VH-hlutfall OMXI8 ekki lægra síðan árið 2012 Hagnaður þeirra félaga sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands (OMXI8) dróst saman um 32% í krónum á fyrsta fjórðungi miðað við árið áður. VH-hlutfall vísitölunnar er tæplega 13 og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2012. CAPE hélst áfram óbreytt í maí.

Af þeim félögum sem mynda OMXI8 lækkaði hagnaður Vátryggingafélags Íslands mest í krónum á fyrsta fjórðungi eða um 80%. Þar sem félagið vegur lítið í vísitölunni má rekja lækkun undirliggjandi félaga að miklu leyti til HB Granda. Samkvæmt KODIAK Excel lækkaði hagnaður félagsins um 61% milli ára vegna fimmtungs minni sölu og minnkandi framlegðar þar sem kostnaður seldra vara hækkaði um 9%. Lesandi þekkir að grunnáhrifa gætir í samanburðinum vegna mikils loðnuafla á fyrsta fjórðungi ársins 2015.

Afkomubati Icelandair Group vann á móti lækkun hagnaðar undirliggjandi félaga en án hans hefði hún orðið -42% í stað -32%. Þrátt fyrir fjórðungshækkun launakostnaðar milli ára skilaði félagið jákvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Fjöldi farþega jókst um 21% á fyrsta fjórðungi samanborið við 19% árið áður og seldar gistinætur jukust um 7%. Aftur á móti lækkaði félagið EBITDA spá sína fyrir líðandi ár að miðgildi um 3%.

Við lokun viðskipta síðastliðinn þriðjudag var VH-hlutfall OMXI8 tæplega 13 en svo lágt hefur það ekki verið síðan í lok árs 2012. Líkt og myndin sýnir hefur hlutfallið lækkað nánast samfellt frá því að vera 19 í mars í fyrra. Ástæðan er að aukning tólf mánaða sögulegs hagnaðar er um 60 prósentustigum hærri en aukning virðis vísitölunnar. Hlutfallið er síað um eitt staðalfrávik af fagurfræðilegri ástæðu.

Á meðan VH-hlutfall annarra undirliggjandi félaga hefur lækkað minna eða staðið í stað frá því í mars í fyrra fór hlutfallið fyrir Marel úr 61 í 22 síðastliðinn þriðjudag og Icelandair Group úr 25 í 11. Samkvæmt KODIAK Excel hefur verð þessara tveggja félaga á móti hagnaði ekki verið lægra í þrjú ár.

Dregið hefur úr hækkun sveiflujafnaðs VH-hlutfalls (e. cyclically adjusted price to earnings ratio, CAPE) og hefur það staðið nærri óbreytt í 9 frá september síðastliðnum. Hæst var hlutfallið 56 í febrúar 2006. Fjallað var um það hér í apríl síðastliðnum að hlutfallið á við ákveðinn fortíðarvanda að stríða þar sem nefnari hlutfallsins inniheldur gríðarlegan hagnað áranna 2006 til 2007 og svo tap áranna 2008 til 2009. Fyrir vikið eru meiri líkur á hækkun þess næstu tvö ár.

Gögn í grein þessari má nálgast á síðunni hi.is/~boo4

VH-hlutfall
VH-hlutfall