*

þriðjudagur, 22. september 2020
Örn Arnarson
6. september 2020 14:43

Vaxtaverkir og endursagnir

„Í sjálfu sér getur verð réttlætanlegt að fjölmiðlar endursegi fréttir sem hafa birst í öðrum miðlum en þá verður að gera þá kröfu getið sé heimilda.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var í sviðsljósi fjölmiðla í síðustu viku.
Gígja Einarsdóttir

Ásgeir Jónsson, sem er áhrifavaldur á samfélagsmiðlum en hann gegnir einnig stöðu seðlabankastjóra, var í sviðsljósi fjölmiðla í síðustu viku. Á fimmtudag birtist viðtal við Ásgeir í Fréttablaðinu. Athygli vakti að Ásgeir tjáði sig sérstaklega um verðlagningu á brúarláni sem Arion banki veitti Icelandair Hotels um miðjan ágúst. Brúarlán voru kynnt til sögunnar sem hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Þau eru einkum ætluð meðalstórum og stórum fyrirtækjum í rekstrarvanda til að standa undir launum og öðrum almennum rekstrarkostnaði en hluti lánveitingarinnar er með ríkisábyrgð.

Seðlabankastjóri gagnrýndi vaxtakjörin á láninu í viðtalinu og varð manna fyrstur til þess að opinbera þau. Eru það nýmæli að seðlabankastjóri tjái sig með þessum hætti um einstaka lánveitingar fjármálafyrirtækja og gera má fastlega ráð fyrir að blaðamenn muni ganga á lagið og óska eftir áliti hans á öðrum lánveitingum í kjölfarið.

                                                       ***

Seðlabankastjóri var í miklu stuði þennan dag. Á opnum nefndarfundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sama dag tókst honum að setja Sundabraut á dagskrá öllum á óvörum. Furðaði hann sig á að lagning brautarinnar væri ekki hafin og lét hann ummælin falla í samhengi við innviðauppbyggingu. Þessi skoðun féll ekki kramið hjá öllum. Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, furðaði sig á ummælum seðlabankastjóra og lét hafa eftir sér að „komandi kynslóðir eigi betra skilið“ en að Sundabraut yrði lögð. Þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi fjallað um viðbrögð Sigurborgar virtust þeir ekki gera sér almennilega grein fyrir tíðindunum sem í þeim fólust. Í sáttmála sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkis um samgöngur er greið tenging stofnbrauta á borð við Sundabraut forsenda þess að ríkið komi að fjármögnun hinnar svokölluðu borgarlínu. Að óbreyttu setja þessi ummæli Sigurborgar þann sáttmála í uppnám.

 

Meira af Ásgeiri og fundi hans með efnahags- og viðskiptanefnd. Á fundinum sagði seðlabankastjóri að það væri óhugsandi að hópur hagfræðinga – sama hversu snjallir þeir eru – gæti kortlagt í þaula efnahagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða á borð við þær að takmarka komu erlendra ferðamanna til landsins. Jafnframt benti hann á að hækkun atvinnuleysisbóta kynni að draga úr hvata fólks til atvinnuþátttöku og leiða til þess að atvinnuleysi yrði langvarandi. Það sem vekur athygli við þessi ummæli er að þarna var seðlabankastjóri að tala gegn skoðunum tveggja nefndarmanna í peningastefnunefnd – þeirra Gylfa Zoëga og Katrínu Ólafsdóttur. Þau síðarnefndu hafa komið fram í fjölmiðlum og talað fyrir nauðsyn þess að hagfræðingar kortleggi efnahagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða og að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Fram til þessa hefur lestur fundargerða peningastefnunefndar ekki fengið blóðið til að renna hraðar en þetta bendir til þess að þær verði fjörlegar á næstu misserum.

                                                       ***

Nokkrum klukkustundum eftir að seðlabankastjóri lýsti þeirri skoðun sinni á nefndarfundinum að útilokað væri að hópur sérfræðinga gæti kortlagt efnahagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða tilkynnti fjármálaog efnahagsráðherra að hann hefði skipað starfshóp sem vinna mun reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnamálum. Eins og fram kemur í tilkynningu á vef ráðuneytisins þá mun starfshópurinn sérstaklega horfa til „hagsmuna ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Bæði verða metin skammtímaáhrif og áhrif á getu hagkerfisins til þess að taka við sér af krafti að nýju þegar faraldurinn og áhrif hans líða hjá.“

                                                       ***

Starfshópinn skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ekkert þeirra kom að vinnu starfshóps Reykjavíkurborgar um mótun ferðastefnu. Er það fagnaðarefni.

Flestum ætti að vera í fersku minni ábatagreining þess starfshóps en niðurstaða hennar var kynnt af borgaryfirvöldum síðastliðin febrúar. Hún var að kostnaður borgarinnar umfram tekjur vegna erlendra ferðamanna næmi ríflega átta milljörðum á ári hverju. Þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi á sínum tíma fjallað skilmerkilega um þessa stórmerkilegu niðurstöðu ábatagreiningu starfshópsins var rykið ekki dustað af henni þegar afkoma af rekstri Reykjavíkurborgar var kynnt í síðustu viku. Tapreksturinn af rekstri A-hluta borgarinnar nam ríflega þremur milljörðum fyrstu sex mánuði ársins en gert hafði verið ráð fyrir tæplega milljarða hagnaði. Sameiginlegt rekstrarniðurstaða A og B-hluta borgarinnar var neikvæð um 4,5 milljarða króna. Áætlanir gerðu ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 5,9 milljarða króna. Niðurstaðan varð því 10,4 milljörðum króna verri en áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir. Kemur þessi afkoma öllum þeim sem lesið höfðu ábatagreiningu starfshópsins á óvart því samkvæmt henni hefði brotthvarf ferðamanna átt að virka sem vítamínsprauta á rekstur borgarinnar í þessu erfiða efnahagsástandi.

                                                       ***

Föstudaginn 28. ágúst birtist áhugaverð fréttaskýring eftir Stefán Einar Stefánsson viðskiptaritstjóra í Morgunblaðinu. Í skýringunni er fjallað um þá staðreynd að fjölmargir hafa nýtt núverandi vaxtaumhverfi til þess að endurfjármagna fasteignalán sín og færa sig í óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Ber þessi þróun fjármálalæsi landsmanna fagurt vitni en eins og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri bendir á í umfjölluninni þá geta afborganir af óverðtryggðum lánum á fljótandi vöxtum eðli málsins samkvæmt hækkað ef vextir taka að hækka á ný. Birtist með fréttinni svo útreikningur á hvernig afborganir af lánum gætu breyst ef vextir myndu stíga í núverandi jafnvægisvexti Seðlabankans.

Síðar sama dag birtist frétt sem var skrifuð af Ölmu Ómarsdóttir á vefsvæði Ríkisútvarpsins. Um var að ræða endursögn á fréttaskýringu Morgunblaðsins og fréttamaður gerði sér að leik að hringja í varaseðlabankastjóra og endurtaka spurningarnar sem blaðamaður Morgunblaðsins lagði fyrir hann daginn áður. Eru sömu útreikningar á hugsanlegum breytingum á afborgunum lána með breytilegum vöxtum birtir í endursögn RÚV. Fréttamaður RÚV getur hvergi heimilda í umfjöllun sinni þó það hafi verið öllum þeim sem treysta ekki eingöngu á ríkismiðilinn þegar kemur að fréttaflutningi ljóst hvert var tilefni endursagnarinnar. Á mannamáli getur þetta ekki kallast neitt annað en stuldur á vinnu annarra og er ekki til eftirbreytni.

                                                       ***

Í sjálfu sér getur verð réttlætanlegt að fjölmiðlar endursegi fréttir sem hafa birst í öðrum miðlum en þá verður að gera þá kröfu getið sé heimilda. Í þessu tilfelli hefði RÚV vel getað haldið áfram með fréttina, eins og það er kallað, og leitað að fleiri vinklum en þeim er komu fram í frétt Morgunblaðsins. Þannig hefði verið sjálfsagt að velta upp hverjar eru væntingar á fjármálamarkaði um þróun vaxtarstigsins eða þá að leita svara við þeirri spurningu hvaða úrræði þeir sem hafa tekið fasteignalán á breytilegum vöxtum hafa til að endurfjármagna ef vaxtaþróunin verður óhagstæð.

Almennt séð er of mikið um að íslenskir miðlar birti efni sem er í raun og veru ekkert annað en endursögn úr fréttum sem hafa birst áður á öðrum íslenskum miðlum. Er þetta sérstaklega áberandi á minni netmiðlum. Eins og fyrr segir er ekkert við þetta að athuga ef getið er réttra heimilda. En að sama skapi má spyrja hvaða erindi fjölmiðill sem birtir að stærstum hluta eingöngu slíkar fréttir eigi við almenning? Sérstaklega þegar engin tilraun er gerð til þess að finna nýja fleti á fréttamálinu áður en til endurbirtingar kemur.

                                                       ***

Í umfjöllun RÚV um stöðu efnahagsmála á mánudaginn var klifað á því að Hagstofan hefði mælt samdrátt tvo ársfjórðunga í röð og því væri komin kreppa að sögn ríkismiðilsins. Var þetta ítrekað í fréttum og Kastljósi þann daginn.

Þrátt fyrir að þjóðarframleiðslan hafi dregist verulega saman fyrstu sex mánuði ársins flokkast slík niðursveifla sem samdráttarskeið en ekki kreppa. Vissulega er alls ekki útilokað að samdráttur þjóðarframleiðslu haldi áfram næsta árið en það verður ekki fyrr en þá sem rétt er að lýsa efnahagsástandinu sem kreppu. Samdráttarskeið er notað til þess að lýsa neikvæðum hagvexti í að minnsta kosti tvo ársfjórðunga í röð á meðan kreppuhugtakið er notað um viðvarandi skeið minnkandi efnahagsumsvifa.

                                                       ***

Og eins og áður er pistlinum lokað með fréttum af samfélagsmiðlum. DV sagði frá því að þingmaður Suðurlandskjördæmis hefði verið með dólgslæti á áhorfendapöllum á meðan knattspyrnuleikur ÍBV og Fram stóð yfir í síðustu viku. Verður þetta að teljast meiriháttar afrek hjá þingmanninum þar sem áhorfendabann ríkti þegar leikurinn fór fram. Þessi frétt varð umsvifamiklum ferðamálafrömuði suður með sjó að yrkisefni. Í kjölfar fregna af grafalvarlegu efnahagsástandi á Suðurnesjum benti hann á eftirfarandi: Það heyrist meira í þingmönnum Suðurkjördæmis á áhorfendalausum fótboltaleikjum en til varnar atvinnulífinu á Suðurnesjum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.