Þörf almennings og áhugi á fréttum er af skiljanlegum ástæðum með mesta móti á uggvænlegum tímum. Það sást vel á hrundögunum 2008 og það sést berlega nú á dögum plágunnar. Það eru raunverulegar brakandi fréttir í öllum miðlum, bæði af heimavelli og utan úr heimi, sem skipta almenning miklu og beinu máli. Þar liggur líf við.

Þar ræðir bæði um daglegar fréttir, nýjustu tölur um smit, ástand í einstökum byggðarlögum, ráðstafanir stjórnvalda og leiðbeiningar til almennings, en einnig alls kyns hliðartengdar fréttir og annað efni, sem tengist þessarri nýju (má maður segja fordæmalausu?) stöðu. Hún hefur á nokkrum vikum breytt þjóðfélaginu öllu og á vafalaust eftir að hafa enn frekari áhrif eftir því sem stundir líða fram.

***

Þar kemur hlutverk fjölmiðla skýrt fram. Hvað sem líður vefjum stjórnvalda og tilkynningum þeirra á félagasmiðlum, þá eru fjölmiðlar einstakir hvað varðar það hlutverk þeirra að koma brýnum upplýsingum til almennings, á skýran og auðskiljanlegan hátt. Það á bæði við um það sem tengist lýðheilsu fólks með beinum hætti og fréttum að því hvernig málum vindur fram. Það kemur hverjum og einum við.

Þetta heyrir og finnur hver maður á öðrum, bæði af samtölum, deilingu fjölmiðlaefnis á félagsmiðlum og svo framvegis. Kannski enn frekar nú en endranær, þegar enginn er á kaffistofum landsins að ræða landsins gagn og nauðsynjar. En þetta sést líka vel á fjölmiðlamælingum. Gallup stundar daglegar mælingar á fjölmiðlanotkun landsmanna, en af niðustöðum síðustu vikna sést gríðarleg aukning í fjölmiðlaneyslu, einkum hvað varðar fréttir og fréttatengt efni. Það er allt að fjórðungsaukning.

Í fyrri viku horfðu þannig að meðaltali liðlega 118.000 manns daglega á kvöldfréttir RÚV og/ eða kvöldfréttir Stöðvar 2, sem er um 20% aukning frá því sem var í febrúar og 27% aukning ef litið er til sama tíma í fyrra. Í vikunni mátti ennfremur sjá einstaka kvöldfréttatíma, þar sem hart nær helmingur landsmanna (12 ára og eldri) horfðu á einhvern hluta fréttanna. Þessa aukningu máttii greina í öllum aldurshópum.

Þetta átti ekki aðeins við sjónvarpið, því að á meðaldegi í fyrri viku hlustuðu tæplega 66.000 manns á hádegisfréttir Bylgjunnar og/eða hádegisfréttir RÚV, sem er aukning um 20% frá því í febrúar. Karlar voru heldur líklegri en konur til að hlusta á útvarpsfréttir. Hið sama var upp á teningnum hvað varðaði netmiðlana, þar sem mun fleiri notendur heimsóttu fréttanetmiðla í vikunni en það gerðu að meðaltali í febrúar. Að sögn Gallup þarf að leita þrjú ár aftur í tímann til að finna jafnmikla notkun á íslenskum netmiðlum.

***

Þetta er ekkert einsdæmi á Íslandi, raunin er hin sama um allan heim. Þar hefur notkun fréttamiðla víðast hvar aukist mjög mikið og það á við um allar gerðir fjölmiðla, nokkuð mismikið þó. Vandinn er sá að um leið og notkunin hefur aukist afar mikið hafa tekjur dregist mikið saman. Það kann að virðast einkennilegt við fyrstu sýn, en eftir því sem atvinnulíf í einstökum löndum hefur mikið til lagst í dvala, þá hefur þörfin á auglýsingum og markaðsstarfi dregist saman í sama mæli.

Gott betur raunar, því það er ekki aðeins á Íslandi sem fyrirtæki óttast að lifa ekki heimsfaraldurinn af, tekjur þeirra margra hafa dregist saman niður í ekki neitt en alls kyns fastur kostnaður heldur áfram að tikka. Þá verður ekki komist hjá aðhaldsaðgerðum og þá er markaðskostnaður auðvelt og augljóst skotmark. Til þess að gera illt verra þá hafa mörg þeirra fyrirtækja, sem þó auglýsa enn, lagt blátt bann við að merki þeirra komi fram nálægt fréttum um Kórónuveiruna.

Það hefur fyrst og fremst áhrif á netmiðlum, en eins hefur víða dregið meira úr auglýsingum á fréttasíðum en á lífstílssíðum, auglýsingum nálægt fréttatímum ljósvakamiðlum hefur víða fækkað meira en í kringum aðra dagskrárliði og svo framvegis. Þetta hefur auðvitað þau öfugsnúnu áhrif að letja fréttamiðla til þess að fjalla um veiruna, einmitt það sem flesta lesendur, áheyrendur og áhorfendur þyrstir í.

***

Flestir fjölmiðlar hafa raunar afráðið að halda sínu striki, skyldur þeirra við almmenning séu ríkari en við auglýsendur, öll él birti upp um síðir og þar fram eftir götum. Sumir netmiðlar hafa jafnvel gengið lengra og aflæst lokuðum fréttavefjum, beinlínis til þess að sinna almenningi þegar eftirspurnin er svo mikil og mikilvægt að svala henni.

Sumir þeirra hafa eflaust einnig í huga að um leið megi gefa fleirum kost á að reyna þjónustuna í von um að þeir kaupi áskrift seinna meir. Það er sjálfsagt skynsamlegt, en minnu varðar þó sjálfsagt ekki að byggja upp viðskiptavild með þeim hætti, sýna hvað í miðla þeirrra er spunnið og afla sér trúverðugleika.

***

Sums staðar hafa prentmiðlar raunar lent í sérstökum vandræðum með dreifinguna. Hún er mannfrek og sætir sums staðar sérstökum hömlum í sóttvarnaskyni, líkt og aðrar samgöngur sem ekki eru taldar brýnar. Víðast hvar hafa stjórnvöld þó fallist á að fjölmiðlun sé svo nauðsynleg að dreifing prentmiðla falli undir undanþágur að því leyti. Það á raunar við um velflest störf fjölmiðla að öðru leyti, blaðamenn og ljósmyndarar hafa fengiði undanþágur víðast hvar til þess að afla frétta og segja þær. Ekki þó í Kína.

***

Blöðin hafa raunar einnig lent í öðrum vandræðum, sem er að lesendur hafa ekki allir verið vissir um að óhætt sé að lesa þau af ótta við smit. Prentmiðlar hafa þess vegna verið duglegir við að greina frá rannsókn vísindamanna, sem bendir til þess að dagblöð séu mjög ólíkleg smitleið. Það hefur víst eitthvað með áferð dagblaðapappírs að gera, en glanstímaritin munu ekki vera í jafngóðum málum hvað það áhrærir.

***

En svo getur plágan vafist fyrir fjölmiðlum á annan hátt, eins og Fréttablaðið fékk að reyna þegar það vildi útmála allt um sóttkví og samkomubann og lét gera heilsíðugrafík um það, sem einnig var sýnd á forsíðu. „Samgöngubann" stóð þar alls staðar og lesendur eitt spurningamerki.