*

mánudagur, 6. apríl 2020
Óðinn
25. október 2016 11:53

Vextir og bankaskattar

Óðinn telur margt mæla með því að sértækir skattar og gjöld á fjármálafyrirtæki verði afnumin hið fyrsta.

vb.is

Það er víst eitthvað sem allir eru sammála um, kannski fyrir utan stjórnendur Seðlabankans, að vaxtastig hér á landi sé helst til hátt. Stjórnmálamenn í öllum flokkum harma allir vaxtastigið, þótt eitthvað sé mismunandi hverjum þeir vilja kenna um. Seðlabankinn er vissulega vinsælt skotmark, enda leggur hann línurnar með meginvaxta­ ákvörðunum sínum, en aðrir vilja meina að botnlausri græðgi í við­ skiptabönkunum sé um að kenna.

                                                                     * * *

Það sem hefur hins vegar viljað gleymast í allri þessari umræðu er að vextir eru ekki annað en verðlagning á fjármagni. Verð á hvaða vöru sem er tekur mið af framboði og eftirspurn og á það einnig við um vexti. En fleiri þættir hafa óhjákvæmilega áhrif á verðlagningu og er kostnaður við að framleiða vöruna, eða veita þjónustuna, þar veigamikill. Það á ekkert annað við um vexti á útlánum en aðra vöru. Bankar og fjármálastofnanir stefna, eins og önnur fyrirtæki, að því að skila eigendum sínum arði og til þess þarf reksturinn að vera réttu megin við núllið. Verð á viðkomandi vöru – vextir á útlánum í þessu tilviki – verður að taka mið af þessu.

                                                                     * * *

Skattar eru fimmtungur af kostnaði

Í afar áhugaverðri greiningu á íslensku viðskiptabönkunum, sem gefin var út af Capacent á dögunum, kemur fram að sértækir skattar á fjármálafyrirtæki eru um 20% af kostnaði bankanna. Barnalegt er annað en að ætla að þetta hafi áhrif á vaxtastigið.

Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, skrifaði grein í vikunni þar sem hún fjallar um þessa skattlagningu. Sérstök skattlagning á fjármálafyrirtæki hér á landi er mun meiri en þekkist í nágrannalöndunum. Í heild námu skattar og gjöld sem lögð eru á fjármálafyrirtæki röskum 38 milljörðum króna á árinu 2015 eða 6,3% af heildartekjum ríkissjóðs. Vinnuafl greinarinnar er 2,4% af heildarfjölda á vinnumarkaði. Sérstakir skattar hér á landi eru um 10 sinnum hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en í þeim fáu löndum sem á annað borð hafa tekið upp slíka skatta.

                                                                     * * *

Þetta sést þegar kostnaður bankanna sem hlutfall af meðalstöðu eigna er skoðaður. Árið 2010 var kostnaður á meðalstöðu eigna 2,1% en var 2,7% á fyrstu 6 mánuði ársins 2016. Eins og bent er á í greiningu Capacent stafar aukinn kostnaður bankanna ekki af samdrætti efnahagsreikninga. Eignir bankanna hafa aukist úr um 2.556 milljörðum króna að meðaltali árið 2010 í 3.175 milljarða að meðaltali á fyrri hluta ársins 2016. Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki hafa hækkað úr 1,2 milljörðum króna árið 2010 í 15,2 milljarða árið 2015. Þótt 14 milljarðar hljómi ekki svo mikið jafngildir kostnaðurinn um 0,45% á meðalstöðu eigna.

                                                                     * * *

Sértækir skattar eða gjöld á fjármálafyrirtæki eru fjársýsluskattur af launum, sérstakur fjársýsluskattur vegna hagnaðar, sérstakur skattur vegna vaxta niðurgreiðslu, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki og gjöld vegna Ráðgjafastofu heimilanna. Í greiningu Capacent er bent á að öllum þessum gjöldum var komið á tímabundið, en Óðinn telur skýrsluhöfunda fullbjartsýna þegar þeir segja gjöldin „líklega verða aflögð eða lækkuð á næstu árum“. Fáir hlutir eru eins varanlegir og tímabundnir skattar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                     * * *

Sjá má að síðan 2013 hafa þessi gjöld numið á bilinu 0,6 til 0,7% af heildarútlánum bankanna. Capacent bendir á að þetta þýðir að ef banki ætlar að halda óbreyttum vaxtatekjum þarf hann að hækka vexti sem jafngildir greiddum gjöldum. „Samkvæmt hagfræð­ inni veltir bankastofnun öllum þessum kostnaði út í verðlagið ef einokun væri á markaði en tæki á sig allan kostnaðinn ef fullkominn samkeppni væri á bankamarkaði. Heimurinn er víst ekki fullkominn og reikna má með að vextir séu að einhverju leyti hærri vegna þessara gjalda. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi umræðu um vanda ungs fólks við að koma sér upp húsnæði. Hár vaxtakostnaður bitnar fyrst og fremst á ungu fólki og barnafjölskyldum eða þeim þjóðfélagshópum sem skulda mest,“ segir í skýrslunni.

                                                                     * * *

Eins og Jóna Björg bendir á þá grefur svo íþyngjandi skattlagning verulega undan samkeppnisfærni fjármálafyrirtækja og eykur um leið kostnað fyrirtækja og heimila þegar þau nýta sér fjármálaþjónustu.

                                                                     * * *

Einföld og auðveld leið til að lækka vexti

SFF sættu nokkuð harðri gagnrýni þegar þau lögðu það til að lífeyrissjóðum yrði ekki lengur heimilað að lána beint til sjóð­ félaga sinna, en sjóðirnir hafa getað boðið upp á töluvert hagstæð­ ari íbúðalán en bankarnir. Þessari tillögu ber að sjálfsögðu að hafna, en það breytir því ekki að samkeppnisstaða bankanna er skökk vegna þessarar skattheimtu.

                                                                     * * *

Miðað við umræðuna sem verið hefur í aðdraganda kosninga má hins vegar ætla að lítill hljómgrunnur sé fyrir hugmyndir um skattalækkanir á viðskiptabankanna. Þar vinnur gegn bönkunum að bókfærður hagnaður þeirra hefur vissulega verið mikill undanfarin ár. Þar er hins vegar horft framhjá þeirri staðreynd að afar stór hluti þessa hagnaðar er til kominn vegna matsbreytinga á útlánum. Grunnrekstur bankanna hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir.

                                                                     * * *

Reyndar segir í greiningu Capacent að skilvirkni og hagkvæmni í rekstri bankanna hafi aukist mikið frá því sem var fyrir einkavæð­ ingu þeirra á árunum 1997 til 2003. Þjónustutekjur voru á bilinu 24 til 28% af heildartekjum árið 1997. Á fyrri hluta árs 2016 námu þjónustutekjur á bilinu 15 til 24% af heildartekjum viðskiptabankanna. Eftir bankahrun hefur kostnaður á meðalstöðu eigna verið að meðaltali 2,4%. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu eigna hefur verið 3,0% að meðaltali. Grunnrekstur bankakerfisins er því arð­ samari en fyrir einkavæðingu. Í það minnsta er arðsemi eigna meiri. Hins vegar vantar nokkuð upp á þjónustutekjur.

    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                     * * *

Það er því margt sem mælir með því að þessir skattar og gjöld verði afnumin hið fyrsta. Mikið hefur verið rætt og ritað um háan vaxtakostnað og umræðan um upptöku nýs gjaldmiðils verið há­ vær í því sambandi. Eins og bent er á í skýrslu Capacent er auðveldasta og fljótlegasta leiðin til að ná fram lægra vaxtastigi afnám þessara gjalda. Ef litið er til kostnaðar bankanna af gjöldunum mætti ætla að lækkun útlánsvaxta upp á allt að hálf prósent ætti að vera vel framkvæmalegur, sérstaklega þegar litið er til þess að bankakerfið er að meirihluta í eigu ríkisins.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 13. október 2016. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.