*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Týr
8. janúar 2018 10:04

Við áramót

Týr fjallar um tímamót í pólitíkinni og áramótadagskrá RÚV.

Haraldur Guðjónsson

Áramót fela í sér tímamót fyrir marga. Týr sá þannig að Jóna Sólveig Elínardóttir er að láta af varaformannsembætti Viðreisnar, sem hefur verið svo þrúgandi að hún nennti ekki einu sinni að klára bið­ launatímabilið áður en hún leitaði sér lausnar. Það mætti vera mörgum kollegum hennar fordæmi.

                                            ***

Raunar virðist kjörtímabilið fara þannig af stað að það eigi margir eftir að heltast úr lestinni. Stjórnarandstöðumegin að minnsta kosti, það virðist ekki vera mikið gaman þar. Skýrasta dæmið um það er líkast til Logi Einarsson, hinn knái formaður Samfylkingarinnar, sem nú þegar er helst farinn að helga sig þrasi á Facebook, reiður og þreyttur á náttfötunum.

                                            ***

Áramótaskaupið var upp og ofan eins og vant er. Sumt var mjög fyndið en annað síður, sérstaklega umvöndunarsketsar handritshöfunda Samfylkingarinnar. Þeim lætur betur að hæðast að einstökum stjórnmálamönnum, jafnvel þó beiskjan sé mikil eins og þau Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson fengu að reyna. Á meðan eru sumir stikkfrí. Þannig var til dæmis minnst á hið ótrúlega klóakdælumál Dags B. Eggertssonar borgarstjóra án þess að minnst væri á þátt hans í hneykslinu, en þess í stað lítið gert úr fréttamanninum sem svipti hulunni af málinu og látið að því liggja að hann væri nú bara einhver puntudúkka. #KÞBAVD

                                            ***

Það var líka athyglisvert að horfa á auglýsingarnar í kringum Skaupið, þar sem hinir og þessir aðilar senda frá sér kveðjur til landsmanna og fægðu þá ímynd, sem þeir helst vilja halda á lofti. Týr staldraði einkum við auglýsingu Alþýðusambands Íslands, þar sem öll áhersla var lögð á baráttuanda sambandsins undanfarið 101 ár. Þar á meðal hreykti ASÍ sér af Gúttóslagnum 1932, þar sem allt lögreglulið Reykjavíkurborgar var barið til óbóta og sumir til örkumla, og síðan óeirðirnar á Austurvelli við inngönguna í Atlantshafsbandalagsins 1949, alvarlegustu atlögu að þingræði lýðveldisins. Sem ASÍ átti vitaskuld enga aðild að, enda áttu evrópskir sósíaldemókratar mikið frumkvæði að stofnun NATO og áttu mjög í höggi við kommúnista. Skyldi þessi endurskoðun sögunnar boða eitthvað um verkalýðsbaráttuna fram undan?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.