Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem að sögn Fréttablaðsins er hyllt sem rokkstjarna á mannfögnuðum, var í viðtali við Andrés Magnússon í þættinum Dagmál sem Morgunblaðið sýnir á heimasíðu sinni.

Í viðtalinu sagði Kristrún að Samfylkingin þyrfti að kappkosta að ná sambandi við venjulegt fólk og kalla það til liðs við sig. Hrafnarnir telja þetta vera skell fyrir Twitter-samfélagið enda hefur flokkurinn fyrst og fremst reynt að verja hverja þá hneykslunarbylgju sem ríður yfir þann samfélagsmiðil til þessa. Að því sögðu rifja hrafnarnir upp skilgreiningu á ákveðinni stjórnmálastefnu sem margir hafa ímugust á: stjórnmálastefna sem byggir á að höfða til almennings á þeirri forsendu að hann telji að pólitísk elíta hafi til þessa sniðgengið vanda þeirra og áhyggjur. Lesendur mega svo geta sér til um hvaða stjórnmálastefnu er rætt.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. ágúst 2022.