Heimsfaraldurinn hefur áhrif á heiminn allan og þó að plágan leggist misjafnlega á þjóðir heims, svona að því að séð verður enn sem komið er, þá er fjölmiðlaumfjöllun um hana og viðbrögðin nokkuð svipuð milli landa. Að minnsta kosti í þeim löndum þar sem fjölmiðlun er sæmilega frjáls, sem auðvitað á ekki alls staðar við. Þó er það svo að í ýmsum tiltölulega ófrjálsum ríkjum heims virðast fjölmiðlar hafa fengið fullt svigrúm til þess að fjalla um pláguna eins og þeir telja réttast.

Það er þó enginn hægðarleikur fyrir almenna fjölmiðla að fjalla um málefni af þessu tagi af þeim krafti, snerpu og dýpt, sem þörf er á og almenningur kallar eftir. Margir af stærri fjölmiðlum milljónaþjóðanna hafa að vísu sérstaka heilbrigðisblaðamenn á sínum snærum og umfjöllun um heilsu og heilbrigði er sívinsælt fjölmiðlaefni, líka þegar ekki brestur á með plágum. En þeir eru ekki margir á hverjum miðli og geta ekki skrifað allt í þá eða tekið að sér heildarritstjórn miðlanna.

Svo á flestum miðlum eru flestir blaðamenn og fréttamenn að gera það sem þeir gera flesta daga, að reyna að tileinka sér nýjan málaflokk með almennri nálgun blaðamennskunnar. Það verður óhjákvæmilega stundum nokkuð yfirborðskennt, en almennt virðast þeir nú hafa náð að sinna skyldu sinni við almenning nokkuð vel.

***

Hvað fréttir af faraldrinum áhrærir eru samt nær allir fjölmiðlar einstaklega háðir yfirvöldum um fréttir. Heilbrigðisyfirvöldum og stjórnvöldum heima fyrir, erlendar fréttastofur reiða sig á sams konar heimildir úti í heimi, gagnagrunnur John Hopkins með sínum tölfræðilegu takmörkunum, sem hér var minnst á í síðustu viku, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO), sem raunar hefur glatað miklum trúverðugleika á liðnum vikum og svo mætti áfram telja.

Sérstaklega hafa daglegir blaðamannafundir stjórnvalda orðið helstu fréttalindir almennings rétt eins og fjölmiðlafólks. Það á við í velflestum löndum, þar sem daglegum fundum af því tagi er sjónvarpað beint til þjóðarinnar með svipuðu sniði og gerst hefur á Íslandi, þó það sé eilítið misjafnt eftir löndum hvert formið er eða hverjir eru þar aðalstjörnurnar.

Eftir sem áður er fundarefnið nánast hið sama og fréttirnar furðusvipaðar í þessu frekar niðurdrepandi raunveruleikasjónvarpi plágunnar. Og það hefur hið sama gerst víðast hvar og á Íslandi, að almenningur hefur fengið dálæti á því góða fólki sem þar kemur fram til þess að stappa stálinu í fólk og segja því slæmar fréttir.

***

Það má þó vel velta því fyrir sér hvort fjölmiðlarnir hafi brugðist alveg rétt við þessum fundum öllum, þar sem þeir eru í orði kveðnu að afla frétta og halda stjórnvöldum við efnið, en eru fyrst og fremst í aukahlutverkum í raunveruleikasjónvarpi.

Í Bretlandi hafa fundirnir verið haldnir á vegum ríkisstjórnarinnar, yfirleitt með forsætisráðherra eða heilbrigðisráðherra í forsvari, þó með séu ævinlega vísindaráðgjafar, landlæknir og aðrir sérfræðingar. Vandinn er sá að af því að fundirnir eru haldnir á vegum ríkisstjórnarinnar eru blaðamennirnir (upphaflega í salnum en nú á fjarfundaskjáum) undantekningalaust úr pólitísku deildinni á ritstjórnum sínum en ekki heilbrigðismálasérfræðingar. Það er eitthvað bogið við það.

***

Svipaða sögu er að segja úr Hvíta húsinu, þar sem fundirnir geta orðið mjög súrrealískir. Þar er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að aðalmaðurinn sé tækifærissinnaður sósíópat og fáviti í þokkabót. Það er sök sér þar til maður hlustar á spurningarnar og áttar sig á því að hann er samt klárasti maðurinn í salnum. Ástæðan er vafalaust hin sama og í Bretlandi, að blaðamennirnir eru af pólitísku deildinni.

Einhverjir í klappliði forsetans, sem aðallega spyrja að því hvernig það sé að vera svona frábær, en megnið andstæðingar hans og uppteknir af því að skora á þeim forsendum. Svo tröllar forsetinn bara á móti og enginn verður neinu nær. Og þó, því á mánudag fékk hann skrýtna spurningu frá kínverskum fjölmiðli, sem Trumpurinn tók bara fyrir og benti á að væri á vegum kínverskra stjórnvalda.

***

Ástandið á íslensku blaðamannafundunum er ekki í neinni líkingu við þetta, enda í sjálfu sér ekki þeirri sérfræði til að dreifa í íslenskri blaðamennsku að hætta væri á slíku. En það hefur eigin vanda í för með sér.

Það er ekki svo að þar séu pólitískir blaðamenn að efast um stefnuna eða að reyna að halda stjórnmálamönnum við efnið, hvað þá embættismönnum. En þeir eru ekki heldur neinir sérfræðingar í heilbrigðismálefnum. Það þarf þó ekki að vera svo slæmt, svo framarlega sem þeir hafa reynt að setja sig inn í málaflokkinn og helstu álitaefnin varðandi faraldurinn. Það virðist hafa gengið alveg ágætlega, svona ef litið er til fjölmiðlaumfjöllunarinnar.

Hins vegar verður að segjast eins og er að fundirnir eru allt of miklar viðhafnarstundir, að ekki sé sagt viðtökustundir. Blaðamenn eiga að spyrja knýjandi spurninga og það einnig þó þeir séu ekki vissir í sinni sök, af því að það eru þrátt fyrir allt svörin sem skipta máli frekar en spurningarnar.

Fyrir svörum eru sérfræðingar og það má vel ætlast til þess að þeir geti svarað vel, en verði svörin of snúin er það einmitt hlutverk blaðamanna að spyrja aftur svo svörin séu skiljanleg hverjum manni, jafnvel blaðamanni! Eins getur stundum verið rétt að spyrjast fyrir um forsendur svaranna, því það hefur gerst að á fundinum komi fram svör um hluti, sem ljóslega eru utan sérfræðisviðs svarendanna.

***

Á tímum sem þessum kemur hlutverk fjölmiðla vel í ljós og þeir eiga erindi við almenning allan. Samt sem áður standa þeir frammi fyrir því að rekstur þeirra hefur aldrei gengið verr en einmitt nú.

Við blasir að þeir lifa ekki mikið lengur en önnur fyrirtæki þegar tekjurnar bresta og hafa raunar flestir mun minna borð fyrir báru en fyrirtæki almennt, þar sem fjölmiðlar hafa ekki náð að rétta úr kútnum á undanförnum árum.

Af þeim sökum hefur nokkuð verið rætt um sérstaka styrki til fjölmiðla á þessum síðustu og verstu, svona fyrir utan fyrirætlanir menningarmálaráðherra um að setja alla fréttamiðla landsins á ríkisjötuna. Það kann að virðast freistandi en er ekki hættulaust.

Meira um það í næstu viku.