*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Leiðari
24. janúar 2020 13:03

Verkfallsdraugurinn vakinn

Tæpum tíu mánuðum eftir undirritun lífskjarasamninganna hefur formaður Eflingar stillt vekjaraklukku verkfallsdraugsins á nýjan leik.

Frá opnum fundi Eflingar í Iðnó á miðvikudaginn. Yfirskrift fundarins var „Borgin er í okkar höndum".
Eyþór Árnason

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir fyrir tæpum tíu mánuðum. Var því fagnað enda eru kjarasamningar og niðurstaða þeirra langmikilvægasta efnahagslega ákvörðun þjóðarinnar hverju sinni. Áður en samningarnir voru undirritaðir var búið að gefa þeim nafnið „lífskjarasamningar“. Takturinn var svipaður þegar merkustu kjarasamningar síðustu áratuga voru undirritaðir árið 1990 en þeir voru strax kenndir við þjóðarsátt og æ síðan hafa þeir aldrei verið kallaðir annað en þjóðarsáttarsamningarnir.

Þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990 mörkuðu þáttaskil í íslensku samfélagi. Í einföldu máli má segja að með þeim hafi samkomulag náðst um að róa öllum árum að því að auka hér kaupmátt eftir verðbólgubál níunda áratugarins, þar sem laun voru sífellt hækkuð umfram framleiðniaukningu.

Segja má að lífskjarasamningarnir séu af svipuðu meiði. Samið var um hóflegar launahækkanir, þar sem megináhersla var lögð á hækkun lægstu launa. Megináherslan var að tryggja stöðugleika og auka kaupmátt. Það hefur gengið því í fyrsta skiptið eru Íslendingar að upplifa stöðugleika í niðursveiflu.

Það var samt löngu vitað og oft verið um það ritað hér á þessum vettvangi að þrátt fyrir farsæla lendingu í samningum á almennum vinnumarkaði væri bara hálfur sigurinn unninn. Opinberir starfsmenn ættu eftir að semja.

Fyrir nákvæmlega ári síðan var orðræða róttækustu verkalýðsforingjanna mjög herská. Með upphrópunum voru þeir nánast búnir að lofa skjólstæðingum sínum átökum. Það raungerðist þegar verkfallsaðgerðum var beint að ferðaþjónustunni.

Sú ákvörðun verkalýðsforingjanna og ráðgjafa þeirra að beina spjótum sínum að ferðaþjónustunni var vanhugsuð og í raun óskiljanleg, þar sem Wow Air reri lífróður á þessum tíma og störf yfir þúsund starfsmanna flugfélagsins í hættu. Svo fór að Wow varð gjaldþrota, fólk missti vinnuna og fullkomin óvissa ríkti í íslenskri ferðaþjónustu. En eins dauði er annars brauð og allt varð þetta til þess að verkalýðsforystan sá að sér og samdi. Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði í útvarpsviðtali að eftir fall Wow hefði staðan verið orðin svo þröng að menn yrðu að ná saman.

Nú, tæpum tíu mánuðum eftir undirritun lífskjarasamninganna, hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stillt vekjaraklukku verkfallsdraugsins á nýjan leik. Og það þrátt fyrir að Starfsgreinasamband Íslands, sem Efling tilheyrir, hafi náð samningum við sveitarfélögin. Efling telur starfsfólk á leikskólum eiga inni leiðréttingu á sínum kjörum og launakrafan margfalt hærri en samið var um í lífskjarasamningunum. Náist ekki samningar þá hefur samninganefnd Eflingar lagt til að starfsmenn á leikskólum fari í verkfall strax í næsta mánuði.

Það er gömul saga og ný að tala um „réttlæti“ og „leiðréttingu“ í kjaraviðræðum. Þessi taktík var til að mynda notuð árið 2014. Skömmu eftir að verkalýðsforystan og Samtök atvinnulífsins höfðu samið um 2,8% launahækkun, þar sem markmiðið var að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu setti hið opinbera allt í háaloft með því að semja við lækna og kennara á allt öðrum forsendum. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika var einmitt talað um „réttlæti“ og „leiðréttingu“.

Það er gríðarlega mikilvægt að samningamenn sveitarfélaga og ríkis standi nú í fæturna. Þá mega stjórnmálamenn ekki láta teyma sig út í horn og þess vegna var gott að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, þekktist ekki boð Sólveigar Önnu um að mæta á fund í gær til að ræða kjaramálin sérstaklega.

Í nýlegri samantekt Gylfa Zoega, nefndarmanns í peningastefnunefnd, til Alþingis bendir hann á að laun hafi árið 2018 verið þau hæstu innan OECD að teknu tilliti til verðlags og launakostnaður sem hlutfall af virðisauka hafi verið sá þriðji hæsti innan OECD. Laun sem hlutfall af rekstrartekjum höfðu til að mynda aldrei verið hærri en 2018 innan ferðaþjónustunnar. Svigrúm til mikilla launahækkana sé því lítið.

Það mætti benda samninganefnd Eflingar á að renna yfir samantekt Gylfa. Einnig mætti hún minnast orða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem í viðtali síðasta haust sagðist vonast til „að lífskjarasamningarnir verði núna ákveðið leiðarljós í því hvernig við högum okkar vinnumarkaðsmálum“.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.