„Ef þetta væri bara svona einfalt! Ef þetta væri bara þannig að vonda fólkið fremdi ódæðisverkin, og við þyrftum bara að króa það af og tortíma því. En skilin á milli góðs og ills liggja í gegnum hjarta hverrar manneskju. Og hver vill tortíma hluta af sínu eigin hjarta?“

Svo skrifaði Aleksandr Solzhenitsyn í Gúlag eyjaklasanum, þar sem hann lýsti sovéska nauðungarbúðakerfinu. Hann áttaði sig á því að veröldin væri ekki svarthvít. Hún er margslungnari en svo, að hægt sé skipta mannkyninu í góða liðið og vonda liðið.

Við búum öll yfir frumstæðum hvötum sem við reynum að beisla með rökhugsuninni ...

Ekkert okkar er algott, eða fullkomið. Eitt helsta viðfangsefni okkar í lífinu er að ná taumhaldi á okkur sjálfum. Við búum öll yfir frumstæðum hvötum sem við reynum að beisla með rökhugsuninni, þannig að gjörðir okkar ráðist af hinum almennt viðurkenndu siðferðisreglum sem ganga út á að skaða ekki annað fólk. Við berjumst við dýrslegar kenndir augnabliksins sem hugsa ekki um afleiðingar sínar í framtíðinni og reynum að hegða okkur þannig að langtímahagsmunir okkar séu í fyrirrúmi.

Þetta tekst okkur misvel. Stundum eigum við erfitt með að átta okkur almennilega á samhengi gjörða og afleiðinga. Stundum eigum við við sérstaklega erfiða ára að etja – frumstæðar og illviðráðanlegar hvatir sem er ekki svo auðvelt að láta ekki stjórna sér. Stundum höfum við orðið fyrir ofbeldi eða áföllum í æsku sem hafa brenglað tilveruna og tilfinninguna fyrir því hvað er rétt og rangt, þannig að lífið snýst um að láta þær misgjörðir bitna á hverjum þeim sem fyrir verður.

Það er svo þægilegt að skipa sér í lið og ákveða að hinum megin séu bara óalandi og óferjandi skrímsli, en við erum bara manneskjur. Og skilin milli góðs og ills liggja í gegnum hjarta okkar sjálfra.