Á síðustu 32 mánuðum hafa 326 kjarasamningar verið endurnýjaðir. Stéttarfélög á Íslandi eru tvöfalt fleiri en í Svíþjóð og þar eru tuttugu sinnum fleiri starfsmenn að baki hverjum kjarasamningi en hérlendis. Á Norðurlöndunum er það ófrávíkjanleg regla að stefnumarkandi samningar eru gerðir á vettvangi útflutningsgreina og að opinberi vinnumarkaðurinn víki ekki frá þeim ramma. Hér er þessu öfugt farið.

Í kjarasamningum fyrir opinbera starfsmenn líta stéttarfélögin á fyrstu kjarasamningana á almennum vinnumarkaði sem lágmarkssamninga og knýja svo í framhaldinu fram meiri launahækkanir. Þessi kerfisgalli hefur lengi legið fyrir en lítill áhugi verið til umbóta. Nærtækt dæmi er að horfa til Lífskjarasamningsins sem hefur tryggt 66 þúsund króna hækkun reglulegra mánaðarlauna frá undirritun hans eða um 13% að jafnaði. Hefðu sveitarfélög fylgt þeim kjarasamningi í einu og öllu hefðu regluleg laun starfsmanna sveitarfélaga átt að hafa hækkað um 14% að meðaltali. Raunin er hins vegar 23% meðalhækkun launa og þá eru ótalin áhrif vinnutímastyttingar. Með öðrum orðum eru launahækkanir sveitarfélaga ríflega 9% umfram hinn stefnumarkandi Lífskjarasamning.

Víða er pottur brotinn í íslenska kjarasamningalíkaninu en veikasti hlekkurinn liggur hjá sveitarfélögum. Nýverið lýsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga launahækkunum sem stórslysi í fjármálum sveitarfélaga. Sú lýsing er líklega nærtæk. Til að forðast endurtekin stórslys er þörf á verulegum umbótum. Í fyrsta lagi þarf ríkissáttasemjari heimildir og verkfæri til að tengja saman aðila og fresta verkfallsaðgerðum ef kröfur eru óraunhæfar að hans mati. Í öðru lagi þarf að fækka kjarasamningum, einkum á vettvangi hins opinbera, þannig að hver þeirra taki til margfalt fleiri launamanna en nú. Í þriðja lagi þarf að styrkja til muna samninganefndir ríkis og sveitarfélaga. Svíar hafa t.a.m. aftengt pólitík og ráðuneyti frá kjaraviðræðum og falið sérstakri stofnun að sjá um gerð og eftirfylgni kjarasamninga milli ríkis og stéttarfélaga. Hvað ætlum við að gera?

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri SA.