Óhætt er að segja að árið sem við nú kveðjum hafi verið viðburðaríkt og ófyrirsjáanlegt. Þegar árið hófst geisaði enn heimsfaraldur.

Góð bólusetningarstaða og vísbendingar um að nýtt afbrigði veirunnar væri veikara en hin fyrri gáfu hins vegar tilefni til bjartsýni.

Ég var ein þeirra sem sá fyrir mér að þegar sóttvarnaráðstöfunum yrði aflétt myndum við endurheimta eðlilegt líf; að stjórnmálin færu aftur að snúast um þessa venjulegu hluti. En sama dag og sóttvarnaráðstöfunum var aflétt á Íslandi réðust Rússar inn í Úkraínu. Sú innrás stendur enn og afleiðingar hennar eru margháttaðar. Milljónir Úkraínumanna eru á flótta, þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið, eyðileggingin er gríðarleg. Í Evrópu hækka orkureikningar á meðan húsin kólna og kveikt er á öðrum hverjum ljósastaur. Við sem búum á Íslandi erum svo lánsöm að eiga hitaveitu og rafveitu en finnum fyrir verðbólgunni sem er langt yfir markmiði hjá okkur eins og öðrum.

Heimsfaraldur og stríð

Öfgarnar eru miklar og áföllin eru stór. Heimsfaraldur og stríð eru ekki endilega það sem maður reiknar með þegar maður sest í stól forsætisráðherra en einmitt á slíkum tímum skiptir máli að hafa skýr leiðarljós; rétt eins og afkoma almennings og atvinnulífs var varin í gegnum heimsfaraldur með því að styðja við fyrirtækin til að halda fólki í vinnu og bætt var í tilfærslukerfin, vinnum við nú að því að verja afkomu þeirra hópa sem eru viðkvæmastir fyrir áhrifum verðbólgunnar og tökumst á við nýjar áskoranir eins og að taka á móti fólki sem flýr stríðsátök.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að það eru óvissir tímar í heiminum. Verkefnið nú er að skapa forsendur til að halda áfram að bæta lífskjörin og takast þær stóru umbreytingar sem við stöndum frammi fyrir. Við kjarasamningsborðið er horft til skemmri tíma vegna óvissunnar – enda flókið að lenda farsælum samningum á slíkum tímum. Þar reyna stjórnvöld að greiða fyrir málum með því að gera sitt til að bæta lífskjör almennings – lækka húsnæðiskostnað almennings og styðja betur við barnafólk með hærri barnabótum sem ná til fleiri.

Yfir og allt um kring er loftslagsváin sem fór ekkert á meðan heimsfaraldri stóð. Að ná markmiðum okkar um samdrátt í losun en tryggja um leið lífskjör fólksins í landinu er risavaxin áskorun. Nauðsynlegar loftslagsaðgerðir koma með mismunandi hætti við ólíka hópa fólks – verkefni okkar er að tryggja að jöfnuður og réttlæti verði leiðarljós í umskiptunum.

Risastór verkefni

Við erum þegar komin á fulla ferð inn í nýtt grænt hagkerfi. Frá því að ríkisstjórnin lagði fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum 2018 hefur margt áunnist; orkuskipti í samgöngum eru á fullri ferð; borgarlínuverkefnið er farið af stað, landgræðsla og skógrækt hafa verið stóraukin, markmiðin eru orðinn enn metnaðarfyllri og markmiðið um kolefnislaust Ísland eigi síðar en 2040 hefur verið lögfest. Samtal við sveitarfélög og atvinnulífið um áfangaskipt losunarmarkmið fyrir alla geira samfélagsins er hafið. Sett hefur verið stefna um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Gefinn hefur verið út rammi fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs og möguleg útgáfutækifæri á sjálfbærum skuldabréfum eru til skoðunar. Skattalegir hvatar hafa verið innleiddir til að örva grænar fjárfestingar og lífeyrissjóðir boða stórsókn á því sviði. Unnið er að sjálfbærnistefnu fyrir Ísland og við stefnum ótrauð áfram að því markmiði að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar en tryggi um leið velsæld fólksins í landinu og sjálfbæra verðmætasköpun.

Á nýju ári verða áskoranirnar áfram margar. Sérstaklega þarf að huga að líðan og menntun barna og ungmenna. Við sjáum að loknum heimsfaraldri að andleg líðan barna og ungmenna hefur versnað og þar líður stúlkum verr en drengjum. Við sjáum líka að drengir hverfa frekar frá námi en stúlkur. Hvorttveggja eru þetta risastór verkefni; að bæta líðan og menntun ungs fólks og tryggja að það hafi allt sem þarf til að takast á við samfélag dagsins í dag. Þar dugir ekki bara að benda á skólana – þetta er samfélagslegt verkefni sem varðar okkur öll og snýst fyrst og fremst um að byggja upp samfélag þar sem hæfileikar allra fá notið sín og að við hugum að því sem mestu máli skiptir; velsæld og hamingju fólksins í landinu.

Gleðilegt ár.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.