Ávallt eru fjölmörg mál í deiglunni í orkumálunum og margvíslegar upplýsingar á ferð. Stundum getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er rétt hverju sinni, þar sem orðræðan getur verið misvísandi. Nauðsynlegt að hafa skýra sýn og gjörþekkja stöðu mála áður en lagt er af stað í krefjandi langferð. Rétt stilltur kompás og gott skipulag er veganestið sem þarf til að mæta hindrunum á leiðinni og komast á áfangastað. Ferðalag okkar er í áttina að því metnaðarfulla markmiði sem við höfum sett okkur í stjórnarsáttmála og orkustefnu, sem er að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun eldsneytis sem ekki er af endurnýjanlegum toga fyrir árið 2040. Í stuttu máli sagt, full orkuskipti eru fram undan.

Eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem ráðherra orkumála var að setja af stað vinnu með skipan starfshóps sem var falið að vinna að gerð skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum, stundum kölluð grænbók.

Markmið og tilgangur skýrslunnar var að draga fram, á aðgengilegu formi, staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Mér þykir hafa tekist vel til þar sem yfirgripsmikið upplýsingarit um orkumál er komið fram. Skýrslan tæpir einnig á helstu verkefnum og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir með sérstakri vísan til loftslagsmála. Skýrslan var unnin í víðtæku samráði, eins miklu og takmarkaður tími gaf tækifæri til.

Bætt orkuöryggi

Meginniðurstaða skýrslunnar er að varðandi loftslagsmarkmið Íslands sem þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning sem aftur eru grunnur að framfylgd orkuskipta í samfélaginu. Við orkuskipti bætist einnig orkuþörf til frekari vaxtar atvinnuvega. Bætt orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi, sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla. Sex sviðsmyndir eru settar fram í skýrslunni, en þær spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar, eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Þá erum við að tala um meira en tvöföldun á uppsettu afli ef mæta á allri þörf fyrir orkuskipti, hvort sem það er fyrir farartækin á landi, skipin á hafinu og allt flugið bæði innanlands- og millilandaflugið. Við getum rétt ímyndað okkur hve mikið flutningskerfið mun þurfa að styrkjast og þróast samhliða þessari framleiðsluaukningu, kerfi sem er takmörkunum háð jafnvel við núverandi orkunotkun.

Skýrslan dregur fram lýsingu á núverandi stöðu sem við höfum kynnst á undanförnum misserum. Hér eru enn stórar hindranir í veginum. Það eru orkuskerðingar, takmarkað hefur verið virkjað, það eru flækjur í regluverki varðandi ýmsar leyfisveitingar á sviði orkumála og óskýrleiki í regluverki varðandi uppbyggingu vindorku. Við heyrum einnig af glötuðum tækifærum í atvinnumálum um land allt vegna takmarkaðs aðgengis að raforku sem heftir lítil sem stór fyrirtæki. Það eru að sjálfsögðu jákvæð teikn um grósku og vöxt í atvinnulífinu þegar mikil eftirspurn er eftir grænni orku, en á sama tíma er sárt til þess að hugsa að spennandi tækifæri fara forgörðum hvort sem er vegna orkuskorts eða flutningstakmarkana.

Sjálfbær orkuvinnsla

Langtímaorkustefna fyrir Ísland var kynnt fyrir um ári síðan. Orkustefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Einhugur var um niðurstöðuna. Stefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál en hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um þegar við setjumst niður með einlægan vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar.

Stefnan felur í sér skýra framtíðarsýn, leiðarljós og meginmarkmið. Framtíðarsýnin kveður m.a. á um að öll orkuframleiðsla sé af endurnýjanlegum uppruna. Orkan sé nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf sé mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma, Ísland sé leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu og orkuskiptum og sátt ríki um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda. Fimm leiðarljós felast í orkustefnunni, það eru orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, umhverfi/náttúra og samfélag/efnahagur og markmið sett undir hvert þeirra.

Samhliða orkustefnunni kom fram aðgerðaráætlun með 38 skilgreindum aðgerðum og verkefnum. Ég sé fyrir mér að þessi áætlun verði lifandi skjal þar sem fram komi þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að hörðum höndum í ráðuneytinu, með okkar undirstofnunum og öðrum samstarfsaðilum eftir atvikum.

Orkumálin hafa skýrst nokkuð með stöðuskýrslu og stefnu. Við erum komin með heildrænt stöðumat og skýra framtíðarsýn. Stefnan leiðir okkur inn í nýja tíma með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem jafnvægi ríkir á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Okkur er falið að gæta vandlega að hinu viðkvæma jafnvægi milli verndar náttúrunnar og nýtingar hennar. Aðeins með því munum við uppskera sátt um orkumálin til framtíðar litið. Þannig uppfyllum við markmiðið um sjálfbæra þróun sem er að mæta þörfum nútímans án þess að aftra kynslóðum framtíðar að mæta sínum þörfum.

Fullt orkusjálfstæði

Nú um stundir eru viðsjárverðir tímar með stríðsátökum í Evrópu. Við getum verið þakklát fyrir það hér á landi að búa við frið og öryggi og þar með talið orkuöryggi. Nú háttar svo til að mörg ríki Evrópu, jafnvel okkar nánustu nágrannalönd, eru háð orkuinnflutningi frá óvinveittu ríki, með mismiklum hætti þó. Þessi nágrannaríki okkar vinna að því hörðum höndum að komast út úr þeim aðstæðum með því að finna leiðir til að hætta viðskiptum og innflutningi jarðgass og olíu frá Rússlandi. Allt kapp er lagt á að flýta orkuskiptum enn frekar með innlendri orkuvinnslu. Það er á svona tímum sem við sjáum verðmæti auðlinda okkar með enn gleggri hætti.

Okkar innlenda endurnýjanlega orka vinnur að báðum þessum mikilvægu markmiðum samtímis, loftslagsmarkmiðum og auknu orkuöryggi. Fyrri orkuskipti sem landið gekk í gegnum eftir olíukrísurnar á síðustu öld hafa komið okkur í þá öfundsverða og öruggu stöðu að megnið af framleiðslunni, þ.e. 85% hennar er af innlendum uppruna. Afgangurinn er olían sem knýr farartækin okkar og er flutt inn að mestu leyti frá  vina- og frændþjóð okkar Noregi. En þó staðan sé þessi, þá gæti hún verið enn betri með því að öðlast fullt orkusjálfstæði með okkar eigin framleiðslu raforku eða rafeldsneytis. Langtímamarkmið fær aukið vægi þegar það skoðast út frá sjónarhóli þjóðaröryggis til viðbótar við knýjandi loftslagsáskoranir.

Árin eru fljót að líða og það tekur ný verkefni langan tíma að fara frá því að vera hugmynd á blaði til framkvæmdar og gangsetningar. Því erum við að horfa fram á gríðarstórar áskoranir til skemmri og lengri tíma. Það verður öllum að vera ljóst sem koma að einhverju leyti að framgangi orkumála hér á landi, hve tíminn er takmarkaður. Við verðum hrinda verkefnum hratt í gang, en á sama tíma vanda okkur og vinna að málunum í sátt. Það er verk að vinna og ég mun ekki sitja auðum höndum.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Greinin birtist í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .