessaðir. Hmm... ég skil ekki af hverju það verður ekki bara uppreisn!“