Jantelögin voru tekin saman í skandinavískri skáldsögu á fyrri hluta síðari aldar og hafa síðan verið notuð til að lýsa óskrifuðum samfélagslegum siðareglum, einkum í Danmörku og Noregi, þar sem litið var niður á einstaklingshyggju og persónulegan árangur. Þessar óskrifuðu reglur halda einstaklingnum niðri og viðhalda fylgispekt við hópinn. Síðasta reglan, hegningarreglan, lýsir því hvernig samfélagið rís upp gegn þeim sem brýtur lögin með óræðum hætti. Jantelögin hafa verið bendluð við hærri sjálfsvígstíðni og í seinni tíð hafa frændur okkar heldur snúist gegn þeim og sumir jafnvel lýst yfir dauða þeirra.

***

Fregnir af andláti Jantelaganna eru þó stórlega ýktar. Þessi hugsunarháttur lifir enn góðu lífi hér á landi. Hér má merkja ríka samfélagslega vanþóknun gagnvart þeim ríkustu og það má jafnvel merkja alveg sérstakan tón í fjölmiðlaumfjöllun um auðuga einstaklinga. Hér er gjarnan hæðst að „framapoturum“ sem þykja sýna of mikinn persónulegan metnað. Þeir sem eru áberandi eru athyglissjúkir. Sá sem vogar sér að viðra skoðanir sem eru í andstöðu við ríkisskoðunina, þótt það sé ekki nema bara með því að spyrja gagnrýninna spurninga, er úthrópaður og jafnvel niðurlægður. Hvað halda þessir einstaklingar eiginlega að þeir séu?

Nú þegar það er orðið samfélagslega samþykkt að menn séu sekir uns sakleysi er sannað, hefur hegningarreglan styrkst enn frekar. Réttarríkið hefur vikið fyrir Jantelögunum og refsing dómstóls götunnar ræðst af stöðu einstaklings gagnvart hópnum.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 14. júlí 2022.