*

föstudagur, 21. janúar 2022
Óðinn
13. október 2021 07:04

Vaxtahækkun, verðbólga og húsnæðismarkaður

Óðinn fjallar um vexti, fasteignamarkaðinn, aðgerðir Seðlabankans og helsta afrek Dags B. Eggertssonar.

Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti í síðustu viku um 0,25% í 1,5%. Sú ákvörðun bankans kemur ekki sérstaklega á óvart. Hins vegar er rökstuðningur nefndarinnar dálítið óljós.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að hagvöxtur sé minni en bankinn spáði í ágúst, verðbólga hafi verið 4,4% og því yfir verðbólgumarkmiði bankans. Að auki hafi verðbólguvæntingar aukist. En aðalástæða verðbólgu í september var hækkun húsnæðisverðs - sem þó er tímabundin að mati Seðlabankastjóra. Í yfirlýsingunni segir um það:

Framlag húsnæðisliðarins hélt áfram að aukast og skýrir stóran hluta af ársverðbólgu í september. Undirliggjandi verðbólga hélt hins vegar áfram að hjaðna þótt hún sé enn nokkur. Áhrif tímabundinna framboðstruflana gætu aftur á móti varað lengur en áður var talið en þær hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim.

Þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var spurður út í húsnæðismarkaðinn og verðbólgu vegna hækkana á íbúðaverði þá sagði bankastjórinn að þetta væri tímabundinn vandi, nægt jarðnæði væri á Íslandi til að byggja íbúðarhúsnæði. Hann lét þess þó ógetið hversu tímabundinn hann væri.

* * *

Borgin og lóðaframboðið

Óðinn óttast að þótt vandinn sé vissulega tímabundinn á húsnæðismarkaðnum þá vari  ástandið mun lengur en fólk almennt leggi upp úr orðum seðlabankastjóra.

Eins og Óðinn hefur bent á þá hefur Reykjavíkurborg lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu í hendi sér. Um það eru Óðinn og núverandi stjórnendur Reykjavíkurborgar sammála. Það kemur fram í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010- 2030, sem vitnað er í tillögu að aðalskipulagi 2040, og segir:

Byggingarland í Reykjavík er um 60% af hugsanlegu framtíðarbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt svæðisskipulaginu 2001-2024.

Í málefnasamningi núverandi meirihluta í borginni segir um húsnæðismál á kjörtímabilinu 2018-2022:

Lykilsvæði í húsnæðisuppbyggingu verði fjölbreyttir þéttingarreitir, meðal annars meðfram þróunarásum aðalskipulags ásamt nýrri, blandaðri byggð í Gufunesi, Bryggjuhverfi, Úlfarsárdal, Elliðaárvogi, Höfðum, Skeifu og Skerjafirði.

* * *

Hvað ætli sé að gerast að þessum lykilsvæðum? Á langstærstu svæðunum mun ekkert gerast á þessu kjörtímabili. Ekkert. Utan deiliskipulagsvinnu sem er langt á eftir áætlun.

Á stærsta svæðinu, Höfða og Elliðaárvogi, átti skipulagið, samkvæmt heimasíðu Reykjavíkurborgar, að vera tilbúið árin 2016 og 2017. Samkvæmt samningum við samstarfsaðila Reykjavíkurborgar átti deiliskipulag að vera tilbúið 2019. Í dag er árið 2021 og deiliskipulag er ekki enn búið að taka gildi en mun gera það, að sögn, fljótlega.

Í Skerjafirði er deiliskipulag tilbúið en framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en í lok næsta árs eða byrjun þarnæsta árs. Í Skeifunni hefur ekkert gerst. Á öðrum svæðum hafa risið hús. En þau eru fá og hafa lítil áhrif á húsnæðisskortinn.

Vandinn er því að minnsta kosti til nokkurra ára, að minnsta kosti þriggja ára en líklega fjögurra.

Þýðir það að vextir verði hér hærri næstu árin en ella vegna lóðaskortsins? Er það kannski helsta afrek Dags B. Eggertssonar í stjórnmálum að valda háu húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu og háum vöxtum á Íslandi? Fyrir utan auðvitað að vera langt kominn að setja Reykjavíkurborg á hausinn.

Hvernig á venjulegt fólk annars að skilja þessa vaxtahækkun Seðlabankans?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.