Við vitum flest að heilbrigðiskerfið á Íslandi er ekki eins og það á að vera. Oft er eins og sjúklingurinn sjálfur sé hálfgerður „hliðarskaði“, „collateral damage“, þegar hann leitar sér lækninga. Hugtakið er notað yfir það þegar hernaðarárás veldur tjóni á saklausu fólki eða mannvirkjum sem voru ekki skotmörk atlögunnar.

Íslenski sjúklingurinn er hliðarskaði í stríðinu gegn því að aðrir en ríkið sjái um heilbrigðisþjónustu. Þetta stríð byggir á fallegum ásetningi, um að við eigum öll að hafa jafnan aðgang að þjónustunni, án tillits til efnahags.

Þegar ríkið einokar heila þjónustugrein verður það að ákveða hversu miklu bolmagni skuli beina í hina og þessa þætti hennar. Þetta fyrirkomulag er kallað miðstýring og það gengur ekki upp.

Þótt skipuleggjendurnir séu okkar gáfuðustu og góðhjörtuðustu sérfræðingar og allir af vilja gerðir geta þeir ekki þekkt síbreytilegar, margvíslegar og einstaklingsbundnar þarfir þúsunda sjúklinga. Þess vegna geta þeir ekki heldur stillt þjónustuna rétt af miðað við þær þarfir.

Þar kemur ekkert í staðinn fyrir verðið, sem gefur vísbendingar um það hvar þörfin er mest, og umbunina sem fólk fær fyrir að vera sveigjanlegt og standa sig vel. Þannig fæst besta jafnvægið milli þarfa og þjónustu, þótt það verði aldrei fullkomið.

Afleiðingar miðstýringar eru andstæða manngæskunnar sem felst í ásetningnum: kaldranalegt og miskunnarlaust kerfi utan um skort, biðraðir og mismunun, þar sem hinir auðugu leita annað og almenningur situr í súpunni.

Þótt það hljómi einkennilega í eyrum sumra á þessum pólaríseruðu tímum vill fólk af öllum vængjum stjórnmálanna láta gott af sér leiða. Það er ekki fylgjandi núverandi ástandi í heilbrigðiskerfinu.

Þó hefur aðeins eitt stjórnmálaafl, Viðreisn, talað af skynsemi um þennan mikilvæga málaflokk og gegn þeirri ríkisvæðingu sem átt hefur sér stað á síðustu árum. Fyrir það ber að þakka, en óskandi væri að fleiri flokkar fylgdu í kjölfarið, þótt ekki væri nema fyrir börnin okkar og framtíð þeirra.

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, sem kom út 10. nóvember.