Efnahagskerfi og vinnumarkaður þjóða standa andspænis ýmsum meiriháttar áskorunum sem undirstrikar sífellt betur mikilvægi nýsköpunar. Efnahagur Íslendinga byggist einna helst á orku, sjávarútvegi og ferðaþjónustu en þetta þrennt á sameiginlegt að byggja að margvíslegu leyti á takmörkuðum auðlindum. Mikil áhætta er fólgin í því að treysta á fáar og takmarkaðar auðlindir. Kórónuveirufaraldurinn hefur t.d. haft feiknamikil áhrif á íslenskt hagkerfi sem og hagkerfi annarra þjóða. Hann hefur haft sérstaklega slæm áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi, sem er einkar mikilvæg fyrir íslenskt hagkerfi þar sem stór hluti af útflutningstekjum landsins kemur úr þeirri atvinnugrein. Með því að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi mætti auka gjaldeyristekjur og örva hagvöxt. Lykillinn að auknum gjaldeyristekjum og hagvexti er nýsköpun sem felst í að breyta hugviti í verðmæti.

Vísifjárfestingar, sköpun hálaunastarfa og menntun

Við gerð B.Sc. ritgerðar sem við unnum að í vor voru rannsökuð áhrif vísifjárfestinga (e. venture capital ) á atvinnu- og verðmætasköpun á Íslandi. Í úrtaki rannsóknarinnar voru níu fyrirtæki sem öll höfðu hlotið vísifjárfestingu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að vísifjárfestingar leiddu til fertugfaldrar fjölgunar starfsmanna frá þeim tíma sem fyrsta fyrirtækið fékk fjárfestingu. Þessi störf eru hálaunastörf en meðallaun starfsmannanna voru 51,9 prósentum hærri en meðallaun fullvinnandi launamanna í landinu. Vísisjóðir leiða því alla jafna til hærri launa en ef fjárfestingin væri ekki fyrir hendi. Störfin sem skapast eru að mestu í tækni- og hugbúnaðarþróun og upplýsingatækni og þeir sem vinna þessi störf eru vel menntaðir, langflestir með sérfræðimenntun af einhverju tagi. Helmingur af þeim fyrirtækjum sem rannsökuð voru skapaði störf í hugbúnaðargeiranum og fjórðungur í tæknigeiranum. Störf sem fjárfestingar vísisjóða skapa henta því alla jafna háskólamenntuðu fólki og launin eru í samræmi við það.

Kynjamismunur

Hlutfall karla var töluvert hærra en hlutfall kvenna meðal starfsmanna en niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 72 prósent starfsmanna voru karlmenn og 28 prósent konur. Sama átti við um hlutfall kvenna og karla í stjórn fyrirtækjanna en þar var hlutfall karla 76 prósent og hlutfall kvenna 24 prósent. Fleiri karlmenn útskrifast úr iðn- og tæknigreinum en konur en hlutföllin eru jafnari í verkfræði samkvæmt tölum frá Háskólanum í Reykjavík. Karlkyns stofnendur fá fremur vísifjárfestingu en kvenkyns stofnendur en 67 prósent vísifjárfestinga fara til karla, 11 prósent til kvenna og 22 prósent til blandaðra teyma.

Fjárfesting í aukinni verðmætasköpun

Til að skapa eitt starf þarf um 11,7 milljóna króna fjárfestingu en á innan við þremur árum hefur hver og einn starfsmaður óbeint skilað til ríkisins í formi skatttekna sem nemur fjárfestingunni sem skapaði starfið. Það sem starfsmenn fyrirtækjanna í úrtakinu greiddu í staðgreiðslu var 72,7 prósentum hærra en meðalstaðgreiðsla fullvinnandi launamanna árið 2018. Hærri laun skila meiru til ríkisins í formi skatta. Ekki er áhættulaust fyrir ríkið að setja fjármagn í vísisjóði en samkvæmt okkar niðurstöðum fær ríkið fjárfestinguna óbeint til baka á tiltölulega skömmum tíma. Þetta gefur vísbendingu um mikilvægi vel starfandi vísisjóða á Íslandi. Störfin eru tilkomin vegna þessarar upphafsfjárfestingar og eru hálaunastörf sem skila meiru til ríkisins en láglaunastörf. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að fjárfesting þessi stuðli að fjölbreyttara efnahagslífi og jákvæðra ytri áhrifa umfram störfin sjálf.

Framtíðin

Mikilvægt er að hvatar séu til staðar sem efla nýsköpun og hugvitsdrifnar atvinnugreinar til að stuðla að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Við teljum mikilvægt að menntakerfið sé í takt við þróun vinnumarkaðarins og nauðsynlegt sé að efla konur til þátttöku í greinum eins og iðn-, tækni- og tölvunarfræðigreinum. Störf framtíðarinnar byggjast á þessum greinum og þörf er á hæfileikaríkum einstaklingum af báðum kynjum til að vinna þessi störf. Háskólinn í Reykjavík efndi til verkefnis sem ber heitið „Stelpur í tækni“ sem skilað hefur frábærum árangri en nú sækja fleiri ungar konur í tölvunarfræði en nokkru sinni fyrr. Það mætti yfirfæra verkefnið á aðrar greinar þar sem hallar á konur, til dæmis í tækni- og iðngreinum. Við erum sannfærðar um að útflutningsdrifið hugvit muni leiða til verðmætara samfélags fyrir Íslendinga og þar geta vísisjóðir haft lykilhlutverki að gegna.

Höfundar, Kristín Ágústsdóttir og Unnur Svala Vilhjálmsdóttir, eru viðskiptafræðingar.