Nokkrum dögum áður en fyrri heimsstyrjöldin skall á, sumarið 1914, hóf ungur hagfræðingur störf hjá breska fjármálaráðuneytinu. Verkefni hans varð að spara hvert einasta penní svo Bretar lifðu stríðið af. Fjárhagslega.

Í mars 1918 fékk hagfræðingurinn ungi hugmynd. Hann sá auglýsingu í blaði á heimili fyrrum ástmanns síns um uppboð í París á öllum helstu listmálurum Frakka á átjándu öldinni. Manet, Corot, Ingres, Delacroix, Cezanne og öllum hinum. Þýski herinn var þá skammt frá borginni.

***

200 milljónir í listaverk – í stríði!

Í uppsiglingu var mikið ævintýri og háskaför. Hagfræðingurinn sannfærði Andrew Bonar Law fjármálaráðherrann breska um að láta sig hafa 20 þúsund pund til að kaupa listaverk. Það er yfir 200 milljónir króna í dag. Hafa verður í huga að þarna voru fjögur ár frá því stríðið hófst og enginn vissi hvenær því myndi ljúka. Þetta var því gríðarhá fjárhæð.

Hagfræðingurinn ungi fór ásamt stjórnanda listasafns þeirra Breta (e. The National Gallery), sem var í dulargervi, til Parísar. Þeir fóru í skipalest yfir Ermarsundið sem var varin af tundurspillum og flugvélum konunglega flughersins.

***

370 pund ávöxtuðust vel

Uppboðið fór fram í Gallerí Roland Petit á Rue de Sèze. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir í París þá er það í göngufæri frá Gömlu óperunni og Ritz hótelinu þar sem Hemingway barinn er að finna. Ungi hagfræðingurinn hefði ekki komst þar inn þá. Því þá kallaðist hann Dömubarinn og aðeins karlmenn sem gátu sannað að þeir væru kvæntir konunni sem þeir voru með fengu að koma inn. Segið svo að heimur versnandi fari.

Sir Charles Holmes keypti á þriðja tug málverka fyrir um 15 þúsund pund. Hann neitaði hins vegar að kaupa nokkuð eftir Paul Cezanne. En hagfræðingurinn ungi var ekki á sömu buxum og keypti málverk af sjö eplum. Verkið kostaði 370 pund, sem eru tæpar 4 milljónir á núvirði.

***

Misskilningur Keynes

Ungi hagfræðingurinn í breska fjármálaráðuneytinu var John Maynard Keynes. Keynes var einkar snjall maður. Bæði sem hagfræðingur en ekki síður sem fjárfestir. En grundvöllur einnar af hans helstu kenningum - að ríkisvaldið eigi að auka útgjöld í kreppu og draga saman útgjöld í góðæri til að jafna sveiflur - er að þeir sem fara með ríkisfjármálin séu snjallir, helst alvitrir. Það reyndist á misskilningi byggt hjá okkar manni.

Óðinn vill nefna nærtæk dæmi frá okkar ágæta landi um að þessi leið Keynes jafnar ekki endilega sveiflur, heldur getur aukið sveiflurnar.

© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

***

Landspítali á röngum tíma

Í tvo áratugi var rætt um að byggja nýjan Landspítala þar til hafist var handa. Í kjölfar hrunsins vildu margir nýta þann mikla slaka sem var í byggingargeiranum til að byggja spítalann. Á hinn bóginn var ríkissjóðurinn tómur og óvissan óskapleg. Það voru meira segja uppi hugmyndir að ríkissjóður tæki að sér að greiða skuldir einkabankans Landsbankans. Það fer líklega í sögubækur sem heimskulegasta afstaða allra tíma.

Framkvæmdir hófust svo loks árið 2018. Í fyrra var kostnaðurinn áætlaður 80 milljarðar króna. Fyrir þá fjárhæð er hægt að byggja um 2.800 íbúðir, án lóðakostnaðar. En spítalinn var ekki eina verkefnið á vegum ríkisins frá 2018. Vegir hafa verið breikkaðir, göng hafa verið boruð, nýjar höfuðstöðvar byggðar fyrir sjálfan Skattinn – ríkið í ríkinu, og brýr byggðar.

Það er því ekki víst að þó Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu deiliskipulagt nægjanlega margar lóðir – sem þau gerðu ekki – að byggingargeirinn hefði ráðið við meiri íbúðarbyggingar, að minnsta kosti til skemmri tíma.

Vegna eiturblöndunnar, skorts og lágra vaxta, hækkaði íbúðaverð gríðarlega þar til nú. Fasteignamarkaðurinn hefur snöggkólnað. Óðinn er þess fullviss að verð muni lækka, ekki aðeins að raunvirði, heldur einnig nafnvirði.

***

Bjargvætturinn Dagur B.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt morgunverðarfund þann 16. febrúar síðastliðinn. Viku síðar var öllum takmörkunum vegna Covid aflétt.

Í „frétt“ á vef Reykjavíkurborgar segir um fundinn sagði:

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði fundinn og fór yfir græna fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar og fyrirtækja sem tengjast borginni. Græna planið er áætlun Reykjavíkurborgar til viðspyrnu heimsfaraldri kórónuveiru en borgin og tengd fyrirtæki munu fjárfesta fyrir tugi milljarða á næstu árum í grænum innviðaverkefnum.

Í ár ætlaði Reykjavíkurborg að fjárfesta fyrir 32 milljarða króna. Sú fjárhæð fer líklega niður í 27 milljarða vegna mikils taprekstur á fyrri árshelmingi hjá borginni. Hluti þessa er einfaldlega viðhald á mannvirkjum Reykjavíkurborgar sem hefur verið illa sinnt af borginni að minnsta kosti frá hruninu 2008.

Á næstu 10 árum hyggst Reykjavíkurborg fjárfesta fyrir 220 milljarða í Reykjavík. Guð hjálpi reykvískum skattgreiðendum og börnum þeirra, og barnabörnum, og líklegast barnabarnabörnum.

En fjárhæðirnar skipta ekki aðalmáli hér. Aðalatriðið er að það þurfti enga viðspyrnu vegna kórónuveirunnar. Það sáu það allir, sem eitthvað sjá, að hagkerfið hafði þegar tekið mjög við sér eftir Covid tímann. Enda kom það í ljós að hagvöxtur nam 8,6% fyrstu þrjá mánuði ársins. Hagvöxturinn var reyndar einnig verulegur árið 2021, nam 4,3% eftir 7,1% samdrátt árið 2020.

Að auki vissu menn að að um leið og allar takmarkanir færu vegna veirunnar færi ferðaþjónustan á flug. Og hún fór á flug.

***

Hverjar eru líkurnar á að vinna oftar en einu sinni í lottó?

Kristrún Frostadóttir, fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka og blaðamaður á Viðskiptablaðinu, tilkynnti framboð sitt til formanns Samfylkingarinnar á dögunum.

Kristrún er einn helsti aðdáandi Keynes hér á landi. Þótt Kristrún sé greind kona þá ofmetur hún eigin getu og annarra, rétt eins og Keynes, til þess að stilla hagkerfið af. Kristrún vildi stórfjölga ríkisstarfsmönnum í Covid. Þetta var þrátt fyrir að starfsmönnum hjá hinu op­in­bera hefði fjölgað mikið. Þeim fjölgaði um níu þúsund frá sept­em­ber 2017 til desember 2021, en starfs­mönn­um á einka­markaði fækkað á sama tíma um átta þúsund.

Í júli 2021 sagði Kristrún að beita hefði átt ríkissjóði mun meira. Gleymum þó ekki að það ár var 4,3% hagvöxtur.

„Hug­mynda­fræði­leg tregða gerði það að verkum að eng­inn vilji var til staðar til að ráð­ast strax í beina inn­spýt­ingu fjár­magns, með mark­vissum hætti, frá rík­inu til þeirra sem lentu í tekju­stoppi vegna stór­kost­legs mark­aðs­brests – vegna nátt­úru­ham­fara og opin­berra aðgerða fyrir almanna­hag.“

Þessar hugmyndir Dags B. Eggertssonar og Kristrún voru með tilvísun í kenningar Keynes. En Keynes blessaður hefði verið fyrstur manna til að benda Degi og Kristrúnu á að þær væru þvert á hans kenningar. Þær komu einfaldlega á kolröngum tíma.

Það er álíka líklegt að stjórnmálamenn hitti á rétta tímapunktinn til að auka ríkisútgjöld til að slá á kreppu og fyrir okkur hin að vinna í lottó. Það er að auki ákaflega ósennilegt að maður vinni oftar en einu sinni í lottó. Kristrún kallaði 100 milljóna króna ágóða sinn á hlutabréfum Kviku einmitt lottóvinning. Hverjar eru líkurnar á að vinna oftar en einu sinni í lottó?

Keynes lést árið 1946 sem auðugur maður. Hann átti um 400 þúsund pund, eða um 3 milljarða króna. Eplin sjö voru seld árið 1993 á 60 milljónir dalir að núvirði, eða 8,4 milljarða króna.

Kannski ætti Kristrún Frostadóttir og Dagur B. Eggertsson heldur að fylgja ráðum Keynes í fjárfestingum og hætta þá sínum eigin peningum frekar en samborgaranna.

Sumir segja að rétt sé að vera gráðugur þegar aðrir eru hræddir. Aðrir segja að rétt sé að vera hræddur þegar aðrir eru gráðugir. Listin er að vita hvort á hvenær við.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 8. september 2022.