Unnið hefur verið að gagngerri endurskoðun á því hvernig alþjóðleg fyrirtæki eru skattlögð síðan árið 2013. Verkefnið er leitt af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og nýtur stuðnings leiðtoga 20 stærstu iðnríkja heims (G20). Þá hafa sífellt fleiri þróunarríki tekið þátt í þessari vinnu eftir því sem á hefur liðið. Sextíu ríki eru beinir þátttakendur í verkefninu, þ.m.t. Ísland.

Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 beindist athyglin m.a. að lágum sköttum alþjóðlegra fyrirtækja. Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa um margra ára skeið nýtt sér glufur og misræmi í kerfi alþjóðlegrar skattlagningar til að lágmarka skattgreiðslur sínar. En ekki hvað, gætu margir sagt og það segir OECD líka. OECD segir að ekki sé hægt að sakast við viðskiptalífið fyrir að nýta sér á löglegan hátt gildandi reglur til að komast hjá skattgreiðslum eða lágmarka skattgreiðslur, heldur sé það alltaf á ábyrgð ríkjanna að gera breytingar á reglunum og innleiða nýjar ef þær eru ekki nógu góðar. OECD segir því að það sé á ábyrgð ríkjanna að regluverkið nái því markmiði að skattleggja hagnað þar sem starfsemin og verðmætasköpunin fer fram. Með umræddu verkefni ætla ríkin sér einmitt að rísa undir þessari ábyrgð og ná þessu markmiði. Vísað hefur verið til BEPS verkefnisins, en BEPS er ensk skammstöfun og stendur fyrir Base Erosion and Profit Shifting.

En í hverju felast þessar glufur og misræmi sem fyrirtækin hafa verið að nýta sér? Fyrirtækjaskattur er lagður á í hverju ríki fyrir sig. Þegar starfsemi er þvert á landamæri er hætta á skörun á skattlagningu ríkja og þar með tvísköttun. Tvísköttunarsamningum er ætlað að koma í veg fyrir slíka tvísköttun. En starfsemi yfir landamæri getur líka leitt af sér að hvorugt ríkið telur sig eiga skattlagningarrétt, oft t.d. vegna mismunandi hugtaksskilgreininga í landsrétti viðkomandi ríkja.Tvísköttunarsamningar fela ekki í sér skattlagningarheimild og því verður ekki af skattlagningu í slíkum tilvikum.

Það eru slíkar glufur og misræmi í regluverkinu sem fyrirtækin nýta sér, bæði á milli heimalöggjafa einstakra ríkja og í samspili þeirra við tvísköttunarsamninga. Hefur þessi tilhneiging alþjóðlegra fyrirtækja verið á ensku kölluð Base Erosion and Profit Shifting (BEPS), sem hægt væri að þýða sem eyðing/rýrnun skattstofna og tilfærslu skattskylds hagnaðar. BEPS verkefni OECD er ætlað að koma í veg fyrir eða takmarka BEPS.

En af hverju er kerfi alþjóðlegs skattaréttar komið í þessa stöðu? Einfalda svarið við því er að ríkin hafi sofnað á verðinum. Kerfi alþjóðlegs skattaréttar varð til á fyrri hluta 20. aldar og tekur að grunni til mið af gömlu efnahagsumhverfi sem einkenndist af staðbundnum efnislegum eignum, en ekki af kvikum óefnislegum eignum og stafrænni tækni efnahagsumhverfisins í dag. Ákveðnar uppfærslur hafa þó átt sér stað í gegnum árin á einstökum sviðum, en engar grundvallarbreytingar í formi heildarendurskoðunar eins og nú er í gangi.

Því er talið að kerfi alþjóðlegs skattaréttar hafi setið eftir og sé vanbúið í glímunni við stór alþjóðleg fyrirtæki sem með fjármagni sínu geta ráðið færa skattasérfræðinga sem spila inn á galla kerfisins og nýta sér glufur þess og misræmi. Af hverju ættum við að hafa áhyggjur af BEPS? Í fyrsta lagi þá tapa ríkin skatttekjum, en gert er ráð fyrir að BEPS rýri árlega skatttekjur ríkja um USD 100-240 milljarða (4-10% af heild). Í öðru lagi af samkeppnisástæðum, því BEPS veitir alþjóðlegum fyrirtækjum forskot á staðbundin heimafyrirtæki. Í þriðja lagi af fjárfestingaástæðum, því fjárfestingar taka mið af hærri hagnaði eftir skatta, enda þótt hagnaður fyrir skatta sé lægri. Í fjórða lagi, af réttlætisástæðum, en það grefur undan vilja fólks og smærri fyrirtækja til að greiða skatta ef stór alþjóðleg fyrirtæki komast hjá þeim.

Eins og áður segir hófst BEPS verkefni OECD 2013. Það náði ákveðnum áfanga í október 2015 þegar kynnt var lokaskýrsla aðgerðaráætlunar BEPS verkefnisins. Aðgerðaráætlunin verður umfjöllunarefni næstu greinar, en þriðja og síðasta greinin mun fjalla um innleiðingu aðgerðaráætlunarinnar.

Höfundur er skattasérfræðingur og meðeigandi hjá Deloitte.

Pistill Símonar birtist í Viðskiptablaðinu 23. mars 2016.