*

laugardagur, 16. október 2021
Huginn og muninn
25. september 2021 08:55

Vaxtatímabil Viðreisnar og nauðvörn Loga

Formaður Viðreisnar velur sér hagstætt vaxtatímabil og formanni Samfylkingarinnar finnst ótrúlegt að vonarstjarna flokksins sé krafin svara.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Hrafnarnir fylgdust með leiðtogaumræðunum á RÚV í gærkvöld. Þar sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, að greiðslubyrði húsnæðislána heimilanna hefðu „hækkað um tugi þúsunda, bara frá því að kosningabaráttan hófst."

Þarna talar Þorgerður Katrín um tímabil sem hentar hennar málflutningi. Stýrivextir, sem ráða mestu um vexti íbúðalána, standa í dag í 1.25% en í maí síðastliðnum voru þeir 0,75% og höfðu aldrei verið lægri í sögunni. Það er samt ekki ýkja langt síðan Þorgerður Katrín sat í ríkisstjórn en þegar hún sprakk síðsumars 2017 stóðu stýrivextir í 4,5%. Hvað ætli lántakendur íbúðalána hafi sparað mikinn pening síðan þá? Mörg hundruð þúsund eða meira? Ekki nóg með að fólk hafi sparað stórfé síðustu misseri vegna lágra vaxta þá hafa lántakendur fært sig úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Þetta er eitthvað sem sumir, sérstaklega vinstrimenn,  vildu handstýra en markaðurinn hefur leyst vandamálið — tekið af þeim ómakið.

Annað áhugavert var að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, skyldi taka undir samsæriskenningar og moðreyk Kristrúnar Frostadóttur á Twitter. Eins og lesendur Viðskiptablaðsins vita þá snýst það mál um kauprétti, áskriftarréttindi Kristrúnar þegar hún var aðalhagfræðingur Kviku banka. Eins og greint hefur verið frá þá hefur hún líklega hagnast um tæplega 100 milljónir króna á þeim viðskiptum.

„Mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt að ung kona, hæfileikarík kona, sem hefur ótrúlega margt fram að færa í umræðunni fyrir þessar kosningar, sé krafinn af dagblöðum sérhagsmunaflanna um að gefa meiri upplýsingar um sinn persónulega fjárhag heldur en nokkur annar stjórnmálamaður þarf að gera. Kristrún Frostadóttir hefur svarað og svarið hennar stendur," sagði Logi í leiðtogaumræðunum í gær.

Þó Logi segi að Kristrún hafi svarað þá hafa Hrafnarnir ekki séð Kristrúnu svara einu né neinu. Hún hefur aftur á móti skrifað tíst á Twitter, sem er alls ekki það sama og að svara spurningum blaðamanna. Blaðamanna, sem hafa aldrei sakað hana um að hafa brotið lög, heldur einungis viljað fá upplýsingar um kaupréttina. Þetta með dagblöð sérhagsmunaflanna á í dag við Viðskiptablaðið, Morgunblaðið, Fréttablaðið, Stundina, Ríkisútvarpið, DV og líklega fleiri miðla. Því allir þessir fjölmiðlar hafa fjallað um málið með einum eða öðrum hætti.

Sú staðhæfing Loga um að Kristrún sé krafin um meiri upplýsingar um sinn persónulega fjárhag en aðrir stjórnmálamenn á ekki við rök að styðjast. Þarna er Logi að þyrla upp ryki því það vita auðvitað allir að Kristrún er nýliði og þess vegna er eðlilegt að spyrja hana frekar út hennar fjármál alveg eins og hinn nýliðinn, Gunnar Smári Egilsson, stýrimaður Sósíalistaflokksins, hefur þurft að svara spurningum um sína kapítalísku fortíð.

Ástæðan fyrir því að sitjandi þingmenn hafa ekki verið krafðir um sömu upplýsingar er að þær liggja fyrir. Til eru reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna þingmanna. Í þeim segir m.a.: „Alþingismenn skulu innan mánaðar frá því að nýkjörið þing kemur saman gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan þings".  Í reglunum er kveðið á um að þingmenn geri grein fyrir eignarhlutum sínum í félögum og fjölluðu hrafnarnir á sínum tíma einmitt um eignarhlut Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í Icelandair Group. Það verður áhugavert að sjá hvernig áskriftarréttindi Kristrúnar verða færðir til bókar í hagsmunaskráningunni.

Hann er því falskur heilagleikinn sem Logi reynir sveipa Kristrúnu. Hrafnarnir telja sig geta lesið á milli línanna. Getur verið að það líti ekki vel út fyrir jafnaðarmannaflokk að vonarstjarnan sé að „kassa út" tæplega 100 milljónum vegna kaupréttar á sama tíma og flokkur hennar vill miða stóreignaskattinn við 200 milljónir. Að því sögðu þá hefðu hrafnarnir að sjálfsögðu tekið þessum díl sem vonarstjarnan fékk hjá Kviku.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur Viðskiptablaðsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.