Í frægu kvæði Berthold Brechts, sem ort var eftir uppreisnina í Austur-Þýskalandi 17. júní árið 1953, veltir ljóðmælandi fyrir sér hvort að ekki sé tímabært að stjórnvöld leysi upp þjóðina og kjósi sér nýja og hlýðnari þegna.

Ljóðið endurómar þá ógeðfelldu hugsun að tilvist borgaranna séu í þágu hagsmuna ríkisins en ekki öfugt.

Ljóðið kemur upp í hugann þegar lesið er um deilur eigenda húsnæðis í Hlíðarendahverfis við Reykjavíkurborg. Hverfið hefur risið hratt á undanförnum árum. Við hönnun þess gerði borgin kröfu um að ákveðið magn af verslunarrými yrði í hverfinu. Að sama skapi var ekki gert ráð fyrir að viðskiptavinir þessara verslana kæmu akandi í hverfið og bílastæði eru af skornum skammti. Að sama skapi er hönnun hverfisins með þeim hætti að vöruflutningar til og frá verslunarhúsnæði eru þungar í vöfum.

Að þessum sökum stendur þetta verslunarhúsnæði autt. Í frétt í Morg­un­blaðinu á dögunum var vitnað í ný­lega bók­un íbúaráðs Miðborg­ar og Hlíða um að þúsund­ir fer­metra af at­vinnu­hús­næði standi enn auðar á jarðhæðum hverf­is­ins og virðist lítið bóla á breyt­ing­um í þeim efn­um. Þetta hef­ur reynd­ar verið vanda­mál í fleiri nýj­um hverf­um borg­ar­inn­ar.  Einnig hefur komið fram í fréttum að borgaryfirvöld hafni óskum eigenda verslunarhúsnæðis í hverfinu um að breyta því í íbúðarhúsnæði. Fram hefur komið að niðurstaða skipu­lags­full­trúa er sú að slík breyt­ing sam­rýmd­ist ekki mark­miðum aðal­skipu­lags um að skapa lif­andi borg­ar­um­hverfi í götu­rými borg­argatna.

Engin merki eru að sjá um þetta lifandi borgarumhverfi í hverfinu og engar líkur eru á því að niðurstöður skipulagsfulltrúa breyti nokkru þar um. Þessir þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði munu standa áfram auðir meðan að skipulag hverfisins er óbreytt. Óþarft er að fjölyrða um hversu mikil sóun í þessu felst.

Borgarskipulagið þarf að taka mið af þörfum íbúana hverju sinn. Þrátt fyrir þau augljósu sannindi er oft eins og borgarfulltrúar og embættismenn sem véla um hag borgarbúa telja þessu öfugt farið: Það er að segja að borgarbúar eigi aðlaga sig af skipulaginu og áhuga borgarfulltrúa um hvernig því eigi að hátta. Mörgum er í fersku minni hetjuleg barátta íbúa í Vogabyggð fyrir að komast undir kvaðir borgarinnar um hvernig íbúðaeigendur í hverfinu skipuleggja garða sinna. En sem kunnugt er þá krefst borgin að gras skuli vera að minnsta kosti á helming lóðar við íbúðir á jarðhæð og þar skuli standa að minnsta kosti einn berjarunni. Það er hreint ótrúlegt að krafa sem gæti helst tengst frægum brandara úr kvikmynd Monty Python-hópsins um leitina að hinu heilaga gral skuli vera opinber stefna borgarinnar.

Þegar gengið er um gróin hverfi borgarinnar sést hvarvetna atvinnuhúsnæði sem breytt hefur verið íbúðarhúsnæði gegnum tímanna rás. Atvinnustarfsemin þreifst meðal annars í skjóli íþyngjandi lagaákvæða um einokunarstarfsemi og vegna þess að íbúarnir voru hreinlega meira heima við en nú er. Frjálsræði og greiðari samgöngur breytti þessu. Flestir sækja stærstan hluta af sinni daglegu þjónustu nálægt vinnustað fremur en heimili.

Þar með er ekki sagt að atvinnurekstur og þjónusta geti ekki þrifist í íbúðarbyggðum. Fjölmörg dæmi eru um slíkt og hefur sú þróun verið að styrkjast á undanförnum árum. Mikill fjöldi ferðamanna í miðbænum hefur þannig haldist í hendur við fjölgun ágætra veitingastaða og ölstofa í úthverfunum sem gera fyrst og fremst út á viðskipti við þá sem þar búa og vilja forðast miðborgina. Í ýmsum hverfum borgarinnar eru litlir þjónustukjarnar á borð við þann sem er að finna í Lauganesinu sjálfsprottnir. Þeir risu án þess að embættismenn kröfðust eins né neins og hvað þá að runnar stæðu fyrir framan verslanirnar. En aðalforsenda þess að þessir staðir þrífist er að viðskiptavinir eigi þangað greiðan aðgang. Pulsugerðarmaðurinn í Laugarnesinu reiðir sig á að fleiri en íbúar hverfisins borði sperðla reglulega svo dæmi sé tekið og það sama á við um aðra verslunar- og veitingahúsaeigendur í úthverfunum.

Þessi staðreynd breytist ekki þó svo að ráðamenn borgarinnar haldi áfram að berja hausinn við steininn. Ásetningur þeirri mótar ekki þarfir borgarbúa og mun aldrei gera.