Kórónufárið og efnahagsáföllin sem dynja á heimsbyggðinni vegna útbreiðslu veirunnar hefur verið vatn á myllu þeirra sem tala fyrir því að efla eigi innlenda matvælaframleiðslu og tryggja þar með þetta svokallaða fæðuöryggi.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að þrátt fyrir mikinn samdrátt í skipaflutningum og fragtflugi eftir að veiran fór að herja á heimsbyggðina hefur ekki borið á skorti sem heitið getur á nauðsynjavörum í hillum stórmarkaða.

Þrátt fyrir að vírusinn muni eflaust leiða til breytinga á áherslum á birgðasöfnun á lækningavörum svo dæmi sé tekið og hvernig staðið er að matvælaframleiðslu hefur lögmál Davids Ricardo um hlutfallslega yfirburði við verkaskiptingu ekki verið tekið úr sambandi.

Menn spá að efnahagslegar afleiðingar veirunnar kunni að vera sambærilegar og áföllin sem skullu á í kreppunni miklu. Í því samhengi er hollt að hafa í huga að ástæðan fyrir að sú kreppa dróst á langinn var einmitt sú að ríki á Vesturlöndum brugðust við henni með því að reisa tolla til að verja innlenda framleiðslu.

Hér á landi var stundum talað um að „loka kaupmáttinn inni“. Sagan kennir okkur að þessi stefna leiðir til örbirgðar en ekki auðs. Einsýnt er að veirufaraldurinn mun leiða til djúpstæðra breytinga á því fyrirkomulagi alþjóðaviðskipta sem við höfum vanist.

Það er því brýnt að stjórnmálamenn séu á verðinum og treysti grundvallarinntak frjálsra alþjóðaviðskipta og snúi ekki af þeirri leið sem hefur leitt hefur til lífskjarabyltingar um heim allan á undanförnum áratugum.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.