*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Heiðar Guðjónsson
29. desember 2021 13:27

Við eigum ekki að villast af leið

Hafa stjórnendur fyrirtækja umboð hluthafa eða stoð í lögum til að hampa einu máli umfram annað og krýna sjálfa sig í leiðinni sem riddara réttlætis?

Í bókinni Woke Inc. er því lýst hvernig styttan „Fearless girl“ var markaðsbragð hjá State Street, fjármálafyrirtækinu stóra, til að beina umræðu frá kæru sem það fékk á sig fyrir að taka ekki á kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Hagfræði hefur frá upphafi talað um gildi verkaskiptingar en hún er grunnur verðmætasköpunar. Með því að fólk skipti með sér verkum og auki sérhæfingu, þá eykst ávinningur bæði einstaklinganna og heildarinnar. Hagfræðin á uppruna sinn í lögfræði og gildi réttarríkisins. Í þessu ljósi er áhugavert að fylgjast með umræðum um samfélagsábyrgð fyrirtækja og fjárfesta í dag.

Í sumar kom út ágæt bók eftir hinn 36 ára gamla Vivek Ramaswamy, sem nefnist Woke Inc. Höfundurinn var einstaklega hæfileikaríkur námsmaður, hefur stofnað fjölda líftæknifyrirtækja og efnast gríðarlega í framhaldinu. Í bókinni lýsir hann eigin reynslu af því hvernig andstaða hans við að taka afstöðu í pólitísku dægurmáli kostaði hann forstjórastólinn í eigin fyrirtæki. Bókin er virkilega upplýsandi um þá þróun hvernig stjórnmál eru að lita viðskiptalífið í Bandaríkjunum á þann hátt að erfitt er að átta sig á hvert hlutverk fyrirtækja er. Slík samsuða viðskipta og stjórnmála eru ógæfulegasta samband sem sést í markaðsskipulagi. Hlutverk fyrirtækja er að skapa verðmæti. Hlutverk stjórnmála er að setja lög í landinu og reglur um rekstur fyrirtækja. Að blanda saman hlutverkunum býr til eitthvað sem skilar minna en engu.

En pólitíkin er í dag allt um lykjandi. Umræðan um umhverfismál er mikil einsog umræða um stéttaskiptingu og kynþáttamisrétti. Í dag er mikil pressa á fyrirtæki að hugsa út fyrir hefðbundið markmið sitt, að skapa verðmæti. Í dag eiga fyrirtæki að hafa sjálfbærnistefnu, samfélagsstefnu, umhverfisstefnu og svo mætti lengi telja. Það sem einhverjir virðast ekki átta sig á er að allar nýjar kvaðir takmarka burði fyrirtækja til verðmætasköpunar.

Þessir tískustraumar koma núna fram í yfirlýsingu íslenskra lífeyrissjóða í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í Glasgow. Þar undirrituðu 13 íslenskir lífeyrissjóðir „Climate Investment Coalition“, sem er ætlað að hjálpa til við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkandi útblástur koltvísýrings. Allt er þetta í takt í við ríkjandi tísku en algerlega í trássi við lagaumgjörð. Lög um lífeyrissjóði eru alveg skýr, sjóðunum er ætlað að fjárfesta með tilliti til ávöxtunar og áhættu, einskis annars. Ég tel einsýnt að ef lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta út frá öðrum forsendum þurfi fyrst að fá samþykki eigenda sjóðanna, sjóðsfélaga, á aðalfundi. En jafnvel áður en það gerist þyrfti auðvitað að breyta lögum til þess að löglegt væri að framkvæma nýja stefnu sem snýr ekki bara um að velja arðbærasta fjárfestingakostinn, með tilliti til áhættu.

Umboð skiptir öllu máli í réttarríki. Hvaðan hefur aðili umboð sitt, er það fengið með réttum hætti? Þegar stjórn breytir stefnu, eða markar nýja, er augljóst að hún þarf að hafa umboð hluthafa eða sjóðsfélaga. Annars fer stjórnin út fyrir umboð sitt. Eins er það ljóst að alltaf eru mismunandi tískusveiflur ríkjandi og það kann ekki góðri lukku að stýra að breyta um stefnu í hvert sinn sem eitthvað nýtt kemur fram. Stefnufesta er mikilvægasti þátturinn í rekstri fyrirtækja og fjárfestingum. Að breyta hlutverki fyrirtækisins aftur og aftur er vonlaust, en það þarf auðvitað að fylgja þeim tækifærum sem eru á markaði hverju sinni út frá skýrri langtíma stefnu. Það getur verið aðgreinandi þáttur, svo sem í tilfelli Body Shop þegar fyrirtækið var stofnað fyrir 45 árum síðan, að gera sérstaklega út á umhverfismál. En það sama á fráleitt við um öll fyrirtæki.

Við trúum því að allir vilji vinna samfélaginu gagn. Sumir stjórnendur fyrirtækja brenna fyrir ákveðnum málefnum og er það skiljanlegt. En hafa þeir umboð hluthafa eða stoð í lögum um hlutafélög til að hampa einu máli umfram annað og krýna sjálfa sig í leiðinni sem riddara réttlætis? Og segjum sem svo að þeir fengju slíkt umboð, hvernig færi þá með aðskilnað stjórnmála og viðskipta? Þá gætu stærstu og ríkustu fyrirtækin farið að marka stefnu í viðkvæmustu málum samfélagsins. Hvar í lögum er heimild fyrir því og væri virkilega sátt um slíkt? Og á alþjóðavísu gætu þá ekki fyrirtæki eins og Google, Facebook og Apple ákveðið hvað væri á döfinni og hvað ekki? Þá yrði lítið eftir af fullveldisrétti þjóða og lýðræði einstakra ríkja.

Það er stjórnmálanna, þingkjörinna fulltrúa sem hafa umboð frá þjóðinni, að marka stefnu í umhverfismálum og samfélaginu öllu. Það er ekki fyrirtækja, fjárfesta eða lífeyrissjóða að gera það. Ef þessum hlutverkum er blandað saman villumst við algerlega af leið. Við getum ekki blandað pólitík inn í alla hluti, pólitík á heima á Alþingi og í sveitarstjórnum.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.