*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Leiðari
8. apríl 2020 13:22

Veiran og verðtryggingin

Þak á hækkun verðtryggðra lán er óskynsamleg hugmynd sem gæti reynst heimilum æði kostnaðarsöm þegar fram í sækir.

Haraldur Guðjónsson

Kallað hefur verið eftir að þak verði sett á hækkun verðtryggðra lána vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Meðal þeirra sem hafa viljað það eru Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins. Það er óskynsamleg hugmynd sem gæti reynst heimilum æði kostnaðarsöm þegar fram í sækir.

Slíkt þak hefði óhjákvæmilega kostnað í för með sér. Lánveitendur munu þurfa að verðleggja áhættuna af slíku verðbólguþaki. Það mun að líkindum þýða að verðtryggðir vextir hækki til framtíðar. Það þýðir hærri vaxtakostnað fyrir heimilin til framtíðar enda eru meira en 70% húsnæðislána heimilanna verðtryggð.

Kostnaðurinn gæti orðið umtalsverður. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vann skýrslu fyrir velferðarráðuneytið árið 2012, þar sem hann kannaði hvað þak á verðbólgu hefði í för með sér. Niðurstaðan var að væri miðað við 4% verðbólguþak, fyrir 40 ára verðtryggt lán, væri sennilegt að greiða hefði þurft um 20% af höfuðstóls láns fyrir tryggingu gegn verðbólguskoti. Það samsvarar 4 milljónum króna ofan á 20 milljóna króna húsnæðislán. Fjárhæðin lækkaði í 8% af höfuðstólnum, um 1,6 milljónir króna ofan á 20 milljóna króna lán miðaðist tryggingin við 6% verðbólguþak. Það er eitthvað sem fæstir lántakendur væru til í að greiða.

Óttinn við verðbólguskot er skiljanlegur í ljósi reynslu síðustu kreppu. Hins vegar þá er alls óvíst hverju verðtryggingarþak myndi skila. Aðstæður í dag eru töluvert ólíkar þeim sem voru uppi fyrir rúmum áratug. Seðlabankinn hefur verið mjög afdráttarlaus í að hann ætli að hindra verðbólguskot. Bankinn hefur yfir ríflega 900 milljarða króna gjaldeyrisvaraforða að ráða. Bankinn getur þannig að miklu leyti stýrt gengisþróun krónunnar, að minnsta kosti til skamms tíma.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafnaði alfarið hugmyndum um að setja þak á verðtrygginguna á fundi Seðlabankans í lok mars. Í fyrsta lagi væri engin verðbólga í kortunum — enda eftirspurn að dragast saman um heim allan — og því engin ástæða til að setja þak á verðtryggða vexti. Í öðru lagi benti Ásgeir á að vextir lána, bæði verðtryggðra og óverðtryggðra, hefðu lækkað verulega að undanförnu samhliða stýrivaxtalækkunum. Stýrivextir eru nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Í þriðja lagi myndu vextirnir að líkindum lækka enn frekar þegar Seðlabankinn hæfi kaup á ríkisskuldabréfum enda vextir húsnæðislána í mörgum tilfellum tengdir ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Þetta er þveröfugt við þróunina í bankahruninu þegar verðbólga fór í 12% bæði árin 2008 og 2009, stýrivextir hækkuðu í 18% og fasteignaverð féll um meira en þriðjung að raunvirði á sama tíma og raunlaun lækkuðu.

Við þetta má bæta að fasteignaeigendur hafa hagnast vel á hækkun fasteignaverðs á síðustu árin. Fasteignaverð hefur aldrei verið hærra að raunvirði. Það hefur hækkað um ríflega 80% frá því að það fór lægst eftir hrunið árið 2010 og er 17% hærra en það var á toppnum árið 2007. 

Á sama tímabili hefur hækkun vísitölu kaupmáttar launa, það er hækkun launa umfram verðbólgu, numið 42%. Við þetta bætist svo hin svonefnda leiðrétting, þar sem ríkið greiddi niður húsnæðislán þeirra sem höfðu verðtryggð lán í hruninu.

Þá eru valkostir heimilanna fleiri í dag en árið 2008. Um níu af hverjum tíu voru með verðtryggð lán þá og afgangurinn með gengistryggð lán. Nú hafa heimili hins vegar kost á að velja að taka óverðtryggð lán með föstum vöxtum óttist þau verðbólguskot. Mörg heimili hafa þegar valið þá leið. Í nóvember voru 27% af húsnæðislánum heimilanna óverðtryggð. Undirtónninn í umræðunni um þak á verðtryggingu er að verðtryggingin verði afnumin að fullu. Þá sér í lagi að svokölluð Íslandslán, 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, verði bönnuð.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynnti síðasta sumar í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp, þar sem lagt var til að banna 40 ára lána til húsnæðiskaupa. Undanþágur frumvarpsins voru hins vegar svo víðtækar að vart er hægt að tala um bann við þeim. Flestum sem hefðu áhuga á slíkum lánum væri enn heimilt að taka þau. Niðurstaða flestra þeirra skýrslna sem skrifaðar hafa verið um verðtrygginguna hefur verið sú sama. Verðtryggingin hentar stórum hópum vel og Íslandslánin henta sér í lagi ungu og tekjulágu fólk þar sem greiðslubyrði þeirra er lægri í upphafi. Þessi hópur ætti ella erfiðara með að komast inn á fasteignamarkaðinn. Reynslan sýnir að val og fræðsla en ekki boð og bönn henta þjóðfélögum alla jafna best.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.