*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Jóhannes Þór Skúlason
20. júní 2020 13:35

Við erum enn úti í miðri á

Þrátt fyrir góða þátttöku Íslendinga í ferðasumrinu mun það því miður ekki duga mörgum fyrirtækjum sem lífsforði yfir veturinn.

Ferðamenn á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í ferðaþjónustu hér á landi á síðustu misserum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Á svo til einum degi var slökkt á ferðaþjónustunni sem atvinnugrein þegar ferðamenn hættu að streyma til landsins. Eftir að Bandaríkjaforseti tilkynnti um lokun landamæra vestanhafs gagnvart flugi frá Evrópu um miðjan marsmánuð var líkt og snjóbolta hefði verið ýtt af stað og lokuðu landamæri Íslands og margra annarra landa í kjölfarið. Afbókanir fóru að streyma inn og stöndug fyrirtæki í ferðaþjónustu voru allt í einu komin í þá stöðu að hreinlega standa frammi fyrir því að halda fyrirtækjunum sínum á lífi. Núna þremur mánuðum síðar sjáum við loksins til sólar þegar landamæri Íslands opna - þó með takmörkunum.

Jafnvel fyrir heimsfaraldur kórónuveiru hafði staða ferðaþjónustunnar á Íslandi þrengst. Við eigum í gríðarlega harðri samkeppni við aðra áfangastaði um hylli ferðamanna ásamt því að rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi er mjög þungt, en þar hafa launahækkanir og sterkt gengi vegið þyngst. Þá má ekki gleyma falli WOW air fyrir rúmu ári ásamt vanda Icelandair í tengslum við MAX flugfélarnar.

Skyndihjálp stjórnvalda

Fljótlega var ljóst að alvarleg staða var komin upp í ferðaþjónustunni. Atvinnulífið kallaði eftir aðgerðum og brugðust stjórnvöld við stöðunni með aðgerðarpökkum. Í pökkunum leyndust úrræði eins og hlutabótaleið, stuðningur við fyrirtæki til að segja upp starfsfólki, brúarlán ásamt því að fyrirtækjum var gert kleift að komast í greiðsluskjól á meðan unnið væri úr stöðunni. Allt eru þetta aðgerðir sem koma til móts við stærstu efnahagskreppu í heila öld og hafa að markmiði að létta undir og hjálpa fyrirtækjum í fordæmalausri stöðu að komast í gegnum storminn. Um leið og hrósa ber stjórnvöldum fyrir aðgerðirnar verður að benda á að afgreiðsla og innleiðing mála hefur tekið allt of langan tíma. Komið er að þolmörkum hjá fyrirtækjum.

Íslenska ferðasumarið 2020

Þegar leið á faraldurinn hér á landi var ljóst að sumarið framundan væri að mestu fyrir bí þegar kemur að ferðaþjónustu. Allavega af þeirri stærðargráðu sem við þekkjum með okkar góðu erlendu gestum hvaðanæva úr heiminum. Núna treysta hundruð ferðaþjónustufyrirtækja um land allt á að Íslendingar sæki landið sitt heim af krafti í sumar. Ef vel tekst til mun það geta skipt sköpum fyrir mörg fyrirtæki, en ekkert er fast í hendi hvað það varðar.

Eins einkennilega og það kann að hljóma, þá hafa Íslendingar í flestum tilfellum verið frekar fáséðir gestir hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á gistingu og afþreyingu hér á landi. Sé tekið mið af gistináttatölum Hagstofu Íslands þá ferðast Íslendingar hlutfallslega miklu minna um eigið land heldur en nágrannaþjóðir okkar. Þannig voru gistinætur Íslendinga árið 2017 aðeins um 13% allra gistinátta á gististöðum og tjaldstæðum á landinu - en samsvarandi tölur um gistinætur heimamanna í Noregi voru 70,3%, í Danmörku 62,9%, í Finnlandi 69,2% og í Svíþjóð 75,1%.

Núna standa Íslendingar frammi fyrir einstöku tækifæri til að upplifa landið sitt og þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu mörg undanfarin ár. Aðgengi er með besta móti og það sem meira er að verðin sem í boði eru fyrir þjónustuna eru frábær. Sumarið hefur alla tíð verið hábjargræðistími ferðaþjónustunnar hér á landi - þá koma tekjurnar inn sem hafa gert fyrirtækjunum kleift að lifa veturinn af. En þrátt fyrir góða þátttöku Íslendinga í ferðasumrinu mun það því miður ekki duga mörgum fyrirtækjum sem lífsforði yfir veturinn.

Það er kreppuvetur framundan

Á eftir sumri kemur vetur og við megum ekki missa sjónar á því að við erum enn úti í miðri á. Segja má að höfum komið reipi í bíl sem stendur úti í miðri á, en eigum eftir að draga hann að landi. Alveg er óvíst í hvaða ástandi bíllinn kemur úr því volki.

Ferðaþjónustan hefur verið að byggjast upp á síðustu árum með gríðarlega miklum krafti. Um land allt hefur ferðaþjónusta sprottið upp og bætt lífsgæði okkar til muna. Ferðaþjónustan hefur skapað störf og hleypt lífi í hinar dreifðu byggðir og þannig orðið eitt mikilvægasta tæki til byggðaþróunar og efnahagsuppbyggingar sem sést hefur.

Það er vonandi að sumarið verði gjöfult fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og að okkur takist vel til við opnun landamæra. Hins vegar er morgunljóst að ef ferðaþjónusta á að geta dafnað á Íslandi til langrar framtíðar verða stjórnvöld áfram að standa vaktina með greininni. Verkefnin framundan verða mörg og erfið, en sameiginleg uppskera þeim mun betri ef árangur næst.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.