Óðinn fjallaði á fimmtudaginn í síðustu viku um óumflýjanlega vaxtahækkun Seðlabankans, sem varð að veruleika í dag.

Seðlabankinn sagði í dag að ein ástæða meiri verðbólgu væri minna aðhalda í ríkisrekstri en bankinn gerði ráð fyrir í nóvember. Að mati Óðins er ekkert aðhald í ríkisrekstrinum, ríkisstjórnin er á löngu útgjaldarfyllerí sem ekkert lát virðist ætla að vera á.

Hér á eftir má lesa stutt upphaf á pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Verðbólga og vaxtahækkun í boði ríkisstjórnar Katrínar

Verðbólga hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er 2,5%, frá því sumarið 2020. Ársverðbólgan fór yfir 5% í desember 2021 og var 6,2% í febrúar 2022, en innrásin í Úkraínu hófst 24. febrúar. Hugsanlega var eitthvað af verðbólgunni vegna stríðsins þann mánuðinn en í mánuðinum á undan var hún 5,7%. Verðbólgan er því ekki stríðinu einu að kenna.

En hverju þá? Annars vegar mikilli aukningu peningamagns í umferð. Þar gekk Seðlabankinn líklega of langt samhliða vaxtalækkunum. En gleymum ekki að þegar ráðist var í aðgerðirnar vissi enginn hvað þetta Covid-19 nákvæmlega var og margar aðgerðir Seðlabankans síðan hafa verið í öfuga átt.

Hitt er gríðarleg aukning ríkisútgjalda frá upphafi Covid vorið 2020 og hallarekstur á ríkissjóði sem við höfum ekki séð á síðustu áratugum, utan ársins 2009 í kjölfar bankakreppunnar. Einnig aukning útgjalda hjá sveitarfélögum.

Það eru rök fyrir því að ríkissjóður þyrfti að gefa eitthvað eftir af álögum sínum svo hér færi ekki allt á hliðina. En sú leið var ekki farin heldur einfaldlega var komið upp miklu millifærslukerfi. Hallareksturinn árið 2022 er nú áætlaður 126 milljarðar. Gott og vel. Þá lauk Covid. Menn geta skýlt sér á bak við það. En það eru ekki nokkur afsökun að reka ríkissjóð á þessu ári með 120 milljarða halla.

***

Vinstri U-beygja Bjarna

Bjarni Benediktsson hélt ræðu á Alþingi þann 18. maí 2022.

Nú er ekki lengur tími fyrir ríkisfjármálin til að vera örvandi fyrir hagkerfið. Þeir tímar eru liðnir. Covid-ástandinu er sem sagt lokið og af þeim sökum þá segjum við hér að við þurfum að sætta okkur við mun minni raunvöxt ríkisútgjalda næstu árin heldur en hefur verið undanfarin ár. Vindarnir hafa snúist. Við þurfum að beita ríkisfjármálunum með allt öðrum

Óðinn var og er sammála þessum orðum Bjarna og bjóst við því að þetta myndi verða meginstefið í fjárlagafrumvarpinu 2023 . En Bjarni virðist hafa skipt um skoðun þá um sumarið. Í raun tekið vinstri U-beygju.

Markmið frumvarpsins er skýrt: Að styðja við heimilin í landinu, vinna gegn verðbólgu og byggja upp styrk ríkissjóðs á ný.

Þessi orð Bjarna standast ekki. Þau eru einfaldlega röng.

Heimilin eru að verða illilega fyrir verðbólgunni og hækkun bóta bætir það ekki upp. Fjárlögin vinna með verðbólgunni en ekki gegn henni.

Og styrkur ríkissjóðs verður minni í lok þessa árs ef hallinn verður 120 milljarðar króna eins og lagt var upp með í fjárlögunum.

Það er reyndar afskaplega líklegt að útgjöldin verði meiri en þar er gert ráð fyrir. Til dæmis eru miklar líkur á því að vaxtakostnaður ríkisins verði meiri .

***

Vaxtahækkun óumflýjanleg?

Því Seðlabankinn neyðist að öllum líkindum til að hækka vexti í næstu viku. Því verðbólgutölur í janúar voru skelfilegar. Þær voru birtar á mánudag. Flestir bjuggust við því að verðbólgan væri að hjaðna en hún fór úr 9,6% í 9,9%.

Þegar rót verðbólgunnar er skoðuð má rekja nær alla hækkunarliði beint til ákvarðana ríkisstjórnar, alþingis og sveitarfélaga. En aðallega ríkisins.

Pistill Óðins birtist Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2022.

Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér og blaðið í heild sinni hér.