*

föstudagur, 19. júlí 2019
Andrés Magnússon
2. mars 2017 17:15

Verðir verðlauna

„Hitt má þó heita óþekkt í hinum frjálsa heimi, að stjórnvöld veiti blaðamönnum sérstök verð­laun fyrir sér þóknanlega umfjöllun.“

„Eins hefur hér áður verið gagnrýnt að viðtalið fræga við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þá­ verandi forsætisráðherra, hafi ekki verið til marks um góða blaðamennsku, heldur fremur um sviðsetningu“.
Haraldur Guðjónsson

Hið árlega árshátíðarglens Blaðamannafélags Íslands – veiting blaðamannaverðlauna – mun eiga sér stað um komandi helgi, eins og fjölmiðlaneytendur hafa sjálfsagt orðið lítillega varir við. Fjölmiðlarýni er minnisstætt þegar hann var fyrst viðstaddur þá athöfn, í Gyllta salnum á Hótel Borg í miðri fjölmiðlabólu fyrirhrunsins, og veislustjórinn sló í beiskan bikar til að kveðja sér hljóðs:

Alla aðra daga ársins fjöllum við um aðra, en í kvöld er komið að því að við fjöllum um sjálf okkur!

Enginn skyldi væna blaðamenn um sjálfhverfu eftir svona kynningu.

***

Að venju eru margir til kallaðir en fáir útvaldir. Sérstök dómnefnd Blaðamannafélagsins lýsir eftir tilnefningum til verðlaunanna, velur svo þrjár tilnefningar í hverjum af fjórum flokkum verð­ launanna: Blaðamannaverðlaun ársins, umfjöllun ársins, rannsóknarblaðamennska ársins og viðtal ársins.

Oftast eru það miðlarnir sjálfir, sem senda tilnefningar um það sem þeim finnst mest um vert á umliðnu ári.

Ánægjan með verðlaunin hefur verið upp og ofan. Skoðanir geta verið skiptar um efni og efnistök, en stundum hefur verið rætt um að fremur væri verið að lýsa yfir velþóknun á umfjöllunarefninu en vinnubrögðunum. Þá hefur komið fyrir að menn séu ekki á eitt sáttir um hversu góð vinnubrögðin hafi verið og einu sinni olli það úlfaþyt þegar verðlaunin voru veitt fyrir bók, fremur en hefðbundna fjölmiðlaumfjöllun.

***

Það að miðlarnir tilnefni sjálfir umfjöllun til verðlauna getur stundum verið til vandræða. Ekki síst þegar miðlarnir eru jafnfáir og smáir og raun ber vitni. Þegar Kjarninn tilnefnir ritstjórann til verðlauna fremur en hinn blaðamanninn ástassjóninni er skiljanlegt að gárungarnir grínist með það, án þess að nokkur dragi í efa að tilnefningin sé góð og gild

En síðan getur það líka verið snúnara eins og þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson er tilnefndur til Blaðamannaverðlauna ársins fyrir „ítarlegar rannsóknir á þeim hluta Panamaskjalanna sem vörðuðu íslenska hagsmuni og umfjöllun, í samstarfi við aðra miðla, um mikil viðskipti í skattaskjólum“.

Nú má alveg velta því fyrir sér hvað hafi mikið komið út úr þessari vinnu allri eða hvort umfjöllunin hafi raunverulega leitt í ljós mikil viðskipti í skattaskjólum. Eins hefur hér áður verið gagnrýnt að viðtalið fræga við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þá­ verandi forsætisráðherra, hafi ekki verið til marks um góða blaðamennsku, heldur fremur um sviðsetningu

Það breytir ekki hinu, að þar að baki bjuggu forvitnilegar og fréttnæmar upplýsingar, sem mikil vinna hafði verið lögð í að greina og rekja. Og um afleiðingarnar þarf ekki að ræða fremur.

Hins vegar er varla nema von – svona í samhengi við verðlaunatilnefninguna – að einhver spyrji hvernig á því standi, að Jóhannes Kr. Kristjánsson einn er tilnefndur til Blaðamannaverðlauna vegna þessa máls, en ekki einnig Aðalsteinn Kjartansson, sem átti dyggan þátt í þeirri vinnu og fréttaflutningi

***

Blaðamannaverðlaun eru engan veginn séríslenskt fyrirbæri. Þau þekkjast víða um heim og eru af ýmsum stærðum og gerðum. Á Íslandi geta þau kannski nýst í atvinnuumsókn eða markaðsstarfi, en víða erlendis er um verulegar peningafjárhæðir að ræða

Ytra eru það þó oftast sjálfstæð­ir sjóðir eða sjálfseignarstofnanir, sem veita verðlaun af því tagi. Það er mun sjaldgæfara að miðlarnir sjálfir eða hagsmunasamtök blaðamanna geri það.

Hitt má þó heita óþekkt í hinum frjálsa heimi, að stjórnvöld veiti blaðamönnum sérstök verð­laun fyrir sér þóknanlega umfjöllun. Hvað þá að þeir veiti þeim viðtöku, líkt og tíðkast hefur um fjölmiðlaverðlaun umhverfisauðlindaráðuneytisins.

Er skárra þegar um er að ræða fjölmiðlaverðlaun hagsmunasamtaka, eins og þau sem KSÍ hefur veitt? Og hvað skal segja um hin nýlegu „Fjölmiðlaverðlaun götunnar“ sem veitt eru fyrir „málefnalega umfjöllun um fátækt á Íslandi“? Ekki skal efað að þar að baki býr góður hugur, en það er samt eitthvað ankannalegt við það þegar verið er að veita verð­ laun fyrir „rétta“ umfjöllun um tiltekin málefni eða málaflokka.

Þætti mönnum það gott ef leikhúsin færu að verðlauna menn fyrir faglega leikhúsgagnrýni? Viðskiptabankarnir fyrir málefnalega umfjöllun um fjármálamarkað? Landsvirkjun fyrir réttar fréttir af orkunýtingu?

Nei, það væri jafnskrýtið og ef þeir gæfu blaðamönnum þjórfé fyrir góðar fréttir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.