Hvað ræður því hvort þú kaupir eina vöru frekar en aðra? Eins og hjá flestum eru verð og gæði eflaust snar þáttur í þeirri ákvörðunartöku. En myndir þú kaupa vöru ef þú vissir að einhversstaðar í framleiðsluferlinu hafi verið brotið gegn grundvallarréttindum fólks? Líklega svara flestir þessu neitandi og þess vegna skiptir máli að hafa réttu upplýsingarnar við höndina svo unnt sé að veita fyrirtækjum aðhald.

Miklar breytingar eru í sjónmáli sem snerta einmitt þessi atriði og ýmis lönd hafa sett lög sem skylda viðskiptalífið til að standa betur vörð um mannréttindi og auka upplýsingaflæði til neytenda.

Ný lög samþykkt í Noregi

Um mitt síðasta ár tók gildi í Noregi löggjöf, sem nefnist Åpenhetsloven eða gagnsæislögin, sem krefur fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri um að framkvæma kostgæfnis- eða áreiðanleikakönnun á mannréttindum í starfsemi sinni. Niðurstöður slíkra athugana skulu birtist opinberlega og fyrirtæki eru jafnframt skyldug til að veita ýmsar upplýsingar um áhrif þeirra á mannréttindi og hvaða ráðstafana þau grípa til í þeim efnum. Lögin gilda ekki aðeins um norsk fyrirtæki heldur einnig um fyrirtæki sem selja vöru og þjónustu í Noregi. Löggjöfin hefur fengið allnokkra athygli enda þykir hún ganga lengra en áður hefur þekkst, m.a. með auknum kröfum á fyrirtæki og æðstu stjórnendur þeirra.

Ný Evróputilskipun í samþykktarferli

Svipuð löggjöf hefur komið fram á sjónarsviðið í öðrum Evrópuríkjum. Árið 2017 lögfestu Frakkar reglur um árvekni stærri fyrirtækja með mannréttindum og Þjóðverjar hafa samþykkt lög sem skylda öll stærri fyrirtæki til að gera áreiðanleikakönnun á aðfangakeðjum sínum. Þá hefur Evrópusambandið (ESB) kynnt drög að tilskipun um sama efni sem ber heitið Directive on Corporate Sustainability Due Dilegence, (CSDD), sem má þýða sem áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja, sem nær bæði til mannréttinda og áhrifa á umhverfið. Í framhaldi af samþykkt tilskipunarinnar á vettvangi ESB má reikna með að hún verði innleidd hér á landi í gegnum EES-samninginn.

Þessar hörmungar hleyptu þó af stað vitundarvakningu um nauðsyn gagnsæi við framleiðslu.

Eflaust spyrja margir hver tilgangur þessara lagareglna sé og hvort ekki sé bara verið að bæta við enn einu íþyngjandi regluverkinu? Svarið er ekki einfalt, en þó verður að hafa í huga að hugmyndir um skyldu fyrirtækja og æðstu stjórnenda þeirra til að standa vörð um mannréttindi eru ekki nýjar af nálinni.

Eftir lok síðari heimstyrjaldar voru stjórnendur iðnfyrirtækjanna IG Farben og Krupp t.a.m. dæmdir meðábyrgir í grimmdarverkum nasista, m.a. vegna þrælkunarvinnu. Einnig má nefna að ýmis stórfyrirtæki áttu stóran þátt í að viðhalda aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku og flestir hafa heyrt skelfilegar sögur um misnotkun á verkafólki í fátækari löndum heimsins. Meðal annars með þessi dæmi í huga hafa ýmsar leiðbeiningar verið gefnar út til fyrirtækja í áranna rás og má þar nefna leiðbeinandi meginreglur Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um viðskipti og mannréttindi og leiðbeinandi reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Þarf að setja svona lög?

Þrátt fyrir fögur loforð hafa slíkar valfrjálsar leiðbeiningar verið bitlausar og ekki dugað sem skyldi til að fyrirtæki setji upp ferla til að koma í veg fyrir og eða, eftir atvikum, draga úr skaða sem tengist starfsemi þeirra og aðfangakeðjum. Í þessu samhengi má rifja upp hrun Rana Plaza verksmiðjubyggingarinnar í Bangladesh árið 2013 sem varð til þess að 1.138 manns létust og yfir 2.500 manns slösuðust. Í byggingunni vann fólk við fataframleiðslu við óviðunandi aðstæður fyrir mörg af helstu fatamerkjum heims. Þessar hörmungar hleyptu þó af stað vitundarvakningu um nauðsyn gagnsæi við framleiðslu sem ná þyrfti til virðiskeðju fyrirtækja, með auknum kröfum frá hagaðilum um upplýsingar um hvernig varan verður til.

Í takt við alþjóðasáttmála

Fyrrnefnd löggjöf í Noregi, Frakklandi og Þýskalandi, sem og og tilskipun ESB, er ætlað að knýja fyrirtæki til að skoða þessi mál, og grípa til aðgerða þar sem það á við. Löggjöfin styðst að verulegu leyti við þær meginreglur sem settar hafa verið fram á vettvangi SÞ og OECD en með því að lögfesta tiltekin skilyrði þá er ekki lengur valkvætt að fylgja þeim. Þessar lagareglur geta haft víðtæk áhrif enda er öll aðfangakeðjan undir og t.a.m. þarf að skoða hvort birgjar eða þjónustuaðilar virði grundvallarréttindi starfsfólks. Þannig standa vonir til þess að hinar auknu kröfur smiti út frá sér og leiði m.a. til þess að fyrirtæki og neytendur sniðgangi t.d. þau fyrirtæki eða framleiðendur sem ekki geta sýnt fram á mannsæmandi aðstæður starfsfólks. Orðsporsáhætta er orðin stór áhættuþáttur í starfsemi fyrirtækja þar sem ákvörðun tiltekins hagaðilahóps gagnvart fyrirtæki getur jafnvel skipt sköpum varðandi afkomu fyrirtækis.

Við viljum flest að kaupákvarðanir okkar hafi jákvæð áhrif og því þurfa fyrirtæki að veita réttar upplýsingar. Það er ekki nóg að stæra sig af góðum árangri í jafnréttis- og mannréttindamálum heima fyrir ef hráefni, vörur eða þjónusta kemur frá stöðum þar sem réttindi fólks eru fótum troðin.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar2023.