*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Leiðari
16. febrúar 2017 10:31

Vélvæðingin veldur

Bandarískir verkamenn eru ekki að tapa í samkeppninni við kínverska eða mexíkóska starfsbræður, heldur í keppni við vélmenni.

epa

Verndarstefnu hefur vaxið mjög fiskur um hrygg í stjórnmálum víða um heim og er kjör Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna ein birtingarmynd þess. Hann heldur því fram að sú mikla fækkun starfa sem orðið hefur í framleiðslugeiranum vestra hafi komið til vegna aukinnar samkeppni frá ríkjum eins og Kína og Mexíkó. „Ameríka hefur misst nálægt þriðjungi framleiðslustarfa frá innleiðingu Nafta [fríverslunarsamningsins] og um 50.000 verksmiðjur frá því að Kína varð meðlimur að Alþjóðaviðskiptastofnuninni,“ sagði á vefsíðu Trumps.

Þessi söguskýring gengur því út á að auknu frjálsræði í alþjóðaviðskiptum, auknum viðskiptahalla við Mexíkó og Kanada auk ósanngjarnrar niðurgreiðslustefnu Kína sé um að kenna hnignun bandarísks iðnaðar og fækkun í millistéttinni

Federica Cocco benti á það í pistli í Financial Times fyrir nokkru að á milli áranna 2000 og 2010 hefði störfum í framleiðslugeiranum bandaríska fækkað um 5,6 milljónir. En samkvæmt rannsókn, sem unnin var í Ball State University, ber aukin vélvæðing í iðnaði ábyrgð á um 85% af þessari fækkun. Aðeins um 13% séu til kominn vegna alþjóðaviðskipta.

Staðreyndin er nefnilega sú að bandarískur iðnaður fer alls ekki hnignandi. Raunvirði bandarískrar framleiðslu hefur aukist verulega og er nú um 2,5 sinnum meiri en það var árið 1980. Hins vegar hefur störfum í geiranum fækkað. Bandarískir verkamenn eru ekki að tapa í samkeppninni við kínverska eða mexíkóska starfsbræður, heldur í keppni við vélmenni

Bandaríkin eru því að framleiða meira en þurfa til þess færri hendur. Þetta er jákvæð þróun, því þetta vinnuafl, sem ekki lengur þörf á í iðnaði, er hægt að nýta til annarra verka. Í grein Cocco bendir hún á að tímakaup málmsuðumanns í Bandaríkjunum sé um 25 dalir, en sambærilegur rekstrarkostnaður vélmennis sé um 8 dalir á klukkustund. Þessi munur mun aðeins aukast eftir því sem fjárfestingin í vélmenninu er afskrifuð

Vissulega hafa störf tapast vegna viðskipta við önnur ríki, en sama ferli hefur einnig búið til störf, en í öðrum geirum atvinnulífsins. Það að reisa tollamúra og aðrar viðskiptahindranir mun ekki koma í veg fyrir að vélmenni taki fleiri störf í framleiðslugeiranum og jafnvel fleiri geirum atvinnulífsins. Það er þróun sem ekki verður stöðvuð. Viðskiptahindranir munu aðeins minnka velmegun í þeim ríkjum sem setja þær upp og auka streitu í samskiptum ríkja.

Þetta er óheillaþróun. Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld frekar stigið skref í átt að því að brjóta niður viðskiptahindranir en að reisa þær. Vonandi er að Íslendingum endist lukka til að svo verði áfram um ókomna tíð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is