Verkefni Neytendasamtakanna eru ótrúlega fjölbreytt. Meðal veigamikilla mála sem Neytendasamtökin vinna að nú um stundir eru smálán, skyldumætingarkrafa Icelandair, kílómetramælasvindl í notuðum bílum og oftekin gjöld vatnsveitna. Grunnur starfsins byggir þó ætíð á átta grunnkröfum neytenda: Réttinum til að fá grunnþörfum mætt, til öryggis, til upplýsinga, til að velja, til áheyrnar, til úrlausnar, til neytendafræðslu og réttinum til heilbrigðs umhverfis.

Það gera sér ekki allir grein fyrir því, en Neytendasamtökin búa ekki til mál. Daglega berst samtökunum fjöldi tilkynninga frá félagsmönnum og öðrum sem eru duglegir að láta vita um hvað betur megi fara í samfélaginu. Flestir stjórnendur eru þakklátir fyrir aðhaldið, enda sé það sanngjarnt, þó það sé kröftugt.

Þó er það ekki algilt. Þannig berast samtökunum upplýsingar um kaldrifjaða lævísi smálánastarfseminnar sem klófestir fólk í vítahring ólöglegra skulda. Þó allt sómakært fólk sé sammála um skaðsemi ólöglegra smálána, er með ólíkindum hversu torsótt hefur reynst að uppræta starfsemina.

Smálánafyrirtækin hafa aldrei svarað fyrirspurnum samtakanna og því hefur athyglinni verið beint að fyrirtækjum sem gera þeim kleift að starfa með einum eða öðrum hætti; aðstoða við greiðslumiðlun, auglýsingar, innheimtu, eða líta framhjá því að þau séu notuð af smálánafyrirtækjunum til ólöglegrar starfsemi.

Neytendasamtökin hafa sent á sjötta tug erinda og fyrirspurna til fyrirtækja og opinberra aðila til að vekja athygli á starfseminni og hvetja heiðvirð fyrirtæki til að láta af stuðningi við ólöglega smálánastarfsemina.

Neytendasamtökin hafa einnig brugðist við kvörtun félagsmanna vegna svokallaðrar skyldumætingarkröfu Icelandair. Mæti farþegi ekki í bókað flug Icelandair, fellir félagið niður aðra leggi bókunarinnar, áframhaldandi flug og heimflug. Þennan skilmála telja Neytendasamtökin afar ósanngjarnan og ganga í berhögg við lög.

Enda er ekki að finna neina viðlíka skilmála í neinum öðrum viðskiptum. Í Evrópu hafa enda nýlega gengið dómar þar sem sambærilegir skilmálar hafa verið dæmdir ólöglegir. Samtökin hafa fundað með stjórnendum Icelandair og krafist niðurfellingar skilmálanna og er boltinn nú hjá Icelandair.

Barátta evrópskra neytendasamtaka gegn fölsun á kílómetrastöðu í notuðum bílum heldur áfram. Krafan er einföld: að bílaframleiðendur girði fyrir möguleika á mælafalsinu. Neytendasamtökin eru þátttakendur í því samstarfi enda hefur Procar-málið vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Nýlega úrskurðaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi hafi verið ólögmæt og henni bæri að endurgreiða félagsmanni Neytendasamtakanna oftekin gjöld. Við höfum nú sent Orkuveitu Reykjavíkur erindi þar sem óskað er eftir viðbrögðum við úrskurðinum og hvernig veitan muni standa að endurgreiðslu oftekinna gjalda annarra viðskiptavina sinna.

Þá má nefna umsagnir til nefnda alþingis um frumvörp til laga frá sjónarhorni neytenda með hagsmuni þeirra í huga. Frá áramótum hafa samtökin til að mynda unnið og sent alþingi á þriðja tug umsagna um frumvörp til laga. Samtökin hafa oftsinnis mætt á nefndafundi alþingis og talað máli neytenda. Þar etja samtökin kappi við sjónarmið annarra hagsmunasamtaka, stofnana og fyrirtækja, og því er svo mikilvægt að sterk rödd neytenda heyrist og hlustað sé á hana.

Neytendasamtökin á Íslandi eru hlutfallslega stærst allra neytendasamtaka í heiminum, en um það bil fertugasti og þriðji hver Íslendingur er í samtökunum. Hvergi á byggðu bóli eru hlutfallslega jafnmargir félagsmenn. Danmörk kemst að því best er vitað næst því, en nærri hundraðasti hver Dani er í dönsku neytendasamtökunum Tænk.

Þrátt fyrir það gætu Neytendasamtökin á Íslandi verði enn öflugri. Til að mynda eru þau einu neytendasamtökin á Norðurlöndum sem njóta engra beinna styrkja frá stjórnvöldum. Sem dæmi greiðir norska ríkið allan rekstrarkostnað norsku samtakanna og í Danmörku fá dönsku systursamtökin um þriðjung tekna sinna í beinan styrk frá ríkinu, auk ýmiskonar þjónustusamninga.

Starfsmenn Neytendasamtakanna eru fimm, en til að halda í við hlutfallslegan fjölda systursamtaka á Norðurlöndum, og jafnframt eiga möguleika á því að sinna þeim verkefnum sem nauðsynleg eru, þyrftu þeir að vera að minnsta kosti tvöfalt fleiri. Neytendasamtökin hafa kallað eftir skýrri neytendastefnumótun stjórnvalda. Staða neytendamála á Íslandi hverju sinni er háð því hvernig staðið er að umgjörð hennar. Neytendamálum er gefinn gaumur eftir því hversu mikil áhersla er lögð á þau.

Það er gott að finna fyrir stuðningi við Neytendasamtökin og þeim meðbyr sem samtökin njóta í samfélaginu. Styrkur Neytendasamtakanna felst einmitt í krafti fjöldans. Því fleiri félagsmenn, því öflugri samtök. Þó fjöldi félagsmanna sé hlutfallslega mikill, er mengi landsmanna lítið og því skiptir hver einasti félagsmaður miklu máli.

Í Neytendasamtökunum eru um 8.100 félagsmenn. Mér finnst þeir þurfi að vera mun fleiri. Ég hvet lesendur að íhuga að ganga til liðs við samtökin og leggja þannig sitt á vogarskálar eflingar neytendaréttar á Íslandi. Jafnframt mætti skora á vin að gera slíkt hið sama. Það er mjög einfalt. Sjá hér: www.ns.is/ skra

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna