*

sunnudagur, 19. september 2021
Huginn og muninn
18. júlí 2021 08:07

Verðið augljóst — eftir á

Þögn sérfræðinga verkalýðshreyfingarinnar um hækkun á gengi bréfa Play hefur verið ærandi.

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka, nú forstjóri Iceland Seafood.
Eyþór Árnason

Mikið hefur verið fjallað um rétt og rangt verð í hlutafjárútboðum síðustu vikurnar, sér í lagi í tengslum við útboð Íslandsbanka. Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka, tjáði sig um söluáformin á bankanum í tímariti Frjálsrar verslunar í mars.

„Þú veist aldrei fyrr en eftir á hvenær rétt er að selja. Hvort sem það er banki eða annað. Ef út í það er farið þá er alltaf hægt að halda því fram að það sé aldrei rétti tíminn. Ef hlutabréfin hækka mikið eftir söluna þá er það væntanlega vegna þess að aðstæður í efnahagslífinu hafa batnað til mikilla muna frá því sem var og fólk ætti að fagna því. Ef þau lækka þá getur það verið vegna þess að eitthvað var ekki inni í verðinu þegar salan fór fram og aðstæður hafa versnað í efnahagslífinu en þá er væntanlega gott að ríkið hafi losað sig út úr eignarhaldinu,“ sagði Bjarni og taka hrafnarnir heilshugar undir það.

Minna hefur heyrst í Ásgeiri Brynjari Torfasyni og öðrum í sérfræðingahópi verkalýðshreyfingarinnar um skráningu Play en Íslandsbanka. Hlutabréfaverð Play hækkaði um 23%-37% á fyrsta viðskiptadegi eftir því á hvaða gengi bréfin voru keypt og sló við hækkun Íslandsbanka.

Með sömu rökum og Ásgeir Brynjar beitti við söluferli Íslandsbanka má segja að hlutahafar Play fyrir skráninguna, sem margir eru líklega í hinu fræga 1%, hafi fært almenningi sem tók þátt í útboðinu 37% ávöxtun á silfurfati. Þessi „gjöf“ hlýtur að verða tekin fyrir í næstu sérfræðingaskýrslum um hlutabréfafjárfestingar og ójöfnuð. 

Líklega er nærtækari skýring, eins og Bjarni benti á, að hið rétta verð er ekki augljóst fyrr en eftir á.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.