*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Sigurður Páll Hauksson
13. september 2019 14:02

Verkin sýna merkin

„Atvinnulífið, samtök launafólks og hið opinbera þurfa að gera eitthvað öðruvísi á morgun en við gerum í dag.“

Fyrir skömmu var opnað fyrir umsóknir í Snjallræði, sem er svokallaður viðskiptahraðall þar sem áhersla er lögð á nýsköpunarverkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Auk Deloitte er fjölbreyttur hópur fyrirtækja, samtaka og opinberra aðila stuðningsaðilar Snjallræðis. Þessi áhersla á samfélagslegan ávinning í breiðu samhengi er kærkomin og í takt við aukna umræðu um hvernig tæknin mun umbreyta daglegu lífi okkar allra.

Í því ljósi er áhugavert að líta til nýjustu könnunar Deloitte á heimsvísu þar sem viðhorf svokallaðrar aldamótakynslóðar eru könnuð. Þar kemur í ljós að aðeins 1 af hverjum 5 telja sig hafa alla þá færni og þekkingu sem þarf til að taka virkan þátt í breyttum heimi. Í sömu könnun, sem tók til ríflega 13.000 einstaklinga í 42 löndum, kom einnig fram að þessi kynslóð hefur litla trú á því að stjórnvöld og fyrirtæki séu að sinna sínu hlutverki þegar kemur að samfélagslegum umbótum.

Þetta eru skýr merki um að verkin okkar til þessa hafi ekki dugað til, atvinnulífið, samtök launafólks og hið opinbera þurfa að gera eitthvað öðruvísi á morgun en við gerum í dag. Þetta er umfangsmikil áskorun sem fyrirtæki verða æ meðvitaðri um. Kom það bersýnilega í ljós fyrir skemmstu þegar 200 forstjórar alþjóðlegra fyrirtækja, þar með talið Deloitte, undirrituðu yfirlýsingu um að tilgangur fyrirtækja væri ekki eingöngu að þjóna hagsmunum hluthafa, heldur líka starfsmanna og samfélagsins.

Tæknibreytingar munu áfram vera örar og hafa víðtæk áhrif á okkur öll. Það þarf því að halda samtalinu gangandi um hvernig við ætlum að nýta tækifærin sem tæknin skapar til að efla starfsþróun og bæta lífskjör en jafnframt hvernig við ætlum að mæta mögulegum neikvæðum áhrifum þeirra á tiltekna hópa. Við verðum með öðrum orðum að hafa þýðingarmikil áhrif með okkar verkum á samfélagið í heild.

Samfélagsleg nýsköpun getur verið ágætt leiðarstef á þeirri vegferð, að atvinnulíf, samtök launafólks og hið opinbera vinni í sameiningu að því að nýta tæknina til að efla samfélagið bæði með beinum og óbeinum hætti. Tækniþróunin mun ekki bíða eftir okkur. Við þurfum því samstillt átak með skýrum markmiðum og aðgerðaráætlun ef við ætlum að ná árangri. Deloitte er tilbúið að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Höfundur er forstjóri Deloitte.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.