*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Leiðari
1. ágúst 2020 10:30

Veiran sækir fram

Að halda aftur af útbreiðslu veirunnar og viðhalda krafti í efnahagslífinu eru ekki andstæð markmið. Þau fara saman.

Kórónuveiran virðist í sókn á ný víða um heim, þar með talið hér á landi.

Áfram þarf að iðka þá jafnvægislist að halda niðri veirunni en þó valda ekki meiri skaða með takmörkunum en þörf er á. Það er varla raunhæft að ætlast til að engin smit komi upp á meðan veiran leikur enn lausum hala í löndunum í kringum okkur. Það þýðir lítið að ætla að loka landamærunum alfarið og bíða veiruna af sér — slíkt gæti tekið eitt til tvö ár, hið minnsta. Að jafnaði búa um 50 þúsund Íslendingar erlendis, þjóðin vill ferðast og er mjög háð alþjóðaviðskiptum.

Hins vegar skal ekki vanmeta þau verðmæti sem fólgin eru í að geta um frjálst höfuð strokið innanlands. Íbúar margra nágrannaþjóða hafa þurft að gera sér að góðu að fara lítið út fyrir heimili sín frá því að faraldurinn kom upp í vetur. Þær tekjur sem ferðaþjónustufyrirtækin hafa þó fengið í sumar hafa fyrst og fremst stafað af því að Íslendingar hafa þorað að ferðast um landið óhræddir um smit.

En á meðan veiran geisar enn erlendis hefur það á áhrif á allt hagkerfið hér. Enginn fiskur er keyptur inn á lokaða veitingastaði, afurðaverð til stóriðjunnar er með lægsta móti vegna minni eftirspurnar, ferðamennirnir skila sér ekki og áfram mætti telja. Þröskuldurinn fyrir ferðamenn að koma hingað hefur ekki verið veiruprófin eða kostnaður við þau heldur ferðavilji þeirra. Á meðan ferðamenn óttast veiruna er varla við því að búast að mikill ferðahugur sé í þeim.

Varla má til að mynda búast við mörgum bandarískum ferðamönnum til landsins næstu misseri. Þar virðist hafa tekist að skapa eina verstu blöndu sem hægt er að hugsa sér. Hagkerfinu var skellt í lás án þess að það tækist að stöðva veirufaraldur. Fálmkennd vinnubrögð og seinagangur stjórnvalda ofan í mótsagnakenndar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta hafa gert lítið til að laga stöðuna.

Að halda aftur af útbreiðslu veirunnar og viðhalda krafti í efnahagslífinu eru ekki andstæð markmið. Þau fara saman. Takist að vinna bug á veirunni ætti efnahagslífið að ná sér tiltölulega fljótt á strik á ný.

Því er Íslendingum mikið kappsmál í efnahagslegu tilliti að helstu viðskiptaþjóðir okkar nái sem fyrst tökum á veirunni – fyrir utan þær mannlegu hörmungar sem hægt væri að hindra með því að stöðva útbreiðslu hennar. Búið er að dæla ómældum fjármunum í að halda hagkerfum heimsins gangandi í faraldrinum.

Í því ljósi er ótrúlegt hve langan tíma tekið hefur fyrir heimsbyggðina að framleiða það magn veiruprófa sem þarf til. Fyrir ekki nema brot af þeim fjárhæðum sem lagðar hafa verið fram til að blása lífi í efnahagslífið ætti að vera hægt að prófa þá sem þarf eins oft og þurfa þykir.

Íslendingar eru alla jafna öflugir á stuttum sprettum þegar redda þarf hlutunum en þreytast fljótt þegar hlutirnir dragast á langinn. Að takast á við veiruna verður þó því miður langhlaup. Veiran er ekki á förum. Vonandi tekst að hindra að tjónið af henni verði ekki meira en nauðsynlegt er.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.