*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Óðinn
13. nóvember 2019 07:01

Vextir og skuldir, ferðamenn og lærdómar

„Þau eru nokkur skólabókardæmin frá hruni um hvernig ríkisvaldið átti ekki að bregðast við vanda einkafyrirtækja og veita þeim fjárhagslegan stuðning eða skjól.“

Gígja Einars

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25% í gær og eru þeir nú 3%. Stýrivextir hafa ekki verið lægri frá árinu 2001 og hafa þeir lægst verið 3,625% í ársbyrjun 2011.

                                           ***

Áhrif stýrivaxtalækkana Seðlabankans verða án efa einhver á þjóðarhaginn. Útlit er þó fyrir að áhrifin verði minni en margur vonar. Með lækkandi vöxtum hækka auðvitað ráðstöfunartekjur einstaklinga sem eru með breytilega vexti á húsnæðislánunum. Og þeir munu eyða einhverjum hluta þess í neyslu og þar með mun einkaneyslan aukast. Húrra fyrir því.

                                           ***

Það er óvíst að sömu áhrifa gæti hjá fyrirtækjunum. Þau hafa tvær leiðir til að fjármagna sig, með nýju hlutafé eða lánsfé. Hlutabréfamarkaðurinn er veikur, einstaklingar hafa lítið sem ekkert komið inn á hann frá hruni, auk þess sem lífeyrissjóðirnir taka til sín stærri og stærri hluta sparnaðar fólks. Það er misráðið. Lífeyrissjóðirnir skipta að sönnu miklu máli, en eins og Óðinn hefur áður vakið máls á, þá er afar mikilvægt að sem flestir skilji eðli fyrirtækjarekstursins og eigi eitthvað undir því að hann gangi vel.

                                           ***

Því er hlutafjárleiðin ekki líkleg til að skapa hagvöxt. En lánsfjárleiðin er það ekki heldur. Seðlabankinn virðist loks hafa áttað sig á því. Þeir eru sem sagt ekki bara að naga blýanta í Svörtuloftum. Hálft húrra fyrir því.

                                           ***

Full nýting framleiðsluþátta?

Í Peningamálum, málgagni Seðlabankans, sem út kom í gær um leið og vaxtalækkunin var tilkynnt, segir að vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og áhrif lækkunarinnar eigi enn eftir að koma fram að fullu. Lækkun vaxta hafi stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta.

                                           ***

Óðinn er hreint ekki sannfærður um þetta. Aftar í ritinu viðkennir bankinn enda að erfitt sé fyrir íslensk fyrirtæki að fá lán. Þar segir:

Fyrirtæki hafa eins og heimilin almennt notið bættra vaxtakjara undanfarið. Meginþorri nýrra útlána til fyrirtækja í íslenskum krónum eru óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum en meðalvextir þeirra hafa lækkað um 0,8 prósentur frá því í maí (mynd III-16). Frekari sundurgreining eftir fjárhæðum og tímalengdum lána sýnir álíka þróun. Á móti vegur hins vegar að svo virðist sem aðgengi fyrirtækja að lánsfé sé þrengra en það var. Líklega má að einhverju leyti rekja það til breyttra aðstæðna í þjóðarbúinu en það gæti einnig endurspeglað erfiðari lausafjárstöðu sumra fjármálastofnana.

Ástandið er mun verra en bankinn lætur liggja að. Bankarnir hafa nánast verið lokaðir undanfarna mánuði. Nokkrar ástæður eru fyrir því, eins og Óðinn fjallaði um ekki alls fyrir löngu. Þar vega ákvarðanir Seðlabankans og Fjármálaeftirlits þyngst ásamt áhættufælni bankanna á sumum sviðum.

                                           ***

Í ritinu kemur fram að enn hafi hægt á vexti útlána viðskiptabankanna til fyrirtækja, en skuldir einkafyrirtækja eru sögulega mjög lágar, eins og sjá má á línuritinu hér á síðunni.

                                           ***

Nýtt flugfélag
Í fyrradag var tilkynnt um nýtt flugfélag, Play. Að sögn forsvarsmanna félagsins verða sex þotur komnar í rekstur fyrir næsta sumar og tíu á næstu þremur árum. Nýir stjórnendur tala nokkuð digurbarkalega um að þeir viti hvað þeir eru að gera og að þeir hafi lært af mistökum Wow Air. Það er nú gott. En þá skulum við vona að olíuverðið rjúki ekki upp og eyðileggi fyrirætlanir Play. Vegir olíunnar eru órannsakanlegir.

                                           ***

Sumir töluðu um að rétt væri að ríkið kæmi til skjalanna hjá Wow Air þegar verst gekk. Þær hugmyndir voru auðvitað ákaflega vanhugsaðar, hafi þær þá verið hugsaðar yfir höfuð. Sé eftirspurn eftir flugsætum til og frá Íslandi á verði þar sem veitir ábatavon, munu flugfélög koma hingað. Forsvarsmenn Play telja svo vera.

                                           ***

Fækkun ferðamanna
Erlendum ferðamönnum til Íslands mun fækka í ár. Líklega um 20% milli ára. Breytt samsetning farþega í leiðakerfi Icelandair hefur skipt sköpum um að ferðamönnum hefur ekki fækkað meira. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 30% fleiri ferðamenn til Íslands en á síðasta ári, á meðan heildarfjöldi farþega félagsins hefur aukist um 11%. Ef Boeing Max vandræði Icelandair hefðu ekki komið til má líklegt telja að félagið hefði sótt harðar fram og flutt enn fleiri farþega til landsins. Fækkun ferðamanna er því ekki aðeins falli Wow air um að kenna.

                                           ***

Þau eru nokkur skólabókardæmin frá hruni um hvernig ríkisvaldið átti ekki að bregðast við vanda einkafyrirtækja og veita þeim fjárhagslegan stuðning eða skjól. Gjaldþrot Wow Air er eitt þeirra. Fall Wow Air kenndi okkur líka að ríkið á ekki að vasast í starfssemi sem einkaaðilar geta sinnt jafnvel og sennilega betur, eins og Kastrup-flugvöllur við Kaupmannahöfn er gott dæmi um. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er engu frábrugðin Kastrup að því leyti. Gjaldþrot Wow sýndi vel hversu áhættusamur rekstur Isavia er. Sala flugstöðvarinnar eða útboð á rekstri hennar myndi stórminnka áhættu ríkisins af ferðaþjónustunni, auk þess sem afraksturinn mætti nota í innviðauppbyggingu eða uppgreiðslu skulda.

Stærsta og mikilvægasta skólabókardæmið — ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur fjármálaheiminn allan —  er vitanlega að íslenska ríkið gerði ekki fyrirfram misheppnaða tilraun til að bjarga íslensku bönkunum. Vissulega gekk Seðlabankinn eins langt og hægt var, þar til ljóst var að útilokað var að bjarga bönkunum. Seðlabankinn tapaði aðallega á skuldabréfum að veði, skuldabréfum bankanna sem voru sett aftar í kröfuröðina með Neyðarlögunum á kostnað innstæðna í bönkunum. Það voru heildarhagsmunir ríkissjóðs, greiðslumiðlunarkerfisins og alls fjármálakerfisins að gera það með þeim hætti. Þar var þjóðaröryggi í húfi.

                                           ***

Svo mætti fleiri nefna. Icesave kenndi okkur þannig að skattgreiðendur eigi ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja. Vaðlaheiðagöng kenndu okkur að gríska leiðin í fjármögnun opinberra fyrirtækja kortér í kosningar er ömurleg leið.

                                           ***

Winston Churchill sagði eitt sinn að árangur fælist í að gera hver mistökin á fætur öðrum af miklum eldmóði. Þessi ágætu orð virðast kommisarar Íslands hafa misskilið. Churchill átti ekki við að menn gerðu sömu mistökin aftur og aftur. Hvað þá öll á annarra kostnað, skattgreiðenda.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.