*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Ásdís Kristjánsdóttir
16. ágúst 2019 10:22

Verðtryggða bölið

Ljóst má þó vera að viðkvæmasti hópurinn sem ræður einna verst við verðbólguskot eru ungir og tekjulágir.

Haraldur Guðjónsson

Stjórnvöld áforma nú að breyta lögum um vexti og verðtryggingu. Til stendur að banna verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára en á sama tíma að veita ungum og tekjulágum undanþágu til að taka áfram slík lán. Rökin sem liggja þar að baki eru að ofangreind lán leiði til hægari eignamyndunar og meiri líkum á neikvæðu eigin fé lántaka samanborið við önnur lánaform.

Ljóst má þó vera að viðkvæmasti hópurinn sem ræður einna verst við verðbólguskot eru ungir og tekjulágir. Þessi umræða er ekki ný af nálinni, áður hefur verið reynt að úthýsa verðtryggingu með það að markmiði að standa vörð um efnahag heimilanna. Íslendingar hafa lengi búið við sveiflur í gengi og verðlagi en rót vandans er þó ekki verðtryggingin sem slík heldur endurtekin hagstjórnarmistök.

Með ábyrgri hagstjórn, aga við stjórn ríkisfjármála, gerð kjarasamninga sem endurspegla verðmætasköpun fyrirtækja og sterkari miðlun peningastefnunnar má ná fram sömu niðurstöðu án þess að skerða val neytenda við lántöku. Rétt er þó að verðtryggingin hefur reynst peningastefnunni erfiður ljár í þúfu vegna veikrar miðlunar skammtíma stýrivaxta yfir í langtíma verðtryggða vexti.

Meginmarkmið Seðlabankans er að viðhalda stöðugu verðlagi sem næst verðbólgumarkmiði. Þar sem húsnæðisverð hefur um 20% vægi í verðbólgumarkmiði bankans geta miklar húsnæðisverðshækkanir framkallað ofbeitingu stýrivaxtatækisins til að halda verðbólgu í skefjum, sem ýtir undir óstöðugleika og aukinn kostnað fyrir raunhagkerfið. Þannig er hægt að færa rök fyrir því að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabankans á meðan vaxtatækið er meginstjórntæki peningastefnunefndar.

Skilvirkari miðlun væri heldur að staðsetja fasteignamarkaðinn á sviði fjármálastöðugleika hvar þjóðhagsvarúðartækin eru geymd, en þeim er m.a. ætlað að vinna bug á húsnæðisbólum. Í stað þessa að banna ákveðið lánaform sem heimilum stendur til boða mætti e.t.v. endurskoða verðbólgumarkmið Seðlabankans. 

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.