Í síðustu viku fréttist að Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hefði prófað nýjustu afurð hins íslenska CCP.

Leikurinn, EVE: Gunjack, gerist í sýndarveruleika en Facebook hefur undirbúið stórsókn á þann markað að undanförnu. Mark er einn áhrifamesti maður veraldarinnar og því þarf ekki að fjölyrða um gildi þessarar reynslusögu fyrir CCP.

Íslendingar eru framarlega þegar kemur að sýndarveruleika. Nýlegar fjárfestingar fyrir hátt á fimmta milljarð króna í greininni hér heima sýna vel að fjárfestar hafa trú á henni. Þar munar mestu um CCP en einnig má nefna Sólfar Studios, Mure VR og Aldin Dynamics.

Í ágætri greiningu hjá netmiðlinum Norð­ urskautinu er því velt upp hvort Ísland geti orð­ ið „Kísildalur sýndarveruleikans“. Hvort sem af því verður eða ekki þá er ljóst að með stuðningi getur byggst upp klasi fyrirtækja sem horft verður til. Sýndarveruleiki mun ryðja sér til rúms í byrjun næsta árs en það er ekki eina byltingin í farvatninu.

Fáir hafa ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund hvaða breytingar við munum upplifa en reikna má með að m.a. samgöngur, matvælaframleiðsla, orkumál og miðlun upplýsinga muni gjörbreytast. Gervigreind, internet hlutanna (IoT), sjálfvirknivæðing og önnur nýsköpun mun þar hafa mest áhrif.

Í nýrri könnun KPMG á heimsvísu á meðal forstjóra um 1.200 fyrirtækja kemur fram að fjórir af hverjum tíu hafa áhyggjur af því hvernig viðskiptamódel þeirra eru byggð upp. Viðbrögð þessara þroskuðu fyrirtækja eru mismunandi og sumir stjórnendur átta sig hreinlega ekki á því hvernig þeir eiga að bregðast við.

Ein leið er að kaupa upp sprotafyrirtæki en hún getur bæði verið tímafrek og kostnaðarsöm. Nýsköpun verður í auknum mæli að eiga sér stað innanhúss. Samdóma álit flestra er að fyrirtæki munu ekki lifa af, aðlagi þau sig ekki að breyttum aðstæðum. En mitt í þessari miklu og stöðugu byltingu liggja tækifæri. Þau verðum við að grípa.