*

fimmtudagur, 24. september 2020
Óðinn
6. ágúst 2015 09:40

Velferðarkerfið og jafnrétti kynjanna

Velferðarkerfið, sem Norðurlöndin eru svo stolt af, heftir möguleika kvenna til að rísa á tindinn í atvinnulífinu.

Kynjajafnfrétti er hvergi meira en á Norðurlöndunum, Íslandi þar á meðal, en þetta hefur margoft verið staðfest í hinum ýmsu skýrslum og samantektum alþjóðlegra stofnana og góðgerðasamtaka. Þannig er Ísland í efsta sæti á lista World Economic Forum yfir þau lönd þar sem kynjajafnrétti er mest og hin Norðurlöndin raða sér í næstu sæti þar á eftir.

Norðurlöndin eru einnig í efstu fimm sætum á lista Save the Children yfir þau lönd þar sem best er að vera móðir (Ísland vermir þriðja sætið). Við samantekt þessara lista er tekið tillit til heilsu, menntunar, efnahags og stjórnmála og stöðu kynjanna í þessum málaflokkum.

Þessi sérstaða Norðurlandanna er meðal þess sem Nima Sanandaji fjallar um í mjög áhugaverðri skýrslu, Scandinavian Unexceptionalism, sem gefin er út af Institute of Economic Affairs og Óðinn hefur áður vitnað til hér á þessari síðu. Sanandaji, sem er sænskur, bendir réttilega á að Norðurlöndin hafi um árabil staðið framarlega hvað jafnréttismál varðar. Konur fóru þar fyrr að taka þátt á vinnumarkaði og hafa náð góðum árangri á sviði stjórnmála. Þá er almenn afstaða Norðurlandaþjóðanna til jafnréttismála jákvæðari en víða annars staðar. Í þessu ljósi mætti því ætla að á Norðurlöndunum væri auðveldast fyrir konur að komast á toppinn, en undarlegt nokk á það ekki við í einkageiranum í þessum löndum.

***

Búlgaría kemur á óvart

Sanandaji birtir í skýrslunni afar áhugaverðan lista þar sem ríkjum Evrópusambandsins er raðað eftir því hversu hátt hlutfall stjórnarmanna og forstjóra fyrirtækja í viðkomandi landi er. Óðinn leyfði sér að bæta Íslandi inn í listann með óbeinni aðstoð Hagstofunnar. Ekki er gefið að sama aðferðafræði liggi að baki tölum Hagstofunnar og þeim sem Sanandaji hefur yfir að búa og verður því að taka samanburðinum með ákveðnum fyrirvara. Þetta ætti þó að gefa ákveðnar vísbendingar um stöðuna.

 

 

Eins og sjá má eru átta efstu löndin á þessum lista fyrrverandi austantjaldslönd. Landið sem trónir efst á listanum, Búlgaría, verður seint talið eitt af höfuðvígjum kynjajafnréttis í heiminum, en rétt tæpur helmingur stjórnarmanna og forstjóra þarlendra fyrirtækja eru konur. Ísland er efst Norðurlandanna í tólfta sæti, með áðurnefndum fyrirvara, en þó er hlutfallið hér undir 25%. Noregur er í sautjánda sæti listans með 17,7% og hin þrjú Norðurlöndin eru öll í neðstu fimm sætunum. Framgangsmöguleikar kvenna eru verstir í Danmörku af Norðurlöndunum fimm, en aðeins 10% stjórnarmanna og forstjóra þarlendra fyrirtækja eru konur.

***

Kynskiptur vinnumarkaður

Í þessu sambandi má benda á að í rannsókninni Kynjajafnrétti við stjórn atvinnulífsins eftir þær Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, Laufeyju Axelsdóttur, Sunnu Diðriksdóttur og Þorgerði Einarsdóttur kemur fram að þegar þau fyrirtæki á Íslandi, sem hafa 250 starfsmenn eða fleiri, eru skoðuð eru aðeins 8% forstjóra konur, en 39% stjórnarmanna. Minna verður á að þessar tölur eiga við um árið 2014 þegar lög um kynjakvóta í stjórnum höfðu tekið gildi.

Þessi þversagnakennda staða, að framgangur kvenna í atvinnulífinu sé einna verstur í þeim löndum þar sem jafnrétti er mest, vekur eðlilega athygli og er Sanandaji reyndar ekki fyrstur til að vekja athygli á þessu. Alþjóða vinnumálastofnunin ILO benti árið 1998 á að vinnumarkaðurinn væri orðinn mjög kynskiptur á Norðurlöndunum. Konur ynnu frekar hjá hinu opinbera og karlar í einkageiranum.

Eðli norræna velferðarkerfisins skiptir hér mjög miklu máli, bæði til að skýra kynskiptinguna sem ILO skrifaði um árið 1998 og þversögnina sem Sanandaji skrifar um. Mjög stórir geirar atvinnulífsins, heilbrigðis- og menntageirinn, eru hér að nær öllu leyti í opinberum höndum. Þetta eru jafnframt þeir geirar sem konur leita frekar í, hver sem ástæðan fyrir því kann að vera. Konur sem starfa í þessum geirum enda því í vinnu fyrir hið opinbera og hverfa því úr vinnuaflsmengi einkageirans.

***

Velferðarkerfið hefur hamlandi áhrif

Konur eru vissulega betur staddar þegar hlutfall stjórnenda og forstöðumanna í opinbera geiranum er borið saman við hlutfallið í einkageiranum, en framgöngu opinberra starfsmanna er miklu þrengri stakkur skorinn en í einkageiranum. Framganga og launahækkanir eru að stórum hluta bundin við starfsaldur og menntun, en ekki frammistöðu í starfi, og hvata til nýsköpunar er hvergi að finna. Þessu horfir allt öðruvísi við í einkageiranum.

Í Austur-Evrópu er einkarekstur í heilbrigðisgeiranum mun algengari en á Norðurlöndunum og telur Sanandaji að það skýri að einhverju leyti af hverju konur eru þar mun fleiri í stjórnunar- og stjórnarstöðum.

Þetta kemur m.a. fram þegar skoðað er hversu löng vinnuvika karla og kvenna er í mismunandi ríkjum. Á Norðurlöndunum vinnur meðalkarlinn á bilinu 16% (Finnland) til 27% (Noregur) fleiri vinnutíma en meðalkonan. Í Eistlandi og Lettlandi er munurinn aðeins 7%. Í Búlgaríu er sú sérstaka staða uppi að meðalkonan vinnur þar 1% fleiri vinnustundir en meðalkarlinn.

Velferðarkerfið, sem Norðurlöndin eru svo stolt af, heftir því möguleika kvenna til að rísa á tindinn í atvinnulífinu.

Sé ætlunin að jafna stöðu kynjanna hvað þetta verðar er nauðsynlegt að taka til endurskoð- unar fyrirkomulag opinbera geirans, með sérstaka áherslu á menntaog heilbrigðismál.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 30. júlí síðastliðinn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.