Verslun er stærsta atvinnugreinin í Evrópu. Fimm milljón fyrirtækja eru starfandi í smásölu og heildsölu í álfunni allri.

Þessi fyrirtæki veita um 26 milljónum manna vinnu eða 13% alls vinnuaflsins. Heimfært upp á íslenskan veruleika eru þessi hlutföll ekki ólík, en um 13% fólks á vinnumarkaði vinna við verslun, eða um 28 þúsund manns. Atvinnugreinin sem slík stendur fyrir um 9% af landsframleiðslunni á Íslandi. Það er því hafið yfir allan vafa hversu mikilvægt það hlutverk er sem bæði smásöluverslun og heildverslun gegna í samfélaginu.

Þrjár stórar áskoranir

Verslunin stendur nú um stundir frammi fyrir stærri og meiri áskorunum en hún hefur gert marga undangengna áratugi. Umbreytingar sem greinin fæst nú við snúa að stafrænni umbreytingu, sjálfbærni og  nýjum kröfum um menntun og hæfni starfsfólks. Ekki er hægt að líta á þessar áskoranir sem sjálfstæð fyrirbæri og óháðar hverri annarri, því þær tengjast mjög og árangur á hverju þessara sviða ræðst mjög af því að árangur náist einnig á öðrum sviðum. 

Sjálfbærni

Gerðar eru ríkar kröfur til þess að verslunin leggi sitt af mörgum til að draga úr kolefnislosun, enda verður um 40% þeirrar kolefnislosunar sem á sér stað, í aðfangakeðju verslunarinnar. Hér er um að ræða losun sem fram fer í landbúnaði og öðrum frumframleiðslugreinum, í flutningum og hjá ýmis konar milliliðum. Hið merkilega í þessu sambandi er að einungis 5% af losuninni fer fram hjá versluninni sjálfri. Þessi staðreynd leggur þær miklu skyldur á verslunina að vinna náið með öllum þeim sem mynda aðfangakeðju verslunarinnar að draga úr kolefnislosuninni. Parísarsamkomulagið og þær skuldbindingar sem það hefur í för með sér leggja því ríkar skyldur á verslunina að leggja sitt af mörkum, enda hefur greinin sýnt það og mun gera í auknum mæli á næstu árum, að hún mun gera sitt besta til að standa undir þessum skyldum sínum. 

Stafræn umbreyting

Stafræn samskipti og sjálfvirknivæðing hvers konar eru að verða það norm öllu ræður í samskiptum verslunarinnar við viðskiptavini sína. Öll þekkjum við sjálfvirknivæðinguna sem birtist okkur þegar við afgreiðum okkur sjálf í verslunum. Öll höfum við átt viðskipti á netinu, bæði um kaup á vöru eða þjónustu.  Nú fara um 15% af veltu smásöluverslunar í Evrópu fram á netinu og gert er ráð fyrir að þetta hlutfall muni tvöfaldast á allra næstu árum. Gífurleg umbreyting er fyrirsjáanleg á stafræna sviðinu á næstu árum þar sem háþróuð gögn um neytendahegðun og þarfir viðskiptavinarins verða í auknum mæli notuð í öllum samskiptum fyrirtækja og neytenda.

Menntun og hæfni starfsfólks

Allt það sem hér hefur verið rakið leiðir svo af sér að nýjar og áður óþekktar kröfur verða gerðar til menntunar og hæfni þeirra sem vinna í verslun. Engin ágreiningur er um að hefðbundnum verslunarstörfum mun fækka umtalsvert. Það er á hinn bóginn ekkert sem segir að störfum í verslun muni fækka, en eðli starfanna mun breytast verulega með nýjum kröfum um menntun og hæfni þeirra sem vinna í verslun. 

Það er því sannarlega verk að vinna, bæði fyrir þá sem gæta hagsmuna fyrir fyrirtæki í verslun og þjónustu og ekki síður fyrir þá sem eru í forystu fyrir samtök verslunarfólks, til að tryggja aðgengi að öflugri menntun fyrir allan þann stóra hóp fólks sem starfar í verslun. Það er líka ekki neitt lítið sem er í húfi. Samkeppnishæfni fyrirtækja í verslun og þjónustu, í umhverfi sem er í örri þróun, og kröfur og þarfir viðskiptavinanna taka breytingum hraðar en nokkru sinni fyrr. Fyrir samtök launafólks er áskorunin ekki síður mikil, til að tryggja að félagsmenn þeirra hafi ávallt aðgang að bestu menntun sem völd er á hverju sinni, en aðeins með því móti er hægt að styrkja stöðu þessa hóps á vinnumarkaði sem tekur sífelldum breytingum.