Stjórnmálaöfl á vinstri vængnum hafa um nokkra hríð talað eins og hægt sé að fjármagna hvers kyns útgjaldaaukningu ríkisvaldsins með því að hækka veiðigjöld og fjármagnstekjuskatt. Hefur þetta verið sérstaklega einkennandi fyrir málflutning Samfylkingarinnar. Nú virðist sem Viðreisn sé að einhverju leyti stokkinn á þann vagn – sérstaklega þegar kemur að veiðigjöldunum.

Á forsíðu Fréttablaðsins á föstudaginn í síðustu viku var að finna fimm dálka uppslátt um þau stórtíðindi að Indriða G. Þorlákssyni, fyrrverandi ríkisskattstjóra og pólitískum fylgihnetti Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðherratíð þess síðarnefnda, finnist að veiðigjöldin sem innheimt eru af sjávarútveginum eigi að vera hærri.

Reyndar miklu hærri. Indriða finnst nánar tiltekið að sjávarútvegurinn eigi að greiða 40-60 milljarða á ári.

Það sem er merkilegt við þessa frétt er að baki hennar er ekkert annað en sú skoðun Indriða að hækka eigi veiðigjöld upp úr öllu valdi.

Lesandinn er engu nær um annað en það. En ef málið er skoðað ofan í kjölinn, sem blaðamaður gerir enga tilraun til, sést að Indriði vill í raun og veru uppræta allan hagnað af fjárfestingu einkaframtaksins í sjávarútvegi. Vissulega má færa einhver rök fyrir því að sú afstaða fyrrverandi ríkisskattstjóra sé fréttnæm. Eins og sjá má á upplýsingum Hagstofunnar námu heildartekjur íslensks sjávarútvegs 150 milljörðum árið 2020. Indriði vill sem sagt að 40% af heildartekjunum renni til ríkisins í formi veiðigjalda. Stærsti útgjaldaliður sjávarútvegsins eru laun og launatengd gjöld en hlutfall þeirra árið 2020 var um 40%. Þannig að miðað við forsendur Indriði þá standa eftir um 20% til að standa straum af olíukostnaði, veiðarfærum, viðhaldi, afskriftum og vöxtum. Í þessu samhengi má svo nefna að heildarútgjöld sjávarútvegsins 2020 námu 120 milljörðum.

Flestir sæmilega sanngjarnir menn sem hafa einhverja þekkingu á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sjá að sú skattheimta sem Indriði leggur til er fjarstæðukennd og vart tæk til umræðu. Þess vegna er athyglisvert að stjórnendur Fréttablaðsins telja að skoðanir Indriða í þessum efnum eigi svo brýnt erindi við lesendur blaðsins að þeir leggja fimm dálka forsíðu undir þær.

Fjölmiðlarýni er skoðanadálkur og er þetta hluti af lengri umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaðinu 8. júní 2022.